Ég hef átt nokkuð flókið samband við íþróttir í gegnum ævina. Mig langaði alltaf að vera góður í íþróttum en hef alltaf verið nokkuð mikill klunni þannig það hefur aldrei gengið sérstaklega vel. Ég æfði meira að segja fótbolta í nokkur ár en gafst að lokum upp. Síðan þá hef ég svo gott sem gefist upp á íþróttum og átt voða erfitt með að skilja spennuna sem sumir finna fyrir þegar leikur er í gangi.
Ég hef hins vegar mjög mikinn áhuga á stjórnmálum, áhugi sem hefur vaxið stöðugt síðan ég var unglingur. Ég hef þó tekið eftir því að íþróttir eiga alveg ýmislegt sameiginlegt og það sést sérstaklega þegar maður skoðar bæði í gegnum augu fjölmiðla. Íþróttir eru að mörgu leiti að ganga í gegnum svipuð vandamál og stjórnmál þessa daganna. Hvort sem það er FIFA eða Ólympíuleikarnir í Rio er ljóst að mikil spilling þrífst í heimi íþróttanna. Mikið ójafnrétti er að finna þegar kemur að stuðningi við ákveðnar íþróttagreinar svo maður byrji nú ekki að ræða muninn á því hvort iðkendur séu karlar eða konur.
Að mörgu leyti má segja að fjölmiðlar noti svipaðar aðferðir í fréttaflutningi um stjórnmál og þegar þeir fjalla um íþróttir. Þeir fjalla um hvaða flokkar eiga möguleika á að komast í ríkisstjórn eða mynda meirihluta rétt eins og það væri verið að fjalla um stöðu fótboltaliðs á Evrópumóti. Þá er líka fjallað um skoðanakannanir eins og um stöðu í keppnisíþrótt væri að ræða. Sjónarhorninu er beint að stjórnmálamönnum sem leiða lista flokkana rétt eins og fótboltamennina sem skora flest mörk. En þótt íþróttir kunni að vera áhugaverðar og stjórnmál kunna að vera áhugaverð þá eru leikreglurnar fyrir þessa tvo hluti ólíkar og eðlilega gerum við ekki sömu kröfur til stjórnmálamanna og við gerum til íþróttamanna.
Það hefur verið frábært að vera Pírati og fylgjast með flokknum fara á flug í skoðanakönnunum og það getur alveg verið gaman að monta sig af tölum. En þegar botninum er hvolft þá skipta þessar tölur mig í raun engu máli, ég gekk í flokkinn áður en við byrjuðum einu sinni að mælast í skoðanakönnunum. Það sem skiptir mig fyrst og fremst máli og það sem fjölmiðlar mættu vera miklu betri í að fjalla um eru sjálfar stefnur og áherslur flokkana.
Ég spjalla oft við ungt fólk sem á það sameiginlegt að það nennir ekki að kjósa. Þegar ég spyr af hverju það nennir ekki að kjósa þá er svarið oftast að flokkarnir eru allir nákvæmlega eins. Miðað við hvernig er oftast fjallað um flokkana í fjölmiðlum, þá kemur þetta svar mér lítið á óvart. Gæti það mögulega verið að hægt væri að lokka fleiri unga kjósendur á kjörstað ef við hættum að tala um stjórnmál á sama hátt og íþróttir?
Athugasemdir