Á ættarmótinu var farið í spurningaleik. „Ullarsokkinn 2015“. Hvert langborð skyldi tilnefna „mesta gáfumennið“ úr sínum hópi til að standa við borðendann næst sviðinu. Ullarsokkur átti svo að ganga frá hinum endanum og skyldu allir borðþegar snerta hann áður en „gáfumennið“ fengi sokkinn í hendur. Sá borðfulltrúi sem fyrstur gripi sokkinn fengi svarréttinn. Þetta var skemmtilegur leikur, þótt borðin væru mis-heiðarleg í sokkasnertingum. En sláandi var að af tíu borðum valdi einungis eitt konu sem „gáfumennið“ sitt. Okkar borð reyndi að senda konu en sú baðst undan og fyrir vikið var Þingeyingurinn sendur upp, þrátt fyrir að hann hafi beðist undan því.
Kynjafordómarnir koma sífellt aftan að okkur, við fyrstu hugsun sjáum við ekki konu í hlutverki „gáfumennisins“ og þær kannski ekki heldur. Stjórnendur leiksins, tveir upplýstir karlmenn á miðjum aldri, áttu að grípa í taumana en voru of heitir af eigin uppfinningu. Og enginn í salnum var nógu leiðinlegur til að standa upp og gera hróp að þessu karlveldi. Nokkur okkar heyrðust æmta í átt að sviðinu en meira var það ekki. Gáfumennin fengu öll nema eitt að vera karlmenn.
Hér lifir enn í gömlum glæðum. Og í bakhuganum minnumst við genginna feðra vorrar ættar sem margir voru landsþekktir bókasafnarar. Sjálfkrafa bar fólk virðingu fyrir slíkum mönnum á svart-hvítri tíð, þeir voru svo víðlesnir og margfróðir. Minnisstætt var því útvarpsviðtal við þann frægasta þeirra, sem ég heyrði ungur að aldri. Karl var svo bókríkur að hann hafði reist sérstaka bókhlöðu á afskekktum bæ sínum, við hlið heyhlöðunnar, og fyllt hana af dýrmætum útgáfum, ófáanlegum og illfáanlegum. Þegar bókabóndi var hins vegar spurður um það hvort hann hefði lesið allar bækurnar sínar kvað hann nei við, hann hefði í raun aðeins lesið örfáar. Hann var bókasafnari, ekki lesandi, öfugt við notendur bókasafnanna sem að meirihluta eru konur. Samt sem áður lifir enn í huga okkar myndin af rosknum skeggmanni með tóbak í æðum sem standandi fyrir framan bókaskápinn hefur yfir sér þetta líka spekingslega yfirbragð gáfumennisins.
„Þær eru bara svo heftar af þessum andskotans femínisma sem tröllríður öllu.“
Að leik loknum fylgdu nokkrar ræður. Ættarformaður, þéttvaxinn karl að sunnan, flutti ársyfirlit, minntist á helstu innkaup í ættarhúsið, „mest eitthvað kodda- og dýnudót sem konur telja nauðsynlegt“ og fór svo með gamansögur þar sem allar konur voru „kellingar“. Í kjölfarið komu þó þrjár góðar ræður fluttar af þremur konum sem sögðu sögur af formæðrum, þessum þolinmóðu þrettánbarnamæðrum sem ætíð stóðu í neftóbaksskugga síns manns en voru þó stundum sendibréfsfærari og hagmæltari en hann. Skemmtileg nítjándualdar ritdeila var rifjuð upp þar sem langamma vor lagðist hörð gegn þeim dansiböllum sem stóðu lengur en 15 klukkutíma (!).
Að því loknu tóku við almennar umræður yfir rauðvínsglasi á löngum borðum. Í framhaldi af gáfumenna-valinu fyrr um kvöldið sagði framhaldsskólakennari að sunnan frá reynslu sinni af vinnu með krökkum dagsins í frístundastarfi. Strákarnir geta spunnið upp hvaða vitleysu sem er, þeir eru fullir sjálfstrausts og óheftir í sköpun sinni, þeim er nokk sama hvað fólk heldur um þá, á meðan stelpurnar eru sífellt að ritskoða sig, efast um og gagnrýna það sem frá þeim sjálfum kemur, skoða hvort það samræmist kröfunum sem þær gera til sín.
„Þær eru bara svo heftar af þessum andskotans femínisma sem tröllríður öllu og bannar þetta og hitt og lætur stelpurnar missa húmorinn og trúna á sig!“ Þetta voru frekar leiðinlegar fréttir úr skólakerfinu og enn leiðinlegra að heyra konu kenna konum um að hafa heftandi áhrif á konur, að frelsisbarátta kvenna verkaði helsandi á yngstu kynslóðina.
Kona handan borðsins svaraði svo: „Svona löng kúgun er alltaf svo lúmsk. Kúgarinn getur nánast slakað á. Þó einhverjir þrælar geri uppsteyt verða alltaf aðrir til að verja stöðu hans. Þrælarnir sjá um að halda þrælunum niðri. Það er bara svo óendanlega sorglegt þegar við sjáum óvininn í þeim sem fara fyrir baráttunni.“
Á heimleiðinni, á slydduvegum sumarsins 2015, birtist kvenrödd í útvarpstækinu. Ung skáldkona flutti pistil um skarðan hlut kvenna í bókmenntalífi Íslands og Vesturlanda, sagði sögur af viðskiptum sínum við eldrikarla og gagnrýndi þaulsetu karlmeirihluta í stjórnum og ráðum bókmenntastofnana eins og bókmenntatímarita og Bókmenntahátíðar í Reykjavík, en ein af tveimur fulltrúum kvenna í þeirri 9 manna stjórn sat einmitt við stýrið í bílnum. Ósjálfrátt fór eldrikarlinn í farþegasætinu að telja hlutföllin í þeim stjórnum sem hann situr í og viðskipti sín við ungar skádkonur. „Kannski er hún að tala um mig?“ er sjálfsagt setning sem kviknaði í mörgum karlhausnum þetta kvöld. Við megum vanda okkur, vera vakandi, endurskoða og endurhugsa. Eða eins og skáldkonan sagði: „Það er kannski í lagi að vera fastur í gömlum vana en gleymum því ekki að fersk augu eru að horfa og fersk eyru eru að hlusta.“ Í næstu netvík mátti svo sjá að góð kona hafði póstað útvarpspistlinum á Facebook, en líka að þegar voru komin við hann 200 komment. Fljótleg talning leiddi í ljós að aðeins tíu af þeim voru frá konum, hin öll frá karlmönnum. Við erum svo æðisleg tegund.
Karlremban er lúmsk og verður sjálfsagt seint upprætt að fullu, lesandi þessarar greinar má til dæmis spyrja sig hvort hann hafi séð fyrir sér karl eða konu þegar hann leit fyrirsögn þessa pistils.
PS. Kvöldið eftir heimkomu var blásið til sameiginlegs bústaðadinners í hinni fjölskyldunni. Að honum loknum var farið í spurningaleik þar sem fólki var skipt í 4 lið. Reynt var að blanda rétt í liðin en þar sem konur voru þarna í meirihluta var eitt liðið skipað konum eingöngu. Þær sigruðu auðvitað leikinn með yfirburðum.
Athugasemdir