Hver kannast ekki við kallinn sem veit allt? Það er sama að hverju þú spyrð, hann veit svarið. En þegar betur er að gáð þá er það reyndar ekki alltaf rétta svarið.
„Veistu hvernig ég kemst til Húsavíkur?“ „Já, þú keyrir bara þennan veg og svo beygirðu til suðurs. Þá sérðu fljótlega skilti sem segir Húsavík.“ Nokkrum kílómetrum síðar hefur bílstjórinn fjarlægst Húsavík frekar en að nálgast. Hvers vegna getur viðkomandi bara ekki sagt, „ég veit það ekki“? Er hann þá minni maður?
Menn sem vita allt eru oftast karlmenn komnir vel yfir miðjan aldur. Verður maður kannski svona við það að eldast? Eða voru þessar týpur alltaf svona og eru nú sem betur fer smám saman að deyja út?
Eru þetta leifar af þeim tíma þegar karlmenn áttu að vera sterkir og vita allt og konur áttu að vera fallegar og góðar? Eða frá þeim tíma þegar fáir voru með svo mikla menntun og svifu yfir pöpulnum sem var bara heppinn að fá viðtalsbil. Fáir þorðu að spyrja gagrýnna spurninga, fáir tömdu sér gagrýna hugsun. Læknar, lögfræðingar og verkfræðingar vissu allt og við hin tókum bara við upplýsingunum sem var heilaga ritningin. Ekki spyrja, bara hlusta og hlýða. Þakka svo fyrir snilldina því annað var ókurteisi.
„Ekki spyrja, bara hlusta og hlýða. Þakka svo fyrir snilldina.“
Ég man eftir því þegar Jón Gnarr var nýorðinn borgarstjóri og hann var í viðtali á einhverri sjónvarpsstöðinni. Hann fékk spurningu sem ég man ekki lengur hver var en ég man svarið. „Ég bara veit það ekki. Ég skal spyrjast fyrir hjá borginni og senda þér svarið.“
Þarna vissi ég að við vorum alla vega komin með heiðarlegan borgarstjóra. Því það er í rauninni ekkert sterkara en að geta viðurkennt að maður veit ekki allt. Sá sem veit allt er oftast að búa sanleikann til reglulega. Þetta var nýtt í stjórnmálum á þeim tíma og fleiri hafa tekið þennan heiðarleika í svörum upp sem betur fer.
Ég átti nýlega í samskiptum við lækni sem þóttist vita allt. Í hroka sínum gat hann ekki einu sinni svarað spurningum mínum því hann var svo yfir mig hafinn. Hann var læknir en ég bara auglýsingakall. Því svaraði hann mér í samtali í síma þar sem ég spurði út í ákveðin lyf sem pabbi minn var á: „Ég hef ekki orku eða tíma til að tala um slíka hluti við þig. Læknirinn ákveður lyfin.“ Svo lagði maðurnn símtólið á og ég heyrði sóninn í símanum. Þarna sat ég eftir eitt spurningarmerki en eitt var öruggt. Hann sleit fleiru en símtalinu því traust mitt á þessum lækni var farið.
Þessi tegund er sem betur fer að deyja út. Flestir læknar sem ég hef talað við nýlega haga sér ekki svona. Þeir vita eins og við að sá sem veit allt veit ekki neitt. Enda þegar ég bar þessa hegðun upp á réttum stað var farsællega fundin lausn fyrir pabba minn og nú höfum við systkinin samskipti við annan lækni sem gengur mjög vel.
Sá sem veit allt er ekki til. Sá sem þykist vita allt er því miður til en sem betur fer á undanhaldi. Heimur batnandi fer, það veit ég, en ég veit ekki mikið meira. Internetið veit flest fyrir þá sem kunna að leita sem betur fer.
Athugasemdir