Hún gaf mér pottablóm í glæsilegum keramik potti. Mér fannst nú potturinn eiginlega glæsilegri en blómið en kunni ekki við að nefna það.
Hún lét gjöfinni fylgja: „Þetta eru Kristþyrnar. Það er harðger jurt sem þarf lítið vatn en er sí blómstrandi litlum fögrum hvítum blómum. Auk þess er þetta gagnleg planta því úr stilkunum er hægt að flétta þyrnikórónu sem kemur sér vel ef þú þarft að krossfesta mann.“
Svo fékk ég að kyssa hana fyrir blómið þar sem hún sat.
Siðan eru liðin átta ár og jurtin stendur enn í blóma.
Edda Heiðrún Backman hafði mótandi áhrif á heilar kynslóðir leiklistarfólks.
Varð eiginlega að tákni.
Hún var LEIK-KONA sinnar kynslóðar.
Faglega næstum fullkomin. Djörf, kröftug, skapandi bomba og samt næm.
Ofur-næm og stefndi alltaf á hjartað.
Og ofan á þetta allt var hún örlát.
Ég tilheyrði yngri kynslóð leikara. Og við mændum upp á hana.
Ég mændi upp á hana.
Og ég hafði smá forskot því Eddu hafði ég kynnst sem táningur.
Hún varð kærasta frænda míns á menntaskólaárunum og þótt upp úr því slitnaði þá fékk ég samt að njóta þess að vera litli frændi frænda míns.
Eða það fannst mér.
Það hlaut að vera þess vegna sem hún var svona hlý og jákvæð.
En svo komst ég að því að ég var ekki einn. Edda var sí-ær því að hún blómstraði af hlýju og jákvæðni. Og til okkar yngri leikara streymdi frá henni hlýja og natni.
Hún hafði áhuga og var okkur velviljuð.
Og svo allt í einu var allt frá henni tekið. Allt þetta sem leiklistin krefst: Líkami og rödd. Og lífshlaup hennar allt varð að táknmynd um ris og fall, og ris og endurfæðingu. Saga um mátt andans sem ekkert sigrar og um viljann til að verða að gagni og gefa.
Ég vil fá að ímynda mér að til forna og kannski sunnar á kringlunni hefði verið efnt til átrúnaðar á Eddu.
Kirkjur eða hof hinnar Heilögu Heiðrúnar hefðu verið reyst og sí-ærum kristþyrnum plantað í helgan lund.
Menn og konur fært dreypi-fórnir hinni dansandi og syngjandi Hindu Gyðju sem skyndilega hafði verið slegin af banvænu ljóstri og visnaði upp eins og urt sem fellir laufin en hafði samt tekist vegna síns guðlega eðlis að klekja út nýjum blómum, bera aðra ávexti, finna nýjar leiðir til að gefa og verða að gagni samtíð sinni og framtíð.
Andi sem finnur sér nýtt form, nýja mynd. Fuglinn Fönix sem brennur til ösku og rís samt upp á þriðja degi. Eða eins og höggvinn viður sem skítur rótarskoti sem verður að nýjum stilk og að nýju blómstrandi tré.
Ég var svo heppinn að fyrir hálfu ári kom kallið. Árný aðstoðarkona Eddu hringdi og sagði mér að ég ætti að vera ein af „Röddum náttúrunnar“. Ég mætti á fundinn og hef reynt að verða að gagni.
Hugmyndin er brilliant og í raun kjarninn í allri náttúrverndarbaráttu:
Að hið ósnortna hafi gildi í sjálfu sér, rödd og réttindi.
Rétt eins og hugmyndin um mannréttindi sem hefur breitt út mannúð og bætt lífsgæði mannkyns, þó enn sé um þau barist, þá þarf hugmyndin um rétt náttúrunnar burtséð frá notagildi eða nýtingu að verða almennt viðmið og lögfest í samfélagssáttmálanum.
Réttur hins ósnortna þarf að verða að algildri reglu í siðuðu samfélagi, að hugsjónin sem barist er fyrir sé eins og almenn mannréttindi.
Ef slíkur „náttúruréttur“ er brotinn verði það skilgreint sem glæpur, eins og ef mannréttindi eru fótum troðin.
Og ef það þarf að umbylta eða snerta hið ósnerta í náttúrunni vegna mikilvægra almannahagsmuna, á að ganga að því verki með sömu varúð eins og þegar einhver manneskja er tímabundið eða ævarandi svipt frelsi sínu í þágu almannaheilla.
Þessi félagsskapur í kringum þessa hugmynd er eitt af þeim mörgu blómstrum sem Edda Heiðrún gaf af sér í þessari tilvist.
Þau blómstur verða fleiri á öðrum stigum. Hún er ekki hætt að gefa af sér. Hún heldur því beinlínis áfram í gegnum okkur og verk sín og er sjálfsagt staðin á fætur fyrir handan og farin að blómstra dansandi og syngjandi á öðrum sviðum.
Innilegar samúðarkveðjur til barnanna hennar og fjölskyldu, og til okkar allra sem nutum hennar hér á meðan tími var til.
Athugasemdir