Ört vaxandi hópur fólks á vesturlöndum hefur á síðustu áratugum sótt í þekkingarbrunn Austurs þegar kemur að andlegum fræðum og lífsspeki. Annar hver maður er annað hvort byrjaður að stunda yoga og hugleiða, eða er á leiðinni í slíka iðkun. Í áraraðir hefur hver bókin á fætur annarri, sem fjallar um speki búddisma og ,,Jain-isma” á praktískan hátt fyrir vesturlandabúa, ratað í efstu sæti metsölulista. Það er ekkert óeðlilegt við þessa þróun, enda varla endalaust hægt að selja fólki að næsti hlutur sem það kaupi sé nákvæmlega púslið sem upp á vantar til að allt verði frábært. Endastaðurinn sem okkur er seldur í gegnum fjölmiðla og bíómyndir lætur á sér standa og í stað hans kemur tómleiki. Auk þess er morgunljóst að vestræn trúarbrögð hafa ratað í ákveðna blindgötu sem ekki sér fyrir endann á. Þó að efnisleg staða hafi batnað á síðustu öld vantar fólk upp til hópa tilgang og andlega næringu sem það finnur einfaldlega ekki í kirkjum.
Range Rover andans
Það sem gjarnan gerist þegar fólk fetar vegferðina í átt að austrænni speki er að óafvitandi heldur það áfram í nákvæmlega sama samanburðinum og samviskuvítahringnum og það var komið í öngstræti með í lífi sínu. Í stað þess að leita að hamingjunni í efnislegum hlutum fer það að bera sig saman við austræna andans meistara sem ekkert áttu annað en kuflinn sem þeir hugleiddu í. Sami hugur og gráðugur reyndi að grípa hamingjuna í efninu heldur áfram að reyna að grípa, en að þessu sinni er fálmað í átt að andlegu handriði. Range roverinn hefur tekið á sig nýja mynd, en hugurinn sem sækir í hann vinnur enn samkvæmt sömu lögmálum.
„Andlegar upplifanir virka gjarnan eins og vatn sem verið er að sjóða. Ekkert virðist vera að gerast, fyrr en hitinn nær ákveðnu stigi. Þá breytist allt.“
Bylti lífi sínu 29 ára
Það gleymist oft þegar sagan af Gauthama Buddha er sögð að hann var 29 ára gamall þegar hann stakk af úr höllinni og hóf leit sína. Þegar sagan er sögð er yfirleitt skautað algjörlega fram hjá fyrstu 29 árum ævi hans. Árum þar sem hann lifði í allsnægtum sem prins, umvafinn fallegu kvenfólki, ofgnótt í mat og drykk í höll með stórkostlegum görðum. Þar sem lífsstíllinn sem hann lifði þessa fyrstu þrjá áratugi passar ekki við ímyndina af heilagleikanum er þeim einfaldlega sleppt, eins og þeir skipti ekki máli í sögunni. En var það ekki einmitt tómleikinn í allsnægtunum sem gerði gerði prinsinn Siddharta að Buddha? Mjög ólíklegt verður að teljast að hann hefði getað farið af jafn miklum þunga í sína vegferð án þess að hafa í pokahorninu reynsluna af allsnægtunum. 29 ára gamall stakk hann af úr höllinni að næturlagi í leit að innri sannleika. Þegar búið var að kanna lendur hins ytra út í ystu æsar án þess að finna þar sannleikann var honum unnt að sleppa takinu og leita á eina staðinn sem hann hafði ekki skoðað. Inn á við. Ástæða þess að hann leit aldrei til baka, var að hann vissi hvað þar var að finna. Hann hafði prófað það. Ólíkt andlegum leitendum sem aldrei hafa reynt það sem þeir fordæma, gat Gauthama farið í þá vegferð af sama krafti og hann hafði notað í að prófa allsnægtirnar fyrri hluta ævi sinnar.
Frelsi frá hinu ytra kemur ekki með flótta
Hver er punkturinn? Jú, við ættum ef til vill að fara örlítið varlegar í að fordæma það í okkar eigin fari sem freudíska súper-egóið hefur ákveðið að sé ekki fínt og bjóða það þess í stað velkomið. Öll reynsla er góð. Það er í það minnsta mjög erfitt, ef ekki hreinlega fullkomlega útilokað að finna sannleikann í innri leit nema hafa prófað ytri vegferðina af fullum krafti. Frelsi frá hinu ytra kemur ekki með flótta, heldur einmitt með því að reyna það af krafti, þangað til reynslan er orðin algjörlega snauð allri ánægju. Þá er ekki neitt annað að fara en inn á við. Andlegar upplifanir virka gjarnan eins og vatn sem verið er að sjóða. Ekkert virðist vera að gerast, fyrr en hitinn nær ákveðnu stigi. Þá breytist allt. Það getur gerst þegar við eigum síst von á og án alls fyrirvara. Ræturnar á lótusblóminu vaxa úr drullunni. Án rótanna er ekkert blóm. Við vitum ekki hvenær það springur út, en jarðveginn búum við til með öllu sem við gerum. Líka því sem huga okkar er tamt að fordæma og gefa neikvæða merkimiða. Þegar við sjáum tilganginn með því líka fer veröldin úr svarthvítu í lit.
Athugasemdir