Vísir greinir frá því í dag að Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra vilji koma böndum á internetið til að sporna gegn hatursorðræðu.
Eygló lyfti ekki litla fingri gegn flokkssystkinum sínum í Reykjavík þegar þau gerðu minnihlutahóp að byssupúðri í síðustu borgarstjórnarkosningum. Á miðstjórnarfundi flokksins í fyrra, þar sem hart var tekist á um kosningabaráttu Framsóknar og flugvallarvina, hélt ráðherra innflytjendamála sig til hlés. Aftur á móti kom hún Sveinbjörgu Birnu oddvita til varnar í útvarpsviðtali og kvartaði undan hatursfullri umræðu um Framsóknarflokkinn. Nokkru síðar greindi svo DV frá því að ráðherrann hefði viðrað sams konar áhyggjur á ráðstefnu í Svíþjóð – raunar líkt „gagnrýni á Framsókn við grófa hatursorðræðu gegn konum“.
Í greinargerð sem unnin var fyrir Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í fyrra er bent á að umræðan um múslima hafi orðið mun grófari eftir að frambjóðendur Framsóknarflokksins í Reykjavík beindu spjótum sínum að minnihlutahópnum í fréttaviðtölum. Meira fór að bera á rasisma og öfgakenndri þjóðernishyggju auk þess sem einum af forsvarsmönnum Félags múslima á Íslandi barst morðhótun.
„Helsta ástæða þessa munar er líklega sú að í tengslum við seinni umræðuna voru margir einstaklingar sem gegna, eða voru að sækjast eftir, opinberum valdastöðum í samfélaginu sem tjáðu sig með neikvæðum hætti um byggingu mosku í Reykjavík,“ segir í greinargerðinni. „Sú orðræða, ásamt þögn ýmissa valdamikilla aðila, kann að hafa verið túlkuð sem svo að það væri búið að gefa samfélagslegt samþykki fyrir því að setja slíkar skoðanir fram á opinberum vettvangi.“
Almenn hegningarlög og fjölmiðlalög kveða á um bann við hatursáróðri. Það er ágætt að fram fari umræða um bannið og hvernig best sé að fylgja því eftir. En ef til vill gætu Eygló Harðardóttir og flokkssystkini hennar gert meira gagn með því að líta sér nær og ryðja burt þeim þjóðernispopúlisma sem Framsóknarflokkurinn hefur tamið sér.
Athugasemdir