Fáfni Offshore er, samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins, ætlað að þjónusta olíu- og gasiðnað í N-Atlantshafi. Stærstu eigendur þess eru sjóðir í eigu Landsbréfa og Íslandssjóða, en stærstu fjárfestar sjóðanna eru Lífeyrissjóður Verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og LSR. Sem þýðir að Fáfnir Offshore er að mestu leyti í almannaeigu. Það hefur margt verið ritað um það hversu afleit fjárfestingin í Fáfni líklega sé. Olíuverð hefur hríðfallið og undanfarið hafa margir hætt við fyrirhuguð vinnsluáform á norðurslóðum, enda aðstæður erfiðar og hver olíulítri dýr. Á ensku er talað um „stranded assets“ í olíu og gasi á svæðinu, fjárfestingar sem munu einfaldlega daga uppi og aldrei skila sér.
Lífeyrissjóðir bera auðvitað ábyrgð gagnvart eigendum sínum, sem eiga mikið undir því að ávöxtun þeirra skili sér. Annað sem gleymst hefur í umræðunni er að með því að taka þátt í iðnaði sem hefur það markmið að finna nýjar olíu- og gaslindir þá eru lífeyrissjóðir jafnframt að veðja peningum á að Ísland, og hin 194 ríkin sem tóku þátt í Parísarsamkomulaginu síðastliðinn desember, virði ekki þær alþjóðlegu skuldbindingar sem þar voru gerðar. Í París var nefnilega samþykkt að hækkun hitastigs jarðar skyldi haldast innan við 2°C frá tímum iðnbyltingar. Það þýðir að 2/3 af þekktum kolefnislindum þurfa að liggja óhreyfðar ofan í jörðinni.
Vísindamenn eru nokkurn veginn sammála um að það að fara yfir tvær gráður sé ávísun á hamfarir sem ógna heilu vistkerfunum. Jöklar munu bráðna og sjávarborð hækkar sem veldur flóðum og stormum. Margar tegundir munu deyja út. Milljónir manna munu missa heimili sín, líða hungur og þorsta. Þau lönd sem verst verða úti hafa fæst innviðina til að takast á við breyttan heim. Afleiðingin verður auðvitað að átök brjótast út og ófyrirséður fjöldi fólks mun leggja á flótta.
Við sem eigum ríkisbankana og lífeyrissjóðina þurfum að spyrja okkur: Er þetta í alvörunni það sem við viljum gera við peningana okkar?
Athugasemdir