Hjá Útlendingastofnun eru vinnubrögðin svo vönduð (eða hitt þó heldur) að forstjórinn Kristín Völundardóttir hafði ekki hugmynd um að í Albaníu væri heilbrigðiskerfið einkarekið. Hún kom „alveg af fjöllum“ um þetta eins og hún viðurkenndi áðan í viðtali við Helga Seljan í Kastljósi.
Þó hafa málefni Albaníu verið mjög á döfinni hjá stofnun hennar í mörg misseri.
Þótt Kristín skoði kannski ekki hvert einasta mál í þaula sjálf, þá á hún auðvitað að þekkja heildarmyndina.
Og þegar málið snýst um lítil veik börn - þá gilda engar afsakanir. Þá á hún einfaldlega að vita allt sem þörf er á að vita um möguleika barnanna á að fá almennilega heilsugæslu í heimalandi sínu.
Að Kristín hafi ekki einu sinni vitað þetta fúndamental atriði um ástandið í Albaníu, það sýnir að hún og stofnun hennar duga ekki.
Við eigum aldrei að láta fólk sem ekki dugar sjá um viðkvæm mál, sem snúast um manneskjur. Tala nú ekki um lítil veik börn.
Nú er okkur sagt að við eigum að kenna lagarammanum um hörkuna sem Útlendingastofnun sýnir, ekki því góða fólk sem þar vinnur.
En mér sýnist einfaldlega að Kristín Völundardóttir sé ekki hæf til að gegna sínu starfi.
Að hún hafi ekki vitað þetta, það er endanleg sönnun þess.
Alveg burtséð frá þeirri ömurlegu fullyrðingu sem hún bar á borð um að albönsku fjölskyldurnar hefðu sjálfar óskað eftir að vera fluttar úr landi. Eins og Hermann Ragnarsson hefur sýnt fram á, þá var sú fullyrðing í besta falli hálfsannleikur. Og íslenskir embættismenn eiga ekki að bera fram hálfsannleik fyrir fólk.
Það heitir í rauninni bara lygi.
Og íslenskir embættismenn eiga ekki að ljúga upp á fólk, allra síst upp á okkar minnstu bræður og systur.
Þó þau séu frá Albaníu.
Athugasemdir