Ég hef átt því láni að fagna að mennta mig og hef fengið að njóta handleiðslu bestu kennara sem ég gat hugsað mér. Ég hef verið svo lánsamur að nema tungu mína og hef notið þeirra forréttinda að yrkja á íslensku. Ég tala hér um þetta allt sem forréttindi, þar eð það er ekki sjálfgefið að maður fái að njóta slíkra kosta. Ég hef fengið að fljúga á vængjum tungumálsins og hef fengið að setja fagrar hugsanir í bundið mál. Tungumálið hefur verið mitt vinnusvæði og mín verkfærakista. Kannski er ég bara heppinn. Kannski er ég heppinn að vera í hópi þeirra síðustu sem tala þetta fallega mál.
Áhugi minn á íslenskri tungu, íslenskri menningu og fordómalausum hugsunum var vakinn í æsku. Fólk mitt talaði fallegt og mergjað mál sem ég vildi læra og vildi gera að mínu lifibrauði.
Síðustu árunum hef ég varið í heimspekinám og svo lauk ég núna síðast kennaranámi. Hef sem sagt leyfi til að kenna framhaldsskólanemum og get reynt að verða fyrirmynd. En það var núna í kennaranáminu að ég áttaði mig á því að þau forréttindi sem ég hef notið, gagnvart hinu ástkæra og ylhýra tungumáli mínu, eru á þrotum. Þetta yndislega tungumál er ekki lengur í boði.
Ungt fólk sem ég hef umgengist sem kennaranemi og einnig sem aðstoðarkennari í Háskóla Íslands, sýnir mér að íslensk tunga hefur markvisst verið eyðilögð. Samfélagið er gegnsýrt að græðgi og djúpstæðri von um að ameríski draumurinn muni rætast á Íslandi. Stjórnvöld hafa – eflaust einkum í sparnaðarskyni – leyft tungunni að dofna og nú er svo komið að við okkur blasir andvana aumingjadómur; samsuða ensku og innantóms orðagjálfurs. Líklega ein hrokafyllsta og um leið aumkunarverðasta tilraun útkjálkasamfélags til að gleypa heiminn. Það er hinum skammsýna manni ekkert annað en sjálfsögð viðleitni að fórna tungumáli sínu á altari græðginnar.
„Ég er ekki að vara við.“
Ég er ekki að vara við. Ég er að tala um það sem nú þegar hefur gerst.
Ég lét nemendur í umræðuhópum fá spurningar og laumaði nokkrum sjaldgæfum orðum í spurningarnar. Ég vildi vekja unga fólkið til umhugsunar um íslenska tungu. Og ég komst að því að ég nota afar mörg orð yfir hugtök sem tvítugir Íslendingar kunna ekki skil á. Unga fólkið kann ensku orðin yfir hugtökin. En íslensku orðin eru þeim framandi. Málfar unglinga, orðaval, málskilningur og frágangur margra þeirra verkefna sem ég hef séð á síðustu árum, er til háborinnar skammar. Og ég er sannfærður um að 12 ára börn á mínum æskuslóðum töluðu margfalt betri íslensku en flest fólk á þrítugsaldri gerir í dag. Hnignunin er svo skelfileg að vart er hægt að koma orðum að án þess að tárast.
Við höfum fórnað íslenskunni á altari hégómans og nú verður ekki aftur snúið. Allt ber að sama brunni. Ungt fólk segir mér að krafa foreldranna sé að börnin taki stúdentspróf og nemi síðan þau fræði sem gefa von um peningalegan hagnað. Læknar, lögfræðingar, viðskiptafræðingar og verkfræðingar eru helstu starfsheitin sem foreldrar vilja koma á börn sín. Og ég hef heyrt foreldra segja að ekki komi til greina að börn þeirra verði iðnaðarmannaaular eða fátækir listamenn. Einn faðirinn spurði mig að því hvað hann ætti að gera til að sannfæra dótturina um að hverfa frá einhverju hönnunarkjaftæði sem hún var búin að hengja sig í, að hans sögn.
Auðvitað nota ég hér alhæfingartón og set allt samfélagið undir einn og sama hattinn. Hér eru undantekningarnar svo fáar að þeirra þarf vart að geta. Obbinn er þröngsýnt fólk sem ekki þorir að hugsa út fyrir ímyndaðan ramma. Æsku landsins er ætlað að passa í kassa og við eigum öll að verða ógeðslaga rík. Samfélagsmeinið er þess eðlis að allir skammast sín fyrir það, en enginn þorir að benda á eigið mein. Óttinn við að verða fátækur og lífsglaður listamannsræfill er svo ógurlegur að betra er að verða undirgefin skrifstofublók eða hreinræktaður peningaþræll, sem sér hamingjuna í núllum á bankareikningi. Peningar eru mælikvarði alls.
Samfélagið hefur rýrt öll hin fegurstu gildi. Við áttum eitt sinn Barnamenningarsjóð, sem ýtti undir framleiðslu íslensks efnis. En ríkið hefur ekki efni á slíku í dag. Við skattleggjum bækur og styttum skólaskyldu vegna þess að við höfum ekki efni á að hafa börnin okkar í skóla. Við borgum kennurum lúsarlaun. Við höldum í kennsluaðferðir sem eru ódýrar, jafnvel þótt mörgum sinnum betri aðferðir sé hægt að brúka. Íslenskukennsla og margt annað sem er á boðstólum er svo leiðinlegt að það er engum bjóðandi. Margt er ekki annað en tilgangslaust stagl og svo innantómt bull að það ætti aldrei að hafa farið af stað. Hið opinbera er virkur þátttakandi í hinu botnlausa kjaftæði.
Grátstafir og ekkasog koma á milli stuna sem segja: -Það er svo dýrt.
Menningin líður skort. Og jafnvel þótt það sé margsannað að hver króna sem til dæmis fer frá ríkinu í kvikmyndagerð, tónlist, leiklist, myndlist og aðrar greinar, skili sér margfalt, þá er alltaf sami vælutónninn: – Það er svo dýrt.
Í dag er svo komið að nemendur í framhaldsskólum nenna fæstir að sinna heimanámi. Auðvitað eru til undantekningar. En almennt er ástandið ömurlegt. Ég hef verið að kenna og ég hef rætt við kennara. Sagan er sú sama. Menn segja mér að virðing fyrir námi fari þverrandi og að íslenskan sé í andarslitrunum.
Já, Jónas minn kæri ég klaga í þig
því kreppan á Íslandi gagntekur mig:
hin andlega fátækt er orðin svo virk,
til útlanda sækja menn sálrænan styrk
og tungunnar eðli er týnt eða gleymt
þótt talmálið sjálft sé í hugskotum geymt.
Kæri Jónas það er magnað okkar mál,
það er mjúkt og það er líka hart sem stál.
Já, þú varst ástmögurinn besti,
þú varst ættarsóminn mesti
draumur Íslendingsins bjó í þinni sál.
Athugasemdir