Strax á föstudaginn fann ég fyrir því að einhverjir á svæðinu könnuðust greinilega við trýnið á mér. Ég hef náttúrulega verið að skrifa opinberan áróður gegn Sjálfstæðisflokknum í nokkur ár. Að kvöldi laugardags birtist svo pistillinn þar sem ég fór yfir upplifun mína af föstudeginum. Greinilegt var, þegar ég mætti upp úr hádegi á sunnudegi, að greinin mín hafði ekki bara verið lesin af mínum meðhlæjendum. Pírðum augum og pískri fylgdu nú nokkrir laumulegir fingur sem hófust á loft og bentu - á mig. Mér voru gefin svo mörg hornaugu að þegar ég settist niður flæddu þau upp úr vösunum mínum.
Eftir tvo daga á landsfundi Sjálfstæðismanna var ég orðinn nokkuð vanur því að líða eins og ég væri einhverskonar njósnari, en nú var ég búinn að afhjúpa mig. Þeir sem áður voru í vafa um hvað ég væri að pikka inn á lyklaborðið vissu nú að það voru pistlar, svo ég vitni í ummæli Hannesar Hólmsteins: ...„[fullir] af klisjum, tuggum, þreytulegum bröndurum frá því í fyrradag.“
Fundurinn var eins og hann hafði verið fyrstu tvo dagana, það hafði ekkert breyst nema dagskráin. Gangstéttarnar enn teppalagðar ólöglega lögðum bílum, kaffið enn fokdýrt og meðal fundargesta var enn hávær krafa um að hlustað væri á konur og fólk fætt á síðustu fjörutíu árum. Það sem hafði breyst var skoðun mín á Sjálfstæðisflokknum.
Ég settist á móti Sturlu Böðvarssyni. Daginn áður hafði ég gefið dóttur hans NEI og JÁ atkvæðin sem fylgdu með „Sjálfstæðismaður - Byrjendapakki“ möppunni sem ég fékk við innritun, svo hún gæti farið að æfa lýðræðislegan rétt sinn. Þegar ég settist vinkaði Sturla vinalega til mín. Við erum sveitungar úr Hólminum. Ég var með Böðvari syni hans á leikskóla. Sturla starfar nú með föður mínum í sveitastjórn Stykkishólms, og notar pabbi hvert tækifæri sem honum gefst til að hrósa Sturlu, og tala vel um hann. Þrátt fyrir að fólk geti haft ólíkar skoðanir á störfum hans, þá er ég fullviss um að þarna er góð manneskja á ferð.
Tveimur borðum frá mér sat Mummi á Reykjum - lifandi goðsögn úr Mosó. Mummi hefur verið virkur í flokknum, áratugum saman. Hann er pabbi æskuvinar míns, og varð ég þess heiðurs aðnjótandi að starfa með honum sumarlangt í Skógrækt Mosfellsbæjar. Bara við tveir saman í nokkra mánuði, uppa Mosfellsheiði. Við erum báðir rétt undir tveimur metrum, og allar græjur sem við notuðum við starfið eru hannaðar fyrir eintóma dverga/fólk í meðalhæð, og við þreyttumst seint á því að ræða fordóma gagnvart hávöxnum. Mummi kenndi mér líka að bera virðingu fyrir harmonikkunni. Ég þurfti að læra það. Takk Mummi.
Á þessum tímapunkti í pistlaskrifum mínum steig Guðlaugur Þór upp í pontu, í síðasta skiptið sem ritari flokksins, og fékk standandi lófaklapp. Hann sagði það vera best fyrir flokkinn að hann stigi til hliðar. Bar sig vel, og fór með gamanmál. Guðlaugur Þór er einskonar sveitungi minn líka. Hann er úr Borgó, eins og foreldrar mínir. Pabbi talar líka ofboðslega vel um Guðlaug. Segir að hann sé góður strákur. Þrátt fyrir Guðlaugur hafi gerst kannski helst til gráðugur í fjáröflun á sínum tíma, finnst mér hann alltaf hafa yfir sér frekar krúttlega áru, þó hún sé ef til vill svolítið svert.
Í tvö ár starfaði ég á með fötluðum á Hlein, við Reykjalund. Einn athyglisverðasti karakterinn þar heitir Birna og var kokkur. Birna hafði áður verið kokkur til sjós í mörg ár, og tók það attitúd með sér inn á Reykjalund. Hún hefur lengi verið virk í flokknum, og hafði, vægast sagt, háværar skoðanir á öllum málum. Fór ekki í nein manngreinarálit þegar hún sagði fólki að halda kjafti með þetta rugl. Eftir að hafa varið tveimur árum í að vera sammála og ósammála henni á víxl var mér farið að þykja svo vænt um þennan mikla töffara að við knúsumst alltaf þegar við hittumst.
Ragnheiður Ríkarðsdóttir var skólastjóri Gaggó Mos þegar ég var þar í fjögur ár. Á þeim tíma þurfti ég, einhverra hluta vegna, að fara reglulega inn á skrifstofu hjá henni til þess að svara fyrir ýmsar misgáfulegar gjörðir mínar. Eina önnina, þegar ég hafði verið rekinn úr skóla fyrir að skrifa níðvísu um vin minn og hengja hana upp á veggi skólans, þurfti ég að sækja hennar fund reglulega. Þá breyttist tilfinning mín fyrir Ragnheiði algjörlega. Ég hætti að upplifa hana sem háværu skessuna sem þrammaði um ganga skólans, og hellti úr skálum reiði sinnar yfir óværa krakkaorma og úr vatnskönnum yfir aðra sem hlýddu því ekki að hætta að sitja í helvítis stiganum. Ég fór að sjá hana sem ótrúlega ákveðna, sterka og réttsýna konu, sem var kominn á þennan stað á sínum eigin verðleikum. Og hún ætlaði ekki að stoppa þar. Eina skiptið sem ég kaus Sjálfstæðisflokkinn var í sveitastjórnakosningunum þegar Ragnheiður bauð sig fyrst fram, og tók svo við sem bæjarstjóri. Ég sé ekki eftir því. Ragnheiður hefur alltaf verið ein af þeim konum sem ég hef getað bent á innan flokksins sem sönnun þess að þar sé líka virkilega gott fólk að finna.
Ég gæti nefnt fleira fólk sem ég þekki persónulega, sem starfa innan flokksins, en alltaf er þessa sömu sögu að segja: Þetta eru þrívíðar persónur, gallaðar en góðar. Eins og ég sagði í upphafi, þá hefur tilfinning mín fyrir Sjálfstæðisflokknum farið í gegnum stefnubreytingu. Landsfundurinn var kornið sem fyllti þann mæli. Í staðinn fyrir að líta á flokkinn sem stórt og vont afl, sem stefnir smám sama í áttina að auðræði og aukinni spillingu, þá sé ég að hann er eitthvað miklu flóknara.
Í grunninn er hann gegnsýrður af hugsjón nýfrjálshyggjunnar, um lágmarks ríkisafskipti og algjört frelsi markaða. En eins og í öðrum samtökum, þá eru þær manneskjur sem í honum starfa fjölbreyttar. Engar tvær eins. Það eina sem þau eiga sameiginlegt er hugsjónin um frjálshyggjuna, áráttukennd kyrjun á pópúlista möntrunni um frelsi, og svo það sem ég er mest ósammála, eignarrétturinn. Mín sýn er að þessi hugsjón sé að auka ójöfnuð og eyðileggja náttúruna, en þau sjá þetta öðruvísi: Þetta er kerfið sem við búum við - rammi, sem duglegt og öflugt fólk getur stigið inn í, og reynt fyrir sér í þessum leik efnishyggjunnar. Það er mjög þægilegt að vera með. Að samþykkja ríkjandi ástand. Allt er meira og minna hannað til þess að heilbrigt, hvítt fólk eigi að geta, með smá heppni og góðum bakgrunn, fótað sig bara þokkalega.
Það sem virðist hinsvegar gerast, þegar fólk er of lengi við völd, er að það spillist. Þá er sama hvort um er að ræða í kommúnískum, kapítalískum eða fasískum ríkjum. Völd spilla. Þessi afleiðing langrar valdasetu Sjálfstæðisflokksins virðist vera sú hlið hans sem truflar flesta. Frændhyglin og sérhlífnin.
Þessvegna er ekki við flokkinn að sakast. Hann er, eins og aðrir flokkar, fullur af góðu fólki. Hinsvegar er hugsjónin að baki honum tilraun sem gekk ekki upp. Einhverskonar eitraður kokteill íhalds og nýfrjálshyggju. Kristinleg gildi ofaní vísindalega trú og dýrkun á markaðnum. Ef vistmenn flokksins myndu átta sig á því að skipið er búið að stranda og er að sökkva, og færu að verja kröftum sínum í önnur lífvænlegri verkefni, þá myndu allir græða.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert ómissandi. Þvert á móti er hann búinn að gera þjóðinni meira ógagn en gagn ef horft er til síðustu 20 ára. Einstaklingar breyta ekki þessari staðreynd. Það þarf meira en bara að hlýða kalli landsfundar um aukin áhrif kvenna og ungs fólks, þó það geti kannski tafið enn frekar þetta hæga dauðsfall flokksins. Það þarf eitthvað mun, mun róttækara. Ég held hreinlega að við myndum öll njóta góðs af því ef umræðan um hvað eigi að gera við lík Sjálfstæðisflokkins færi fram fyrr en síðar.
Athugasemdir