Á Íslandi er til myndbandsupptaka af rannsókn sem Erítreumaðurinn Andemariam Beyene gekkst undir á Landspítalanum í október 2011 sem getur orðið lykilatriði í plastbarkamálinu. Málið er kennt við forvígismann plastabarkaaðgerðanna, ítalska skurðlækninn Paolo Macchiarini og er orðið að alþjóðlegu hneykslismáli sem teygir sig til margra landa.
Myndbandið sýnir rannsókn sem gerð var á hálsi Andemarians, sem var fyrsti maðurinn í heiminum sem fékk græddan í sig barka úr plasti, í október árið 2011. Þetta var rúmum fjórum mánuðum eftir aðgerðina og einum mánuði áður en birt var grein í læknablaðinu Lancet um að aðgerðin á honum hefði gengið vel miðað við sönnunargögn sem þá lágu fyrir. Myndbandið gæti hins vegar sýnt að aðgerðin á Andemariam gekk ekki sem skyldi og að legið hafi fyrir á þessum tíma að lykilþáttur í aðgerðinni, sú tilraun að reyna að búa til lífvænlegan barka úr plasti með því að baða hann upp úr stofnfrumum í tvo daga fyrir aðgerðina, hafi verið misheppnaður.
Sá sem tók upp þetta mynd heitir Ásvaldur Kristjánsson og er starfsmaður Landspítalans og kvikmyndatökumaður. Ásvaldur tók einnig upp myndband af rannsókn á hálsi Andemariams Beyene í ágúst 2011, tveimur mánuðum eftir aðgerðina á honum, sem var sýnt í heimildarmynd sænska ríkissjónvarpsins um plastbarkaaðgerðir Paolo Macchiarinis nú í janúar.
„Aðgangur að sjúkrarskrám þrengist svo enn frekar þegar um látna einstaklinga er að ræða.“
Það myndband hefur vakið mikla athygli og er einn af þeim efnisþáttum heimildarmyndarinnar sem mest hefur verið rætt um í Svíþjóð þar sem það sem sýnir á mjög grafískan hátt að tveimur mánuðum eftir aðgerðina var plastbarki Andemariams Beyene í rauninni ennþá bara aðskotahlutur úr plasti í hálsi hans; aðskotahlutur sem ekki hafði náð að aðlagast líkama hans eins og til stóð að gerðist fyrir tilstilli stofnfrumanna sem áttu að mynd lífvænlega vef og frumuþekju úr stofnfrumum Andemariams sjálfs á plastinu. Myndbandið sýnir hversu erfiðlega íslensku læknunum Óskari Einarssyni og Tómasi Guðbjartssyni gekk að ná lífsýnum af plastinu í hálsi Andemariams af því þekjan sem átti að myndast á svæðinu úr stofnfrunum hafði ekki náð að myndast. En þó var eitthvað eftir að lífvænlegum frumum þó lítið væri og ýkti eða laug Paolo Macchiarini um góða stöðu þekjunnar í barkanum í Lancet-greininni.
Afar líklegt er að seinna myndband Ásvaldar af rannsókninni á hálsi Andemariams frá 20. október 2011 sýni svart-á-hvítu að endanlega var ljóst að stofnfrumuhluti aðgerðarinnar á Andemariam Beyene hafði mistekist, að engin þekja hafði náð að myndast á plastbarkanum og að stofnfrumur sem settar voru á plastið væru allar dánar. Fjórum mánuðum eftir að þessi rannsókn var gerð á hálsi Andemariams á Íslandi var gerð önnur rannsókn á honum í Stokkhólmi þar sem stálneti var komið fyrir í plastbarkanum til að koma í veg að hann félli saman. Þá var ljóst að stofnfrumuhluti aðgerðarinnar hafði mistekist og að plastið yrði aldrei ígildi náttúrulegs barka með tilheyrandi líffræðilegri virkni og frumustarfsemi. Macchiarini var viðstaddur þegar stálnetinu var komið fyrir í plastbarka Andemarimans Beyene en sagði ekki frá þeirri staðreynd í vísindagreinum. Fjórum mánuðum síðar var haldið málþing í Háskóla Íslands um aðgerðin hefði verið árangursrík og að Andemariam liði vel.
Ásvaldur tók myndböndin tvö upp í tengslum við heimildarmynd sem fjölmiðlakonan Elín Hirst gerði um stofnfrumurannsóknir en hún tók meðal annars viðtal við Andemariam Beyene í myndinni. Einungis annað myndbandið, það frá 16. ágúst 2011, rataði hins vegar inn í heimildarmyndina um plastbarkamálið sem sýnd var í sænska ríkissjónvarpið í síðasta mánuði og sömuleiðis inn í í heimildarmynd Elínar. Seinna myndbandið hefur aldrei verið notað í heimildarmyndaefni um fyrstu plastbarkaaðgerðina í heiminum.
Í svari frá Landspítalanum kemur fram að það sé ekki spítalans að ákveða að veita aðgang að umræddu myndbandi sem Ásvaldur tók upp en að það sé mati lögfræðings stofnunarinnar að birting á myndbandinu sé háð lögum um persónuvernd vegna þess að myndbandið sé í raun hluti af sjúkraskrá Andemariams. „Í lögunum kemur fram að mynd- og hljóðupptökur sem varða heilsufar sjúklinga falli undir þau. Aðgangur að sjúkrarskrám þrengist svo enn frekar þegar um látna einstaklinga er að ræða,“ segir í svari frá Landspítalanum við fyrirspurn um málið.
Myndbandið er því eign Ásvaldar en hann vill ekki veita aðgang að því þar sem hann segir réttilega að það sé hluti af sjúkraskrá Andemariams Beyene. Þeir aðilar sem geta fengið aðgang að myndbandinu að svo komnu máli eru því ekki margir; einn þeirra er þó væntanlega eftirlifandi eiginkona Andemariams Beyene sem ekki býr lengur á Íslandi en hún er í viðtali í sænsku heimildarmyndinni um plastbarkamálið.
Eins og er þá er aðgangur að þessu mikilvæga sönnunargagni í plastbarkamáli Paolo Macchiarinis ómögulegur. Þetta myndband er svo mikilvægt vegna þess að ef myndirnar sem það sýnir eru þess eðlis þá er hægt að staðhæfa með öruggari hætti en áður að Paolo Macchiarini hafi verið að ýkja og jafnvel ljúga þegar hann skrifaði í Lancet-greininni þann 24. nóvember 2011 að öndunarvegur Andemariams Beyene væri „næstum því eðlilegur“. Á grundvelli þeirrar greinar fékk aðgerðarform Macchiarinis mikla athygli víða um heim og gerði hann samtals átta slíkar plastbarkaaðgerðir þar á eftir vegna þess að talið var að aðgerðin á Andemariam hefði gengið vel. Sex af þessum átta einstaklingum dóu.
Þrátt fyrir að rektor Karolinska-háskólans í Stokkhólmi hafi sagt af sér vegna þess að hann telur að Macchiarini hafi gerst sekur um vísindalegt misferli í umræddri Lancet-grein, og fleiri greinum sem tengjast rannsóknum hans á plastbörkum, þá hefur aðeins einn af meðhöfundum greinarinnar látið taka nafn sitt af henni á vef Lancet. Þetta er sænski læknirinn Karl-Henrik Grinnemo.
Íslensku læknarnir tveir, Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson, eru ennþá meðhöfundar að greininni sem Lancet sjálft ætlar ekki að draga til baka fyrr en niðurstaða Karolinska Institutet í rannsókn háskólans á Paolo Macchiarini liggur fyrir. Myndband Ásvaldar getur varpað ljósi á hvort þetta er réttmæt ákvörðun hjá þeim eða ekki þar sem þeir gerðu þessa rannsókn á hálsi Andemariams Beyene og vissu því væntanlega á þessum tíma hvort aðgerðin hefði heppnast eða ekki.
Athugasemdir