Verðmætin í samfélaginu liggja víða. Iðulega komum við ekki auga á það en sjáum bara vandræði og kostnað í stað tækifæra og verðmæta. Aldraðir eru einmitt tækifæri og verðmæti, en í umræðunni falla þeir þó oft undir vandræði og kostnað. Sérstaklega í stjórnmálaumræðu.
Hver einasta manneskja vill í raun bara skipta máli. Vera til gagns og njóta virðingar og viðurkenningar fyrir það. Það á við alla ævi. Grunnskólastelpa og 80 ára gamall maður eiga það sameiginlegt að vilja skipta máli. Við 67 ára aldur hefur manneskjan safnað reynslu, vitneskju og getu sem fæstir hinna yngri hafa. Samt er þá strax hafist handa við að brjóta fólk niður. Fólk er komið í flokk sem tilheyrir kostnaði samfélagsins og er orðið vandamál.
Ég væri til í að geta leitað til aldraðs fólks úr viðskiptalífinu sem hjálpaði mér með þá veggi sem fólk í minni stöðu rekst á reglulega. Raunar geri ég það. Hver þekkir ekki að fara í byggingavöruverslun og lenda á gamla kallinum? Hann veit allt og getur gefið manni ráð um allt. Ég veit mörg dæmi þess að fyrirtæki hafa misst sitt besta fólk þar sem það borgaði sig ekki lengur fyrir það að vinna. Barnaheimili á elliheimilum eru algeng í mörgum löndum, þar sem fólkið sem býr á elliheimilinu getur unnið við barnagæslu hluta úr degi og fær þar af leiðandi hlutverk. Gerir gagn. Að hafa hlutverk, skipta máli, er öllum nauðsynlegt í stað þess að vera talið fyrir. Fólk sem er meðhöndlað sem vandamál og kostnaður er fyrir. Það vill enginn vera fyrir.
„Viljum við samfélag þar sem 67 ára gamalt fólk hefur ekki annað hlutverk en að bíða eftir endalokunum og passa sig á að vera ekki fyrir?“
En ef viðkomandi fær hlutverk, þá þarf því að fylgja greiðsla. Annað er virðingarleysi. En greiðslunni fylgir böggull. Það sem viðkomandi hefur unnið sér inn í réttindum yfir ævina er tekið af á móti greiðslunni. Því getur það endað þannig að viðkomandi sitji uppi með minni ráðstöfunartekjur heldur en ef viðkomandi sæti heima og passaði sig á að vera ekki fyrir í samfélaginu.
Eru það skilaboðin sem við viljum senda? Viljum við samfélag þar sem 67 ára gamalt fólk hefur ekki annað hlutverk en að bíða eftir endalokunum og passa sig á að vera ekki fyrir? Eða viljum við samfélag þar sem allir skipta máli?
Mér þætti eðlilegt að fyrstu 300.000 krónur mánaðar sem eldri borgarar ynnu sér inn myndu ekki skerða nein áunnin réttindi. Heldur yrðu bara skattlögð eins og hjá öðrum. Þannig getur fólk komið að gagni án refsingar. Skipt máli og lifað betra lífi. Tekið þátt í samfélaginu og notið þess sem þegar hefur áunnist með striti lífsins. Það mun án efa minnka heilbrigðiskostnað ríkisins, auka hamingju í samfélaginu og það sem skiptir mestu máli; verðmætin sem búa í getu reynslumesta fólks landsins nýttust okkur öllum til góða.
Erum við til í þetta?
Athugasemdir