Ég er grunnskólakennari. Ég er sérgreinakennari í tónlist og kenni að meðaltali 250 börnum á hverjum vetri. Þetta eru allt yndislegir englar. Já eiginlega allir, nema kannski, einn sparkaði í píanóhöndina mína í síðustu viku, einn öskraði upp í eyrað á mér nýlega og nokkrir stukku á mig á gangi. En yfirleitt eru nemendurnir allir englar á sinn hátt.
Foreldrarnir vilja stundum stjórna því hvað er að gerast í kennslustofunni. Foreldrar vita nefnilega alltaf allt betur en kennarar og eru aðal fagfólkið, eða er það ekki? Foreldrum finnst líka sjálfsagt að kennarinn sé á vakt allan sólarhringinn að svara tölvupóstum, sem sumir eru ekki alltaf fallega orðaðir og jafnvel í skipunartón. Ég held stundum að foreldrar haldi að kennarar séu reiðiventill sinn í erfiðu nútímasamfélagi… spurning hvort kennarastarfið hafi ekki verið aðeins áhyggjuminna fyrir öld upplýsingatækninnar?
Ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef sumir foreldrar sæju til barna sinna í tímum, ef til vill myndu þeir þá byrja að rita þakklætis- og hvatningarpósta um kvöld og helgar í stað reiðipósta til kennara.
Ég tek stundum að mér sálgæslu, ég hugga, plástra, hlusta á endalausar sögur um allt og ekkert, umber ýmislegt, það er oft togað í mig, hrifsað í hálsmenin mín, mér er klappað mjúklega og stundum fast. Ég er á hverjum degi í hávaða sem er yfir skynsamlegum mörkum. Ég er oft föðmuð og fæ að heyra hvatningar- og þakklætisorð og ég fæ vissulega líka marga hlýja kveðjuna.
Hugsjónastarf en launin gleðja ekki
Ég er sérfræðingur í því að fylla út stimpilklukkur og skrá tíma minn, það hef ég lært í kennarastarfinu og um það eru gerðar kröfur því sveitarfélögin þurfa að vita í hvað kennarinn er að nota tímann - sum sveitarfélög draga jafnvel laun af kennaranum, ef hann fyllir ekki alveg inn í tímarammann. En fær kennarinn eitthvað fyrir allar yfirvinnustundirnar sem hann skráir líka samviskusamlega? Nei, sveitarfélögin draga bara af en greiða yfirleitt ekki yfirvinnuna og í öllum tilvikum sem ég þekki aðeins hluta hennar.
Ég er góð í ýmsum tölvukerfum, sem ég þarf að kunna á, ég er snillingur í mínu fagi og fæ oft hrós fyrir verk mín með eða án nemenda.
Ég fæ líka faðmlög, bros, þakkir og fallega pósta sem gleðja hjartað en verð að viðurkenna að launin sem ég fæ gleðja ekkert sérstaklega budduna og 67% þeirra fara beint í húsaleiguna á sífellt erfiðari húsnæðismarkaði.
Ég er í þessu starfi af því þetta kann ég vel og geri það af hugsjón og mig langar einlæglega að miðla þekkingu minni og tendra og virkja hæfileika ungra nemenda minna.
Nú er ég eina ferðina enn á ferli mínum að upplifa þessa leiðinlegu kjarabaráttu. Ég sagði já við síðasta samningi sem var felldur af meirihluta kennara af því að mig langar hreinlega ekki í verkfall - og mér leiðast þessi átök.
Mig langar mikið að halda áfram að vera grunnskólakennari og geta starfað í friði án þess að vera í kjarabaráttu á nokkurra ára fresti, án þess að þurfa að vera með höfuðverk alltaf seinnihluta mánaðar, hvernig ég eigi að láta enda ná saman, án þess að láta mér leiðast að ég er sú eina í vinkonu-hópnum sem hef aldrei efni á því að fara í frí til útlanda, já eða bara góða ferð innanlands, nema mér sé boðið. Sem betur fer fara kennarar stundum í námsferðir, en það þarf jú líka að greiða þær og það geta ekki allir.
Skólakerfið okkar er í hættu
Mig langar að halda áfram að hugsa um framtíðina og byggja undir hana, með því að kenna nemendum mínum allt sem ég kann - það er samt spurning hvað maður er reiðubúinn að leggja mikið á sig. Það er spurning hvað maður er reiðubúinn að taka afskipta- og virðingarleysi ráðamanna og sumra foreldra lengi. Ég hef hugsað mér að vera í þessu starfi að minnsta kosti nokkur ár í viðbót, á meðan ég hef líkamlegt þrek til.
Ef hins vegar hirðuleysið í ráðamönnum, sveitarstjórnum, sumum foreldrum og þeim sem að uppfræðslu ungra Íslendinga koma heldur áfram - og virðingarleysið í garð íslenskra kennara í skólum landsins og þess góða starfs sem þeir vinna heldur áfram með þeim hætti sem verið hefur - þá sé ég mér ekki fært að starfa lengur á þessum akri. Þá ætla ég að finna mér annan akur til að yrkja.
Sem betur fer er eins og margir í samfélaginu séu að vakna til vitundar um þá hræðilegu staðreynd að skólakerfið okkar er í hættu! Það er lítil nýliðun inni í stéttinni. Hver vill fara í fimm ára meistaranám í háskóla og taka á sig þær fjárhagslegu byrðar sem því fylgir og geta ekki eignast þak yfir höfuðið? Hver vill taka að sér að vera með 20-25 nemenda bekk, þar sem eru 3 til 7 nemendur sem eru með greiningar og þurfa séraðstoð eða hjálp inni í kennslustofunni, en hana er ekki að fá því sífellt er minna um stuðning, skólinn kreppir alltaf meira hjá sveitarfélögunum. Svo eru fjölmiðlar og foreldrar undrandi yfir tíðni eineltismála í slíku umhverfi! Hver vill vera stuðpúði fyrir reiða og þreytta foreldra í samfélagi þar sem bankar og fjármagnsstofnanir eru aðalatriði? Hver vill taka á móti fullt af nýjum Íslendingum og kenna þeim á tungumáli sem þau skilja ekki? Berð þú tilhlýðilega virðingu fyrir því góða og mikla starfi sem grunnskólakennarinn vinnur á hverjum einasta degi, lesandi góður?
Tími kominn á breytingar
Ég bjó eitt sinn í landi þar sem grunnskólakennarinn var þéraður og foreldrar þökkuðu honum fyrir og gáfu gjafir. Þar gat kennarinn lifað góðu lífi á sínum launum. Kennarar á Íslandi eru komnir talsvert neðar í launum en til dæmis á hinum Norðurlöndunum og nú er komin tími til að gera breytingar, virða starf kennarans og gera kennarastarfið eftirsóknarvert, bæði í launalegu tilliti, virðingarstiga og vegna ábyrgðarinnar sem kennarinn, sem er jú fararstjóri fyrir stóra hópa ferðalanga á ólíkum stigum og mismunandi löngum leiðum í tíma, á lífsgöngunni sinni.
Athugasemdir