Hamingjan er skammt undan ef undirmeðvitundin mín er vakandi, þá þarf ekki mikið meira en góðan tebolla eða bláan himinn til að hamingjuhormónin streymi um líkamann minn. Aftur á móti slokknar hratt á henni ef ég missi tenginguna við hana. Ég sé fyrir mér langa leiðslu frá heilanum til undirmeðvitundarinnar gjörsamlega stíflaða, stíflan myndast oftast vegna álags eða þegar ég fer illa með sjálfa mig. Markmiðið er því að halda blessaðri leiðslunni í þokkalega góðu flæði því annars fer allt í fokk. Þegar ég er óhamingjusöm gef ég minna af mér og hef minni þolinmæði og sé ekki fegurðina í litlu hlutunum sem eru í kringum mig. Allt í einu eru börnin mín orðin svo pirruð og allir ökumenn í umferðinni fífl. Þá kviknar rautt ljós hjá mér og ég veit að það er kominn tími til að losa stífluna því heimurinn og fólkið í kringum mig er ekki vandamálið heldur ég sjálf.
Með árunum hef ég lært að það er ekki þess virði að fara illa með sjálfa mig því afleiðingarnar eru of dýrkeyptar. Á síðustu 15 árum hef ég leitað allra ráða til að finna sem mesta hamingju og viðhalda henni, hvort sem er með góðu mataræði, meiri hugarró eða sálfræðihjálp. Leiðslan mín fór nefnilega að flæða vel eftir að ég loksins hætti að burðast með gamlan farangur úr fortíðinni, vinna í meðvirkninni minni og með árunum hef ég meðvitað raðað yndislegu fólki í kringum mig sem gefur mér óskilyrta ást og umhyggju. Eins og blóm blómstrar í góðum jarðvegi þá skínum við mannfólkið þegar nánasta umhverfið er ástríkt. Eins þarf ég að vera í góðu sambandi við tilfinningarnar mínar og koma vel fram við mig sjálfa eins og ég kem fram við bestu vinkonu mína.
Þetta er ekkert endilega einfalt í framkvæmd en sem betur fer búum við í samfélagi þar sem hægt er að fá aðstoð og leita sér hjálpar á hverju strái og þess hef ég notið góðs af.
Umhverfið sem ég vel mér til að vaxa í er mikilvægt en ég þarf líka að vanda mig við að velja það sem ég set ofan í mig og ná góðum svefni, því það eru grunnþarfir mannsins til að geta fúnkerað. Að bera virðingu fyrir og hlusta á þessa mögnuðu starfsemi sem heitir líkami er líka grundvöllurinn til að líða vel og ná sambandi við sjálfan sig. Þegar ég er hamingjusöm streymir falleg orka og gleði frá mér og allir í kringum mig njóta góðs af. Ástand sem ég vildi óska að ég gæti fyrirhafnarlaust komist í og bara alltaf verið í.
En auðvitað er ekki hægt að vera alltaf 100% hamingjusamur (nema kannski á Facebook) því að hamingjan og óhamingjan eru sitt hvor hliðin á sama peningnum. En ég reyni að halda hlutföllunum hamingjusöm og óhamingjusöm í 80/20 og það er farið að ganga vel.
Þannig að hamingjan fyrir mér er í raun og veru eitthvað sem ég stjórna sjálf með því að rækta líkama, sál og velja mér gott fólk til að hafa í kringum mig, ekki nýr bíll eða hærri launaseðill, þó að það geti sjálfsagt aukið enn meira á hamingjuna en það gerir ekkert eitt og sér. Ég ber sjálf ábyrgð á minni eigin hamingju og get engum öðrum um kennt nema sjálfri mér ef óhamingjan nær yfirhöndinni. Þetta er ekkert flókið, svo framarlega sem hamingjuleiðslan mín flæðir vel uppsker ég hamingju.
Athugasemdir