Hin „góðu mál“ ríkisstjórnarinnar hrannast nú upp eins og kótilettur á sumargrilli í Garðabænum. Náfrænka Davíðs Oddssonar (sem menntamálaráðherra handvaldi og setti yfir stjórn LÍN þrátt fyrir að hún væri ekki metin hæfust) leiðir nú þriðja árið í röð öfluga heilsteikingu á skjólstæðingum sínum; íslenskum nemendum á erlendri grundu.
Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum á að skerða framfærslu til þessa hóps um tugi prósenta til viðbótar við mikla skerðingu fyrr á kjörtímabilinu. Niðurstaðan er sú að íslenskir námsmenn, í löndum eins og Þýskalandi, hafa 34 prósent minna á milli handanna í dag en árið 2013. Á sama tíma hefur leiguverð í fjölmörgum borgum hækkað um tugi prósenta.
Grillmeistarar menntamálaráðherrans tala um „leiðréttingu“ í þessum efnum og hóta frekari skerðingum á komandi árum. Þá vísa þeir í skýrslu áhættu- og fjárfestingaráðgjafafyrirtækisins Analytica máli sínu til stuðnings og alhliða endurskilgreiningu þess á fjárþörf íslenskra stúdenta erlendis sem byggir meðal annars á tölum frá notendum vefsíðunnar Numbeo!
Á meðan forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hreykja sér af fordæmalausum uppgangi í íslensku efnahagslífi er háskólanám erlendis smám saman að verða lúxus sem einungis börn þeirra efnameiri geta leyft sér. Eftir áralanga grillveislu ríkisstjórnarinnar fækkar möguleikum hinna efnaminni til þess að leggja stund á háskólanám verulega.
Nú þegar þúsundir upplifa mikla óvissu og margir eru hreinlega við það að gefast upp hefur nýjum einkareknum lánasjóði verið hleypt af stokkunum. Gammar Framtíðarinnar sveima yfir hausamótum og fylla upp í holuna sem laskað LÍN skilur eftir sig. Þeir bjóða brakandi fersk námslán (með rúmlega sjö sinnum hærri vöxtum en LÍN) til að „brúa bilið“.
Framsóknarmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson vildi byggja áburðarverksmiðju til að blása ungu fólki von í brjóst. Hugmyndin fékk dræmar undirtektir hjá ungu kynslóðinni sem vildi heldur sækja sér þekkingu, reynslu og menntun erlendis. Sú von fer nú dvínandi.
Unga fólkið getur látið sig hlakka til langrar, gefandi starfsævi í áburðarverksmiðjum ríkisins áður en það leggst til hinstu hvílu og steikist endanlega í spað á grillunum í Vesturbænum, Garðabænum eða bara Skagafirðinum. Bon appétit!
Athugasemd: Fyrir mistök birtist vinnuútgáfa þessa pistils í prentútgáfu Stundarinnar. Hér með er rétta útgáfan birt.
Athugasemdir