Á síðasta áratug varð 70 prósenta aukning á skráðum ávísunum lækna á tauga- og geðlyf á Íslandi, eins og sjá má í lyfjagrunni embættis landlæknis.
Á þessu eru fleiri en ein skýring og sem betur fer stafar þetta ekki einvörðungu af því að geðheilsu Íslendinga hafi hrakað svo gríðarlega síðan upp úr aldamótum. Aðrir þættir koma þarna inn, eins og til dæmis betri skráning og fjölgun íbúa. Eins er það auðvitað ekkert nema jákvætt að fólk sé tilbúið til að nota lyf til að takast á við geðsjúkdóma, eins og hverja aðra sjúkdóma. En eftir stendur að eftir því sem tölulegum upplýsingum um lyfjanotkun á Íslandi hefur fleygt fram verður æ skýrara að við eigum þarna enn eitt höfðatölu-heimsmetið. Oftar en einu sinni á undanförnum árum hefur Ísland verið í efsta sæti OECD ríkja í notkun þunglyndislyfja og geðlyfjanotkun almennt er nærri tvöfalt hærri hér á landi en meðaltal OECD ríkja eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem sýnir stöðuna miðað við nýjustu fáanlegu tölur.
Í umræðunni hingað til hafa engar almennilegar skýringar fengist á því af hverju þetta stafar. Sérstaklega stingur þetta í stúf við ítrekaðar umfjallanir um mælingar á hamingju íbúa víða um heim, þar sem Íslendingar eru iðulega mjög ofarlega á blaði og hafa stundum mælst á toppi hamingjuvísitölu Sameinuðu þjóðanna. Vonandi stafar það ekki einvörðungu af því að fólk hér á landi þori ekki öðru en að ljúga þegar það er spurt hvort það sé lífsglatt. Það er ekki sérstök ástæða til að ætla að við séum meiri lygarar en íbúar annarra landa og að sama skapi er engin ástæða til að ætla að Íslendingar séu veikari á geði en fólk af öðru þjóðerni. Það er líka fátt sem bendir til að hér sé stunduð einhvers konar ofgreining á vandamálum af geðrænum toga, þó að vissulega sé þjónustan aðgengilegri en víða annars staðar.
Tvennt sem kann að skýra þessa miklu lyfjanotkun, er annars vegar fjöldi ávísana frá heimilislæknum og hins vegar hár kostnaður við sálfræðimeðferð á Íslandi.
Þó að heimilislæknar hér á landi séu upp til hópa virkilega færir má setja spurningarmerki við það hvort eðlilegt sé að þeir geti skrifað upp á geðlyf án þess að gerð sé krafa um að einstaklingurinn leiti sér fyrst faglegrar aðstoðar hjá sálfræðingi, geðlækni eða geðhjúkrunarfræðingi. Þannig er staðan á Íslandi í dag og því hafa þúsundir landsmanna verið á geðlyfjum árum saman án þess að hafa nokkurn tíma fengið raunverulega greiningu. Það gefur augaleið að ef ráðist er í lyfjameðferð við geðsjúkdómum án alvöru greiningar standa orsakirnar eftir óhreyfðar.
„Það gefur augaleið að ef ráðist er í lyfjameðferð við geðsjúkdómum án alvöru greiningar standa orsakirnar eftir óhreyfðar.“
Tryggingastofnun niðurgreiðir ekki sálfræðimeðferð á Íslandi, en tímar hjá geðlæknum eru niðurgreiddir. Meðaltími hjá sálfræðingi kostar einhvers staðar á bilinu 8-15 þúsund krónur. Fyrir þá sem eru komnir með afsláttarkort frá Tryggingastofnun Ríkisins kostar tími hjá geðlækni að jafnaði um þrefalt minna, þar sem hið opinbera kemur að því að niðurgreiða þá þjónustu. Þessi mikli munur á kostnaði gerir það að verkum að flestir Íslendingar velja geðlækna fram yfir sálfræðinga ef þeir eiga í geðrænum vanda. Það er staðreynd að stór hópur íslenskra geðlækna stundar ekki ítarlega samtalsmeðferð, heldur byggir meðferðina nær eingöngu í kringum lyfjagjöf. Þetta byggi ég á samtölum mínum við tugi starfsmanna í geðheilbrigðisgeiranum og fjöldan allan af skjólstæðingum geðlækna. Að sjálfsögðu er ekki hægt að alhæfa í þessum efnum og á Íslandi eru fjölmargir geðlæknar sem eru mjög færir í samtalsmeðferð og stunda hana af alúð. En hitt er ekki síður algengt að skjólstæðingarnir fái aðeins stutta stund, þar sem fátt er rætt annað en lyfjameðferð.
Þetta tvennt sem hér hefur verið rakið á stóran þátt í að skýra það hvers vegna þúsundir Íslendinga eru á geðlyfjum árum saman án þess að hafa svo mikið sem prófað samtalsmeðferð, sem mögulega hefði lagað vandann án þess að nokkur lyf hefði þurft til. Ef eitthvað sat eftir í háskólanámi mínu á þessu sviði var það að allar rannsóknir sýna að lyfjameðferð ein og sér skilar aldrei sama árangri og þegar henni er fylgt eftir með samtalsmeðferð. Á árunum fyrir hrun var heilmikið rætt um að sálfræðingar kæmust að hjá Tryggingastofnun, en svo dó sú umræða einhverra hluta vegna eins og svo margt annað og hefur ekki lifnað við aftur. Það er löngu orðið tímabært að sálfræðingar komist að hjá Tryggingastofnun. Geðheilsa á að vera hluti af heilbrigðiskerfinu og er það víðast hvar í löndunum í kringum okkur. Þeir peningar sem fara í að niðurgreiða samtalsmeðferðir ættu að skila sér margfalt til baka, enda hefur varanleg örorka vegna geðsjúkdóma verið á hraðri uppleið á Íslandi og kemur til með að sliga kerfið ef fram heldur sem horfir. Geðlyf eru í mörgum tilvikum algjörlega nauðsynleg tímabundið og skila oft miklu. En þau á ekki að gefa árum saman án þess að samhliða sé stunduð samtalsmeferð, þar sem reynt er að komast að rótum vandans.
Sölvi Tryggvason er fjölmiðlamaður með BA-gráðu í sálfræði
Athugasemdir