Um daginn fékk ég upp úr flensuskoti sýkingu í fót af því tagi sem hefði fyrir daga sýklalyfja orðið til þess að læknar settu upp gúmmísvuntu og færu að huga að beittustu sög sinni. En af því ég er svo heppinn að sýklalyf höfðu verið fundin upp áður en ég fæddist, þá held ég löppinni og er hinn hressasti. Þessi sýking kostaði þó hálfa nótt á bráðavaktinni og síðan var ég í nokkra daga eins og grár köttur þrisvar fjórum sinnum á sólarhring uppi á spítala að fá hin fótbjargandi sýklalyf beint í æð. Allt gekk þetta eins og best varð á kosið og líkt og alltaf, í þau blessunarlegu fáu skipti sem ég hef þurft að leita á náðir heilbrigðiskerfisins með þessum hætti, þá vakti það einskæra aðdáun mína hve starfsfólkið á Landspítalanum – hjúkrunarfræðingar jafnt sem læknar og aðrir er ég hafði samskipti við – vann sín verk af alúð og hlýju en um leið festu og ákveðni.
Ég fann sem sé greinilega að ég var í góðum höndum.
En ég sá líka sprungur í veggjum spítalans.
Jæja. Ekki voru þetta þungbærar raunir, en drógu þó frá mér svo mikinn mátt í örfá dægur að ég fylgdist minna með fréttum en ella. En úr kafinu kom ég og uppgötvaði að formaður fjárlaganefndar Alþingis, Vigdís Hauksdóttir, hafði einmitt þessi sömu dægur verið að saka Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, um „andlegt ofbeldi“ af því hann gerði kröfur um að þingmenn og ráðherrar stæðu við stór orð sín um að veita auknu fé til spítalans – sem allir vita að er lífsnauðsynlegt.
Og síðan hafa ýmsir komið fram og lýst því hvernig Vigdís hagar sér á nefndafundum Alþingis og verður vissulega ekki líkt við neitt annað en hátterni skólastofulubba sem kann að taka fólk á taugum með samblandi af yfirlæti og hroka, lítilsvirðingu og hæðni.
Við höfum þurft að þola Vigdísi Hauksdóttur í ansi mörg ár. Hún hefur oft verið hædd og spottuð fyrir klaufaleg ummæli. Víst er vel heimilt að hafa gaman af þegar opinberar persónur gera sig sekar um óvenju glæsileg mismæli eða hreinlega tóma tjöru í tungumáli, en stundum hefur verið gengið of langt í þessu gríni. Það er ekki í sjálfu neitt heimskumerki þótt tungumálið kunni að vefjast fyrir fólki. Enda er það alls ekki heimska sem háir Vigdísi Hauksdóttur, það er hugarfarið.
Vigdís Hauksdóttir hefur oftar en tölu verður á komið farið fram með ókurteisi og ruddaskap, hún hefur hótað fólki bæði leynt og ljóst, og í siðvæddu samfélagi hefði fyrir löngu verið búið að grípa fram fyrir hendurnar á henni – þó ekki væri nema til dæmis þegar hún hótaði starfsmönnum Ríkisútvarpsins. En yfirboðarar Vigdísar í ríkisstjórnarflokkunum, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, hafa ekki sýnt neina sinnu á að kenna henni mannasiði. Þvert á móti hefur að minnsta kosti Sigmundur Davíð hvað eftir annað borið af henni blak og jafnvel hvatt hana til frekari dáða, enda óvíst hvað hann kann mikið af mannasiðum sjálfur.
Upp á síðkastið hef ég hneigst til að leiða Vigdísi að mestu hjá mér, maður á ekki að láta það eftir skólastofulubbum að taka of mikið eftir þeim.
Nú þegar formaður fjárlaganefndar hefur sakað forstöðumann stofnunar eins og Landspítalans um „andlegt ofbeldi“ þegar hann gerir réttmætar kröfur til hennar, þá hefur Vigdís hins vegar gengið of langt. Ekki af því þetta sé ótrúlegur dónaskapur, sem það þó vissulega er, heldur af því hér er um að ræða markvissa tilraun til að berja niður fólk sem er að sinna sínu starfi. Og sem sé ekki í fyrsta sinn sem Vigdís Hauksdóttir beitir slíkum fantabrögðum – slíku „andlegu ofbeldi“ liggur mér við að segja.
Í siðvæddu samfélagi? Jú, hún væri látin fara. En ekki hér, hér fær hún klapp á bakið fyrir „dugnað“ frá Hannesi Hólmsteini og félögum.
Mér er spurn: Við Íslendingar erum kannski lítil þjóð og höfum ekki margt stórmenna, en höfum við virkilega til þess unnið að við stjórnvölinn hjá okkur séu ókurteisir menningarsnauðir tuddar sem fara um með hótunum?
Eigum við það skilið?
Eða er þetta kannski allt „hluti af stærra prójekti“ eins og það hét í mínu ungdæmi – partur af hinni augljósu áætlun ríkisstjórnarinnar um að skapa hér tvö heilbrigðiskerfi, annað það sem Ásdís Halla dillar ríka fólkinu og dælir í það dýrustu lyfjunum en hitt fyrir okkur undirþjóðina?
Og þar sem kannski þarf brátt að fara að draga fram svuntu og sög?
Athugasemdir