Það er ein saga af honum Búdda vini mínum sem ég segi oft. Hún gerist þegar hann er orðinn gamall og feitur. Í mörg ár hékk hann nefnilega með félögum sínum, borðaði góðan mat, hugleiddi, hló, og naut síðustu jarðvistar sinnar vitandi að hans ferð í rússíbana hringrásar lífs og dauða væri senn loksins að enda. Fyrir fullt og allt. Svo kom að því, eftir nokkur ár af því sem best væri lýst sem norður-Indverska 6. öld fyrir krist-útgáfan af því að hanga bakaður með félögunum á bótum í Playstation og éta Dominos, að hann áttaði sig á því að hann væri að sóa síðustu jarðvistinni í tóma vitleysu. Hann fór þá að flakka um Norður-Indland og segja frá þeim sannleik sem hann taldi sig hafa uppgötvað í gegnum hugleiðslu, og kenna fólki hvernig það gæti öðlast sömu reynslu.
Og það er á þessum tíma sem sagan gerist. Búdda var mikið seleb, og kenningar hans vel þekktar á meðal almennings. Þannig að þegar Búdda fór á tímabili, einu sinni í viku, í einn ákveðinn bæ að kenna vissu allir hver væri þar á ferð. Við hliðið inn í bæinn voru kaupmenn. Einn þeirra kunni alveg sérstaklega illa við Búdda og áhrifin sem áherslur hans um að auður og efnisleg gæði væru óvaranlegt drasl höfðu á kauphegðun bæjarbúa. Í hvert einasta skipti sem Búdda gekk framhjá honum veittist kaupmaðurinn að honum, og hellti úr skálum reiði sinnar: „Þú ert nú meiri djöfulsins hræsnarinn og drullusokkurinn. Fyllir lýðinn af lygum og dellu og fitnar svo á gefins mat. Þú ert bara letingi sem nennir ekki að vinna, og ert að reyna að breyta okkur öllum í aumingja eins og þig!“ Eitthvað á þessa leið var mantran hans í hverri viku, og aldrei haggaðist Búdda. Hann brosti, eins og alltaf, og gekk sultuslakur fram hjá þessum hatursfulla manni.
Eftir nokkrar vikur af þessu gafst kaupmaðurinn upp, stöðvaði Búdda, bugaður, og sagði: „Nú hef ég verið að reyna að segja þér skoðun mína á þér, en þú brosir bara og labbar framhjá mér eins og þú sjáir mig ekki. Ég veit alveg að þú sérð mig! Afhverju sýnirðu mér engin viðbrögð?“ Búdda svaraði: „Sjáðu til, ef einhver reynir að gefa þér gjöf, og þú hafnar henni, þá er hún ennþá eign þess sem reyndi að gefa þér hana, ekki satt?“ „Jú,“ svaraði kaupmaðurinn. „Að sama skapi þá reynir þú að gefa mér hatur þitt, en af því ég hafna því, þá situr þú einn uppi með það. Reiði er eins og að taka inn eitur, og vona að einhver annar deyi.“
Undarfarnar vikur hefur fólki með ólíka lífssýn lent saman. Sumir vilja hjálpa flóttamönnum en aðrir eru hræddir við það. Sumir vilja aðstoða kúgaða Palestínumenn með öllum þeim verkfærum sem smáþjóð býr yfir, aðrir óttast að styggja fjársterka aðila. Þar sem fólk með sitt hvora skoðunina mætist verður hávaði. Yfirlýsingar um greindarskort og aumingjagæsku fljúga yfir víglínuna, en enginn sannfærist um ágæti hins málstaðarins. Ég man í svipinn ekki eftir því að hafa lesið mörg internet-rifrildi síðustu daga þar sem annar aðilinn nær að sannfæra hinn, með niðurstöðunni „Vá, þegar þú kallaðir mig heimskt rasistafífl þá algjörlega breyttist lífssýn mín. Núna skil ég. Takk.“
Ég hef a.m.k. aldrei náð að breyta neinu til hins betra með hroka og yfirlæti. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Fólk sem hræðist brúna útlendinga með skegg og slæður og reiði ríku gyðingana mun ekki breyta um skoðun ef við ausum fúkyrðum yfir þau. Reiði og hræðsla verða ekki læknuð með neinu, nema kærleik.
„Reiði og hræðsla verða ekki læknuð með neinu, nema kærleik.“
Mun líklegra að árangur náist ef við mætum illa upplýstu fólki með væntumþykju og uppfræðslu. Mætum græðgi þeirra, sem taka fjárhagslega hagsmuni framyfir tilraunir til að stöðva þjóðarmorð, með ást og skilning á því hversu takmarkandi fyrir heimsýnina það hlýtur að vera að alast upp með munninn fullan af silfurskeiðum og hausinn fullan af þeim misskilningi að peningar geti raunverulega keypt þér hamingju.
Tilraunir á sviði sálfræði sýna líka að jákvæð skilyrðing virkar margfalt betur en neikvæð. Það að leiðbeina barni sem gerir eitthvað vitlaust með því að segja „nei, en kannski væri betra að gera þetta svona“ í staðinn fyrir að öskra á það að um vitleysu sé að ræða er sem sagt ekki bara ánægjulegri upplifun fyrir alla aðila, heldur mun líklegra til árangurs.
Prófum þá næst, þegar einhver sýnir viðhorf sem verða til í ótta og fáfræði, að segja: „Áhugavert að þér finnist þetta, en hefuru velt því fyrir þér að Íslam var tilraun til þess að sameina öll trúarbrögð. Vissirðu að þeir trúa líka á Jesús, og finnst mikið til kenninga hans koma. Að á miðöldum var Íslam kristninni mun fremri þegar kom að vísindum og listum. Að langlangflest hryðjuverk eru framin af rasistum og að langlangfæst eru framin af Múslimum.“ Eða: „Ég skil að þú viljir ekki valda fólki fjárhagslegu tjóni með svona gjörningi, en ef hann getur komið í veg fyrir líkamlegt og andlegt tjón annars fólks, er það þá ekki aðeins réttlætanlegra?“
Þetta er ekkert alltaf auðvelt. Oftast eru mín fyrstu viðbrögð við fordómum og græðgi, reiði og fyrirlitning. Og svörin eru fyrirsjáanleg. Fólk sem lætur stjórnast af ótta mun áfram vera dónalegt. En ef þú vilt komast upp úr forarpyttinum, og gera eitthvað sem raunverulega skiptir máli, þá mætir þú þeirri hegðun með meiri ást, og meiri skilningi. Því það eina sem getur útrýmt hatri er ástin. Kill them with kindness. Já bara kæfum þau í kærleik.
Athugasemdir