Mér finnst gott að vera í hita og sól. Þó að ég elski landið mitt, velti ég því oft fyrir mér hvað gæjarnir sem ákváðu að setjast að á Íslandi voru að spá. Hvers konar sjálfspíningar-úrtak ákvað að hingað væri best að koma. Ekki það að landið sé ekki yndislegt þegar það er uppá sitt besta og allt það, heldur er það einfaldlega staðreynd að lífið er mun einfaldara þar sem hitastigið er hærra og skilyrði til lífs öll einfaldari.
Það vissi ég vitsmunalega frá því að ég var lítill drengur, en tilfinningalega eftir að ég sat á móti apa nærri miðbaug fyrir nokkrum árum. Silkislök augu hans og látbragð allt bentu mér á að hann væri mun nær því en ég að hlýða því sem erfðaefni hans óskaði eftir.
Þegar maður horfir á aðra staði í heiminum þar sem veðurfar er svipað og á Íslandi er oft bölvuð vosbúð í gangi. Línuleg tengsl virðast vera á milli lægri tölu á celcius-kvarðanum og þyngri augabrúna. Þar er gjarnan mikið um alkohólisma og mannskapurinn svona alla jafna ekkert sérstaklega léttur á brún. Eðli málsins samkvæmt á maður erfitt með að sjá sjálfan sig með hlutlausum augum, en vonandi er upplitið á Íslendingum almennt eilítið djarfara en það sem maður hefur sem gestur séð í norðurhluta Finnlands og Rússlands.
„Línuleg tengsl virðast vera á milli lægri tölu á celcius-kvarðanum og þyngri augabrúna.“
En hvernig væru Ísland og Íslendingar ef veðurfarið væri öðruvísi? Værum við latari? Værum við félagslyndari? Væri þjóðmálaumræðan öðruvísi? Án þess að ætla að alhæfa hefur mér á ferðalögum mínum fundist tvennt hafa ákveðna fylgni við gleði og léttleika. Gott veður og nálægð við náttúru. Við höfum annað, en ekki hitt.
Fyrir stuttu var ég staddur á eyju í Atlantshafi þar sem búa í kringum 300 þúsund manns. Ferðamannaiðnaður er stærsta atvinnugreinin, en fiskveiðar eru líka áberandi hluti menningarinnar og stærstur hluti íbúanna býr í eða nálægt höfuðborginni. Náttúran er algjörlega stórbrotin og sérstaklega er mikið um tilkomumikil fjöll og fossa. Hljómar kunnuglega, en ég er ekki að tala um Ísland. Staðurinn er Madeira, sem tilheyrir Portúgal. Sem sagt, sennilega sá staður á jörðinni sem kemst næst því að vera eins og Ísland væri ef hitastigið væri svo sem eins og fimmtán, tuttugu gráðum hlýrra stóran hluta ársins.
Á eyjunni er líkt og á Íslandi einhver magnaður kraftur, sem gerir staðinn öðruvísi en hvern annan stað með nokkur hundruð þúsund íbúum. Krafturinn sem ýtti íslenska knattspyrnulandsliðinu á lokakeppni EM, langfámennastri allra þjóða í sögunni, er kannski sá sami og dreif áfram óskabarn Madeira, sjálfan Christiano Ronaldo. Hann ólst upp í fátækt í hlíðunum í Madeira, en hefur með elju og dugnaði orðið þekktasti knattspyrnumaður heims ásamt argentínska undrinu Lionel Messi. En nóg um það og aftur að mjög óvísindalegri athugun minni um tengsl hitastigs og samfélagsgerðar. Eftir tæpan hálfan mánuð á Madeira er ég ekki frá því að það sem væri betra á Íslandi ef miðbærinn væri baðaður sólskini og vermdur með tuttugu gráðum árið um kring væri eftirfarandi:
- Við værum afslappaðri.
- Algengara væri að allir aldurshópar kæmu saman og eldra fólk væri virkara í samfélaginu.
- Við myndum menga minna.
- Við myndum hreyfa okkur meira.
- Við myndum ekki nenna að tuða svona mikið og það væri styttra í brosið ef við værum ósammála.
En svo er það hitt. Ísland er auðvitað best í heimi!
Athugasemdir