Í nýlegri grein á Stundinni, Íslenskan er dauð, kemst Kristján Hreinsson að kjarna málsins hvað snertir ástæður yfirvofandi dauða íslenskunnar – níska, glámskyggni og andleysi græðgisvaldanna sem landinu stýra – en skýtur sig í leið í fótinn með fáránlegum fullyrðingum á borð við:
„Ég hef fengið að fljúga á vængjum tungumálsins og hef fengið að setja fagrar hugsanir í bundið mál.“
Í grein hans gætir nefnilega kunnuglegs (og, að mestu, karllægs) montbelgja-syndróms: í breyttum heimi, þar sem yfirburðagreindi hæfileikakarlinn er ekki lengur metinn að verðleikum, neyðist yfirburðagreindi hæfileikakarlinn til að básúna sjálfur eigið ágæti. Sjáðu hvað ég er góður í íslensku!
Og svo slær Kristján einnig, þessi mikli og framúrskarandi íslenskumaður, sjálfskipaður seiðkarl íslenska orðagaldursins, þennan einkennilega tón:
„Og ég er sannfærður um að 12 ára börn á mínum æskuslóðum töluðu margfalt betri íslensku en flest fólk á þrítugsaldri gerir í dag. Hnignunin er svo skelfileg að vart er hægt að koma orðum að án þess að tárast.“
Vá, sko. Nostalgíu-Nonni lympast tárvotur fram á snotra fartölvulyklaborðið sitt. Aumingja karlinn; öll hljótum við að gráta þennan horfna heim þar sem tólf ára börn voru svona ægilega mælsk.
Mér finnst svo merkilegur þessi nöldurstíll sums eldra fólksins í tengslum við afdrif móðurmálsins okkar; tökum grein Kristjáns sem dæmi. Hún er nokkuð tilþrifalítil, stíllinn snautlegur og hálf-flatur, málflutningurinn og hugmyndirnar afar eintóna – ég þekki ótal unga höfunda, sem rita greinar og margir jafnvel bækur, sem eru miklu ritfærari en hann, og þó telur hann það þarflegt verk að birta sleggjudóma um tugþúsundir yngra fólks á Íslands (ég tek þó fram að hann hefur einnig margt til síns máls (aftur: græðgin)). En það vottar svo oft fyrir einhverri einkennilegri ímyndunarveiki hjá sumu eldra fólki sem tjáir sig um íslenskuna; einhverrar grillu um að brátt fari undir græna torfu kynslóðir sem mæltar voru á gullaldaríslensku og við taki slefandi idíótamergð sem „kann ensku orðin yfir hugtökin“ en ekki íslensku. En ef svo er, hvar eru þá allir þessir eldri snillingar nú, árið 2017, hin fagurmælta framlínusveit sem talar svo hunangssæta og æðislega íslensku? Og af hverju byggði þetta gulltyngda fólk, til dæmis ’68-ofurhetjukynslóðin, sem ég hygg að KH tilheyri, þá ekki upp samfélag þar sem íslensk hugsun og málsnilli eru metin að verðleikum? Hvar eru allir þessir dáðadrengir, allar þessar dáðadömur? Og hverju á þessi tónn – sjáið alla þessa ótalandi unglinga! – eiginlega að skila? Á slíkur blammeringastíll að hvetja okkur hin, sem yngri erum, til dáða?
Auðvitað veit ég að fyrir Kristjáni vakir gott eitt og að hann hefur nokkuð til síns máls; á mínum sokkabandsárum (djók) prófarkalas ég til að mynda á að giska hátt í tvö hundruð háskólaritgerðir til að fjármagna lostafengið bóhemlíf mitt í erlendum syndabælum (ég meina: bóknám mitt í útlöndum) og þær voru sannarlega æði skrautlegar, margar þessara ritsmíða. Ýmsar voru þó vel ritaðar – og oftar en ekki tilheyrðu þær yngri nemendum frekar en eldri. Og hinir eldri höktu oft klaufalega um íslenskuna og minntu þá á nýfædd folöld að taka sín fyrstu skref í veröldinni jafnvel þó að ætla mætti að hugsunarlíf þeirra fram að þessu hefði allt farið fram á þessu ágæta tungumáli okkar.
Anyways, kjarninn er að ég held að við eigum að passa okkur þegar við í fílabeinsturninum skvettum úr keytukoppunum yfir æsku landsins. Og svo mættum við einnig líta í eigin barm. Beinum orðum okkar þangað sem rétt er að beina þeim – til að mynda að stjórnvöldum, sem hafa, í einfeldni sinni og skammsýni, skorið niður fé til skólakerfisins, málræktar og svo framvegis – og hlífum yngri kynslóðinni. Hvetjum hana frekar til dáða.
Fleira var það nú ekki!
Athugasemdir