Eftir að hafa dvalið í lengri eða skemmri tíma í nærri 100 borgum í tæplega 40 löndum hef ég fengið tækifæri til að móta mér mínar eigin skoðanir á mismunandi samfélögum. Í sumum þeirra landa sem ég hef heimsótt er allt í steik. Fátækt, lélegt stjórnarfar, innviðir í molum og þar fram eftir götum. Í öðrum er gnægt auðlinda, skilvirkt stjórnarfar og þegnarnir hafa það almennt afar gott.
Í vikunni sat ég við matarborð með fólki frá Líbanon sem var að spyrja mig um Ísland. Ég byrjaði á gömlu góðu rullunni og sagði frá landi sem teldi rétt um 330 þúsund hræður, hefði stórkostlega náttúru, fallegustu sumarnætur heims, ofgnótt raforku, ókeypis heitt og kalt vatn, sjávarútveg sem gæti fætt margfaldan fjölda þjóðarinnar og fengi í heimsókn milljón ferðamenn á ári. Eðlilega voru viðbrögð þeirra eins og flestra með sæmilega rökhugsun á þá leið að það hlyti að vera frábært að búa á Íslandi og að Íslendingar hlytu að hafa það rosalega gott. Fyrri hlutanum var auðvelt að svara játandi, en þegar ég ætlaði að halda áfram gömlu tuggunni rann allt í einu upp fyrir mér að seinni hlutanum gat ég ekki lengur svarað með einföldu já-i. Það væri einfaldlega lygi. Jú Ísland er frábært land og jú langflestir hafa það mjög gott. En staðreyndin er að við höfum haft það gott þrátt fyrir stjarnfræðilega mikið rugl í stjórnarfari um langt skeið og það bendir bara ýmislegt til að það muni alls ekki vara að eilífu
Ef auðlindir per haus á Íslandi eru settar í það samhengi að árið 2015 eigi 70% þegnanna annað hvort ekkert eða séu í mínus, tíundi hver undir fátæktarmörkum og venjulegt launafólk þurfi að hugsa um hverja krónu er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að á Íslandi sé eitthvað mikið að. Ég myndi nota hugtakið bananalýðveldi ef mér þætti það ekki gera lítið úr bæði þeim stórmerkilegu skepnum öpum, sem og þeirri ágætu fæðu sem bananar eru.
... allir ættu að hafa það gott í landi þar sem slík ofgnótt er til staðar miðað við mannfjölda.
En mín skoðun á sams konar samfélagi sem ég myndi heimsækja annars staðar á jarðarkringlunni væri einfaldlega að stjórnarfarið hlyti að vera mjög slakt. Glöggt gests augað sæi á augabragði að allir ættu að hafa það gott í landi þar sem slík ofgnótt er til staðar miðað við mannfjölda. Ef reiknaðar yrðu út eðlilegar meðaltekjur á Íslandi miðað við sæmilega jafna skiptingu þess sem landið skaffar yrði útkoman sennilega tala sem flest venjulegt fólk myndi hoppa hæð sína yfir.
Þegar maður telur upp það sem er gott við Ísland núna í samræðum við fólk í útlöndum eru það fyrst og fremst hlutir sem hafa með náttúru og frið að gera. Enginn her, óvopnaðir lögreglumenn, hreint loft og vatn, fámenni og stórkostleg náttúrufegurð. Nýlegir tilburðir til að vopnavæða lögregluna og fara að rukka fyrir göngutúra í sveitinni sýna að meira að segja þetta tvennt fær líklega ekki að vera mikið lengur í friði fyrir stjórnmálamönnum, sem eru algjörlega friðlausir í þeirri viðleitni sinni að halda uppi hallalausum ríkissjóði, með því að pönkast á hinum venjulega manni til að moka enn frekar undir þá sem allt eiga. Meðal-Jóninn á svo að vera yfir sig sáttur við að þiggja brauðmolana af útrúnnu brauði sem duttu af endanum á gnægtarborði bakaríis þeirra sem aldrei finnst þeir eiga nóg. Það jákvæða er að það eru ekki hin eignalausu 70 prósent sem hafa mestu að tapa. Það fólk hefur einmitt engu að tapa lengur. Því fyrr sem græðgispúkarnir átta sig á því, því líklegra er að friður skapist í landi sem hefur allt til brunns að bera til að vera eitt það besta í veröldinni. Það er hundleiðinlegt að eiga miða í stúkúsæti á leikvangi lífsins ef það eru alltaf einhverjir kjánar sem kúka í sætið manns.
Athugasemdir