Undanfarið hefur reglulega verið bent á ákveðið vandamál í samfélaginu, svo reglulega að það er varla tilviljun. Hópurinn sem bendir á það og vill uppræta það er frekar samstæður, yfirleitt íhaldssamur og hægrisinnaður í skoðunum. Vandamálið sem þau hafa áhyggjur af er fólk sem telur sig vera gott fólk og reynir að eiga frumkvæði að því að koma góðu til leiðar.
Við erum komin á þann stað að það hefur myndast hópur í samfélaginu sem lýsir sig í raun andvígan góðmennsku á margvíslegan hátt og gerir hvað hann getur til að jaðarsetja hana. Samkvæmt möntrunni er fólkið sem reynir að gera gott í reynd að gera rangt á fimmfaldan hátt.
1. Gagnrýni góða fólksins er árás á málfrelsið
„Það versta er að frá hruni hefur „góða fólkinu“ tekist að einangra umræðuna,“ skrifaði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, fyrir um ári síðan í grein sinni „Góða fólkið og umræðan“, þar sem hann lýsti áhyggjum af vondum áhrifum „góða fólksins“ á umræðuna. Elliði hafði sérstakar áhyggjur af því að þeir sem tjáðu sig um innflytjendur eða hælisleitendur eða gerðu „góðlátlegt grín“ yrðu fyrir mótlæti. „„Góða fólkið“ mætir allri slíkri umræðu með ásökunum um nasisma, rasisma og útlendingahatur,“ kvartaði Elliði.
Því hvar er málfrelsið ef ekki má spyrja spurninga? Eins og hvort við getum treyst múslimum, eða samkynhneigðum eða konum, til dæmis. Það verður að taka umræðuna, en þegar góða fólkið gagnrýnir málstað þeirra sem hefja umræðuna er það andstæðan við umræðu, samkvæmt kenningunni.
„Jafnvel sjálft tungumálið er orðin einkaeign „góða fólksins“,“ ályktaði Elliði út frá því að ákveðin tjáning með tungumálinu væri gagnrýnd.
Árásir góða fólksins á málfrelsið felast þannig í því að það notar málfrelsið til að gagnrýna staðhæfingar eða fordóma sem birtast í nýtingu annarra á málfrelsinu.
2. Það borgar sig ekki að vera góður
Annað áhyggjuefnið við góða fólkið er þegar það reynir að vera gott, en áttar sig ekki á því að það borgar sig ekki fjárhagslega að vera góður. Það hámarkar ekki hagnað. Þar af leiðandi sé naíft eða óraunsætt að reyna það.
Þannig ákvað borgarstjórnin í Reykjavík að taka afstöðu gegn ólöglegu hernámi Ísraelsmanna á landi Palestínumanna með því að nota frelsi sitt til að kaupa ekki vörur frá Ísraelsmönnum á meðan ástandið stæði yfir. Þessu fylgdi andstaða þeirra sem styðja hernámið.
Forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson steig fram á Útvarpi sögu, sem veit ekki hvort hægt sé að treysta múslimum, og kvartaði undan því að hagsmunir Íslands hefðu skaðast af afstöðu Reykjavíkurborgar gegn hernámi Ísraela.
„Þetta er þegar að því er virðist orðið stórskaðlegt fyrir íslenska hagsmuni, þetta getur haft ótrúlega mikil áhrif og mér skilst að þetta sé þegar jafnvel farið að hafa meiri áhrif en öll hugsanleg áhrif af hvalveiðum, og sumir segja að hvalveiðar komi í veg fyrir að við getum selt vörur okkar, en þetta sé jafnvel stærra mál en það,“ sagði forsætisráðherrann, sem stendur þó með hvalveiðum.
Til dæmis var sögð frétt af því að bjórtegundin Einstök hefði verið fjarlægð úr verslun í Bandaríkjunum. Í næstu frétt kom síðan fram að þetta væri ekki mikið hagsmunamál, þegar bjórframleiðandinn sagði að „ekki [væri] um lykilkúnna að ræða á Bandaríkjamarkaði en allir viðskiptavinir séu þó mikilvægir á nýjum markaði.“
3. Siðferðisleg afstaða sem ómöguleiki
Ákvörðun Reykjavíkurborgar var andsvar við breytni Ísraelsmanna, en ekki meintu eðli þeirra, og var því siðferðisleg afstaða fremur en fordómar, rétt eins og ef neytandi myndi ákveða að kaupa ekki vörur vegna þess að þær væru framleiddar með hjálp barnaþræla, en ekki vegna þess að múslimar framleiddu vörurnar (og þeir óæskilegir eða þeim ekki treystandi).
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, taldi að með þessu væri „góða fólks“-vandamálið risið á ný, og að góða fólkið áttaði sig ekki á því að það væri í reynd vonda fólkið.
„Þið teljið að þið séuð ekki nasistar af því þið eruð góða fólkið,“ útskýrði hún, að því er virtist á þeim grunni að siðferðislega afstaðan væri í reynd árás á eðli Ísraelsmanna. Með þessu er siðferðisleg afstaða flokkuð sjálfkrafa sem fordómar, og hún í reynd skilgreind burt og gerð ómöguleg. Ein algengustu rökin gegn viðskiptabanni Reykjavíkurborgar á Ísrael voru að í því fælist hatur eða rasismi. Áslaug baðst hins vegar afsökunar á því að tengja borgarfulltrúa við nasista vegna afstöðunnar gegn hernámi Ísraelsmanna.
4. Góða fólkinu kemur þetta ekki við
Önnur gagnrýni á góða fólkið er að það hafi í raun ekki rétt til að gagnrýna eða taka virka afstöðu, eða beri jafnvel skylda til að ástunda afstöðuleysi. Því komi þetta ekki við.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, endaði grein sína í Fréttablaðinu nýlega á áskorun um að það ætti að „láta réttum stjórnvöldum eftir að styðja Palestínuríki og gagnrýna mannréttindabrot.“
Það er auðvitað öfugsnúið að fulltrúi flokks sem leggst gegn miðstýringu og ríkisvæðingu hafi þungar áhyggjur af því að aðrir en ríkið eigi frumkvæði að afstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar flokkur með tvo kjarna, sem stangast oft á: frjálshyggja og íhald.
Íhaldssama afstaðan er að ástand heimsins sé almennt það rétt eða í góðu lagi að besta niðurstaðan fáist sjálfkrafa með virkni kerfisins.
Þannig verður í raun rangt að mótmæla því sem gerist. Þannig er rangt að mæta á Austurvöll til að mótmæla ríkisstjórn sem hefur leynt þjóð sinni mikilvægum upplýsingum og stýrt þjóðinni í hrun. Því lýðræðislegar kosningar á 1461 dags fresti séu viðeigandi farvegurinn fyrir óánægju.
Það felst í mótmælum að gera eitthvað óvenjulegt og án þess eru raunveruleg mótmæli illa möguleg.
5. Góða fólkið er vont við aðra ef það er gott við einn
Algeng kenning þeirra sem hafa áhyggjur af áhrifum góða fólksins á samfélagið er að góða fólkið sé í rauninni vont þegar það gerir góðverk vegna þess að það sé að fórna öðrum hópum þegar það hjálpar einum.
Hagfræðingurinn Ólafur Ísleifsson kvartaði undan því á Útvarpi sögu að sama fólk skyldi jafnvel vilja hjálpa sýrlenskum flóttamönnum og reyna að koma í veg fyrir neyð þeirra, þegar þeir hjálpuðu ekki til við að lágmarka hækkun verðtryggðra fasteignalána.
„Þetta er sama fólkið og horfði upp á heimili samlanda sinna, Íslendinga, fjölskyldnanna brenna hérna af völdum verðbólgunnar“
„Þetta er sama fólkið og horfði upp á heimili samlanda sinna, Íslendinga, fjölskyldnanna brenna hérna af völdum verðbólgunnar,“ sagði Ólafur.
Þannig getur góða fólkið ekki verið gott án þess að vera líka vont, því fólk sem ekki hjálpar öllum er hræsnarar og enginn getur hjálpað öllum. Samkvæmt því er tilvist góðs fólks útilokuð og tilraunir til góðmennsku fáfengilegar og hræsni.
Svona er verið að reyna að jaðarsetja virka góðmennsku út frá því að hún sé hræsni, barnaskapur og afskiptasemi - löstur frekar en dyggð - og umturna veröldinni þannig að gott sé orðið vont.
Athugasemdir