Rétt rúmlega 10 í morgun fékk ég mér göngutúr. Bæði vantaði mig sárlega Panodil Hot til þess að særa út restina af flensunni sem er enn að hrjá mig, og svo langaði mig að komast aðeins frá skjánum og út á meðal fólksins. Taka púlsinn á götunni, daginn eftir að handsprengju var kastað inn á heimili okkar allra.
Ég rölti upp Laugarveginn, og rakst fyrst á gamlan kunningja. Við ræddum ástandið, hvort við værum kannski bara of lítil til að stjórna okkur sjálf, ef við þá á annað borð ætluðum að halda okkur við fulltrúalýðræði sem fyrirkomulag. Kannski var þetta bara ágætis tilraun sem gekk ekki upp. Byrjaði vel, en endaði vandræðalega þegar heimsbyggðin fékk fréttir af því að ríkisstjórn landsins væri óvænt bara leppur auðvaldsins til þess að mergsjúga auðlindir og þjóð.
Í Reykjavíkurapóteki heyrði ég svo fyrst útundan mér fólk sem var að ræða þáttinn frá því í gær. Ég hleraði ekki nákvæmlega, en öll stikkorðin komu fram. Aflandseyjar. Skattar. Afsögn. Það er augljóslega bara eitt mál á dagskrá þjóðarinnar í dag.
Með fjólubláa undralyfið í kassanum fór ég svo áleiðis í áttina að NoodleStation, þar sem ég ákvað að ná mér í næstu remedíu við hornösinni; rótsterka grænmetissúpu. Á móti Macland stoppaði mig Margrét Erla Maack vinkona mín, í geggjaðri múnderingu, á vespunni sinni. Við sammældums um að þetta væri ótrúlegur tími til að vinna við fjölmiðlun, og að það væri sorglegt hvernig fer, alltaf þegar frekir karlpungar fá að ráða öllu óáreittir.
Eftir að Margrét brunaði í burtu stökk ég inn á Núðlustöðina og lagði inn pöntun. Á meðan ég beið og renndi yfir nýjasta twitter grínið (#cashljós) heyrði ég útundan mér tvo menn á að giska 25 ára ræða þáttinn í gær. „Ég hélt það myndi líða yfir mig þegar hann stóð upp í viðtalinu. Sjitt sko. Þetta er það vandræðalegasta sem ég hef upplifað.“
Með súpuna mína í poka og kínaprjóna í vasanum fór ég svo þráðbeint niður á Austurvöll. Á leiðinni heyrði ég svo útundan mér hvernig öll samtöl samborgara minna fjölluðu um það sama. Gjörspillt innviði ríkisstjórnarinnar. Skattaskjól. Þingrof. Mótmæli. Bylting. Ein kona símastrunsaði í hringi við vegginn þar sem verið er að reisa hótel í gamla Hjartagarðinum og hálfpartinn öskraði í síma „Þetta er bara komið gott! Það verður að fara að gera eitthvað!“
Á Austurvelli var veðrið alveg sérstaklega gott. Ég settist á bekk rétt austan við Jón „vér mótmælum“ Sigurðsson. Svartþröstur söng í nöktu tréi og túristar, sem virtust vera þeir einu á ferli í Reykjavík með hugann við eitthvað annað, tóku myndir og pírðu augun mót sólu.
Ég var nýbyrjaður að sötra á súpunni minni þegar ég sé minn gamla vin, Jóhannes Þór, aðstoðarmann forsætisráðherra, koma út úr alþingishúsinu og rölta yfir Austurvöll, í áttina til mín. Jóhannes var þjálfarinn minn í Morfís í þrjú ár. Við urðum góðir vinir, og var hann einskonar siðferðislegur áttaviti fyrir mig á þessum mótunarárum. Hlýlegur, jarðbundinn og föðurlegur sagnfræðingur sem var akkúrat það sem hvatvísi, hrokafulli unglingurinn ég þurfti á þessum tíma.
Ég knúsaði hann. Innilega. Mér þykir virkilega vænt um Jóhannes, þrátt fyrir að við séum gríðarlega ósammála öllu sem við kemur hans starfi og stöðu í pólitík. „Það er nú soldið fyndið“ byrjaði hann að segja, „að fara frá því að hitta pabba þinn inni á þingi, og koma svo hingað út og hitta þig.“ Pabbi minn er nefnilega varaþingmaður framsóknarflokksins. Hann situr nú fyrir Gunnar Braga, sem er á Indlandi í erindagjörðum. Við pabbi erum líka miklir vinir, en á milli okkar ríkir þögult samkomulag um að ræða stjórnmál sem allra minnst. Helst ekki neitt. Hefur það haft mjög heilandi áhrif á samband okkar.
Við Jóhannes tókum aðeins stöðuna á hvor öðrum. Ég sagði honum að PanodilHot væri ekki nógu sterkt fyrir þá stöðu sem þeir félagar væru komnir í. Einu ráði sem ég gat gefið honum voru þau að algjör heiðarleiki væri langbesta meðalið í persónulegum krísum af þessari tegund. Mín eigin reynsla hefur kennt mér það að ef þú hefur ekkert að fela þá getur enginn nelgt þig. Ég hugsa að það sama ætti að gilda, þótt þú sért forsætisráðherra.
Ég trúi því nefnilega að Sigmundur geti ennþá bjargað einhverju úr rústunum af æru sinni. En þá þarf hann líka að taka algjöra u-beygju í hegðun sinni og framkomu. Strax. Sama gildir um hina stjórnmálamennina sem gripnir hafa verið við vafasama búsetu fjármagns.
Viðurkennið bresti ykkar fyrir þjóðinni. Hreinsið til í rústum fortíðarinnar. Gefið örlátlega af því sem ykkur hefur hlotnast, og sláist í för með okkur. Þjóðinni. Hinum almenna Íslending. Fáum framsóknar- og sjálfstæðisfólk með okkur í herópið fyrir breyttum tímum. Stígum eitt skref saman á vegi gæfu og gengis. Inn í nýja og fallega framtíð fyrir skrítna fólkið á spilltu eyjunni.
Ég knúsaði Jóhannes líka í kveðjuskyni. Sagði honum að fara vel með sig. Sat svo, sötraði súpuna mína og lét mig hlakka til þess að hitta ykkur öll á Austurvelli á eftir.
Athugasemdir