Einu sinni hafði ég mikið dálæti á hundum. Átti í æsku undrahundinn Pollý, sem gat svarað í síma, dansað á afturlöppunum (þrátt fyrir að hún væri hreint ekki í kjörþyngd) og var sérlega góður félagsskapur einmana sveitastelpum. Dálæti Pollýjar á sykurmolum og súkkulaðitertum varð henni að aldurtila og hún var grafin í rauðri golftreyju í túninu heima, yfir henni sungnir sálmar og nokkur lög með Utangarðsmönnum og síðan varð hún bara minning. Svona eins og gengur.
Kettir þóttu mér hinsvegar skelfing leiðinlegir. Köttur vinkonu minnar sætti færis þegar ég kom í heimsókn og stökk með hálfdauða fugla og mýs inn í miðjan háalvarlegan Barbíleik eða upp á matarborð og hann hafði einkar mikla fróun af því að draga til í peysunum mínum. Ég fyrirleit þá kattarafsmán eins og pestina.
Fyrir mörgum árum sagði einn góður vinur minn við mig þegar við ræddum saman í síma og hunda og ketti bar á góma: „Það má sjá margt um persónuleika fólks af því hvort því líkar betur við hunda eða ketti. Kattafólkið vill leyfa öðrum að fara eigin leiðir, það reynir ekki að stjórna neinum og ber virðingu fyrir sjálfstæðum persónuleikum. Hundafólkið hefur hinsvegar unun af því að drottna yfir öðrum, beygja menn og skepnur undir sig og láta hlýða sér. Hitler var einstaklega mikill hundamaður.“
„Einn missti ég undir bíl og sakna hans enn, annan fékk ég kettling og hann reyndist vera leiðinlegasti köttur á jarðkringlunni.“
Ég reyndi án árangurs að halda uppi vörnum fyrir hundafólkið en síðan reiddist ég svo svakalega að ég skellti á þennan vin minn, í fyrsta og eina skiptið. (Þetta var í þá tíð þegar maður gat skellt tólinu á símtækið með heilmiklum látum, „end call“ takkinn er fáránleg afturför).
Nýlega rifjaði ég upp þetta símtal, skoðaði ýmislegt á netinu um Hitler sem dýravin og sá spurningu sem kona ein hafði sett inn á Yahoo Answers. Hún var svohljóðandi: Hvað fannst Hitler um ketti?
Henni var kurteislega svarað og sagt að Hitler hefði ekkert verið um ketti gefið. Hann hefði kunnað að meta stóra þýska fjárhunda eins og hana Blondí, sem fylgdi honum í dauðann, hlýðin sem fyrr. Svoleiðis gera hundar. Köttum dytti það aldrei til hugar.
Internetið segir ennfremur að meðal nasistanna hafi hundar verið stöðutákn. Og þeir hafi líka verið tákn um undirgefni Þriðja ríkisins við Foringjann. Hitler elskaði tryggð Blondíar og vildi hafa hana hjá sér flestum stundum, einkum undir það síðasta, þegar honum þótti hann umkringdur lygurum og svikurum.
„Ef hundar væru pennafærir, þá gæti Blondí hafa skrifað sjálfsævisöguna: „Ég var tíkin hans Hitlers“/ I Was Adolf Hitler's Bitch“.“ er sagt á einni síðunni þar sem fjallað er um samband Hitlers og Blondíar. Ég legg ekki meira á ykkur.
Til að gera langa sögu fremur stutta, þá eignaðist ég aldrei hund á fullorðinsárum, en lét hinsvegar plata inn á mig einum ketti (Bröndu) sem átti upphaflega bara að koma til mín í pössun. Eigandinn heyktist á að sækja hana, en þau undur og stórmerki áttu sér stað að ég fór strax að elska köttinn út af lífinu og sagði eigandanum bara að eiga sig.
Nú eru kettirnir mínir orðnir þrír. Einn missti ég undir bíl og sakna hans enn, annan fékk ég kettling og hann reyndist vera leiðinlegasti köttur á jarðkringlunni. Samt hefur hann laumast hér um í heil átta ár og hunsað mig af þeirri list sem kettir einir hafa tök á. Og enn liggur Branda mín, fimmtán vetra, í sófanum og smitar mig og aðra af heilbrigðri leti sinni og stóískri ró. Einhvers staðar las ég að það bætti heilsuna að hafa ketti nálægt sér. Það lækkaði blóðþrýstinginn og kenndi manni svo vel að slaka á að það jafnaðist á við að fara í jóga. Hitler hefði kannski verið nær að safna í kringum sig nokkrum læðum?
Athugasemdir