Er friður milli íbúa Palestínu og Ísraels mögulegur? Margir töldu að hann væri í höfn þegar samningur sem kenndur var við Osló var undirritaður. En sú varð ekki raunin og ástæðurnar voru margar. Í þessum pistli mun ég fjalla um hugsanlegan frið sem byggir á eins ríkis lausn. En það eru örugglega sárafáir sem gæla við svo fjarlæga draumsýn.
Um möguleikann á því að skapa eitt ríki þá vísa ég til afnáms aðskilnaðar svartra og hvítra manna í Suður Afríku. Afnámið var einstakt afrek í heimssögunni. Eins og við mátti búast þá finnast ennþá litlir öfgahópar hvítra og svartra sem aldrei munu viðurkenna réttmæti þess að allir íbúar ríkisins hafi sömu borgararéttindi.
En alveg eins og í Suður Afríku þá ætti að vera möguleiki að ná fram sögulegum sáttum fyrir botni Miðjarðarhafs. Að sjálfsögðu þarf margt að breytast í stjórnmálum bæði í Palestínu og Ísrael. Afnám aðskilnaðar í Suður Afríku náðist fyrst og fremst vegna þess að sterkir leiðtogar svarta og hvítra manna gerðu sér grein fyrir því að það væri nauðsynlegt að þeir hlustuðu hvor á annan og að afnámið myndi búa þegnum landsins langþráðan frið.
Hjásögur
Margir þekkja hugleiðingar eins og þessa: Hvernig væri komið fyrir mér ef ég hefði brugðist öðru vísi við fyrir þremur árum – væri ég ekki ánægðari í dag? Svona hugleiðingar eru oft nefndar hjásögur. Það er ekki sérlega áhrifaríkt að velta þessu fyrir sér – gert er gert og við getum í fáum tilfellum snúið til baka og leiðrétt það sem við gjarnan köllum mistök. En í mörgum tilfellum getum við lært af hjásögunum – lært af mistökum okkar.
Ég ætla því að velta upp nokkrum hjásögum í deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Úrlausn þeirra verða að sjálfsögðu að miðast við daginn í dag en við getum lært margt af þessum sögum. Það væri að sjálfsögðu hægt að byrja 2000 til 3000 árum fyrir stofnun Ísraelsríkis, en ég hef ekki þá þekkingu sem þarf til að gera það. En áður en ég byrja á hjásögunum þá vil ég benda á að ofsóknir gegn gyðingum ná aldir og árþúsundir aftur í tímann.
• Hvernig væri staða gyðinga í dag ef Hitler og hans undirsátar hefðu ekki staðið fyrir svívirðilegum drápum á gyðingum – hvar sem þeir náðu til þeirra? Og ekki síður hvaða áhrif hafði aðgerðaleysi bandamanna í þessum harmleik?
• Hvernig væri ástandið nú fyrir botni Miðjarðarhafs ef Ísraelsríki hefði ekki verið stofnað?
• Hvernig væri ástandið nú ef stjórnvöld í Evrópu og Bandaríkjunum hefðu ekki lagt blessun sína yfir sjálfstæði Ísraels?
• Hvernig væri ástandið nú ef engin hryðjuverk hefðu verið unnin frá stofnun þessa ríkis? Hafa ber í huga að hryðjuverk stór og smá hafa verið unnin á báða bóga allt frá stofnuninni.
• Hvernig væri ástandið nú ef Arabaríkin hefðu ekki ráðist inn í Ísrael í sexdaga stríðinu – beinlínis með það að augnamiði að þurrka ríkið út af landakortinu.
• Hvernig væri ástandið nú ef Ísraelsríki hefði ekki hernumið stór landsvæði í kjölfar stríðsins? Í lok þess voru margir talsmenn ísraela þeirrar skoðunar að skila bæri landsvæðunum fyrir frið. En illu heilli voru þeir öflugri sem höfnuðu þeim hugmyndum.
• Hvað hefði gerst ef friðarsamkomulagið sem kennt er við Osló hefði haldið?
• Hvaða áhrif myndi það hafa ef Palestínumenn sem vinna á herteknu svæðunum fengju annað viðmót íbúa á svæðunum? Margir hafa fært rök fyrir því að komið sé fram við þá Palestínumenn sem vinna þarna eins og annars flokks manneskjur. Þar ríki ástand sem líkja megi við aðskilnaðinn í Suður Afríku.
• Hvernig væri ástandið nú ef hryðjuverk – stór og smá – væru ekki daglegt brauð fyrir botni Miðjarðarhafs? Benda má á að öfgahópar eru til staðar á öllu svæðinu. Mest ber á fylgismönnum Hamas. Og svo má nefna að hluti íbúa á herteknu svæðunum er hávær öfgahópur.
Hverjum er um að kenna
Hvers vegna berjast Ísraelsmenn og Palestínumenn? Fullir hryllings vegna drápa á saklausu fólki horfa margir til átakanna og leita í örvæntingu að sökudólgum. Og of oft finna þeir einfaldar skýringar á ástandinu. Eftir meira en þriggja ára tímabil sem seinna intifata varði þá höfðu Ísraelsmenn drepið 518 palestínskt börn og Palestínumenn drepið 107 ísraelsk börn. Og um það bil 3.700 látið lífið eða særst í átökunum. Eigum við að týna okkur í samanburði á fjöldanum sem hvor aðilinn drepur eða eigum við að finna út hvernig hægt er að stöðva þennan ófögnuð.
Suður Afríka dæmi til eftirbreytni
Aðskilnaður hvítra manna og svartra í Suður Afríku er einstakt afrek og fáir hafa trú á því að það verði endurtekið. En verðum við ekki að trúa á að hið góða sigri á endanum? Leiðtogar ríkja þurfa að ræða saman og ekki síður fólkið í löndunum. Og þegar ég segi að ræða saman þá meina ég að fólkið þarf að hlusta hvert á annað. Samræða á sér nefnilega stað ef menn týna sér ekki í málskrúði um eigið ágæti og „réttrar“ afstöðu til málanna.
Athugasemdir