Auðvitað er fyrirsögn þessi helber vitleysa. Ef það er eitthvað sem fer seint úr tísku hjá mannkindinni eru það fordómar. Gildir þá einu hvort fólk telji sig fordómafullt eður ei. Líkast til eru margir þeirrar skoðunar að þeir séu ekki fullir af hleypidómum sakir þess að þeir hafi skoðun. Þeir flaska á því að skoðun sú kann að vera ógrunduð og sett fram í andúð, hugsunarleysi eða heilagri vandlætingu.
Af ófenginni reynslu halda til dæmis mýmargir því fram að Justin Bieber sé óalandi og óferjandi tónlistarmaður án þess að hafa hlýtt á tónlist þá sem frá honum kemur. Mat á jarm hans á tónlistarsviðinu skal þó ekki lagt hér og nú. Máski síðar. Alltént má halda fram, og það allt að því sleggjudómalaust, að fólk sé síknt og heilagt að leggja mat á hitt og þetta án þess að hafa reynslu af málinu eða án þess að hafa kynnt sér málin. Að því sögðu verður ekki dregið dul á að hér hefði næsta víst mátt kafa betur í það málefni sem tæpt skal á.
Einu sinni þótti til dæmis stórkostlegt vandamál að íslenskar konur gerðu sér dælt við erlenda karlmenn.
Af innflytjendum og flóttafólki kunna að hljótast vandamál. Fimm háskólapróf eru sennilegast ekki nauðsynleg til að átta sig á því. Margt getur svo sem orðið að vandamáli. Einu sinni þótti til dæmis stórkostlegt vandamál að íslenskar konur gerðu sér dælt við erlenda karlmenn. Má gera sér í hugarlund hverju hefði verið póstað á internet-samfélagsmiðlunum hefðu þeir verið við lýði þá. Sennilega væri þá alls konar myndböndum sem sýndu fram á óviðurkvæmilega hegðun þeirra erlendu póstað. Verður og að teljast líklegt að hópar mynduðust sem legðu sig í líma við að sýna fram á þá hættu sem stafa kynni af þeim erlendu sem nudda sér upp við og skvísa „okkar kvenkindur“.
En hér hefir oss ögn borið af leið. Guði sé lof að vér erum eigi á rúmsjó ... Af innflytjendum og flóttafólki kunna að hljótast vandamál. Það liggur í augum „úti“. Lýðurinn kemur frá öðrum og framandi menningarsvæðum og þótt döner kebab sé lukkulegur samruni tveggja menningarheima þá er slíkt ekki alltaf upp á teningnum. Mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð sem eru ekki í réttu hlutfalli við vestræn gildi leynast næsta víst innan flóttahjarðarinnar.
Kannski er rétt að staðnæmast aðeins við hugtakið vestræn gildi. Ætlunin er svo sem ekki að skella hugtakinu undir smásjána heldur er meira og minna gengið út frá því að flestir, sem komnir eru til vits og ára, hafi einhvers konar óljósa mynd í toppstykkinu af því hvað kunni að felast í hugtakinu.
Eitt af því fyrsta sem mígandi mörgum kynni að koma til hugar væri orðið frelsi sem er auðvitað hugtak sem líkt og vestrænu gildin býður upp á efnivið í mikla fræðidoðranta. En í þessu samhengi er algengt að talað sé um að gildi annarra en þeirra sem byggja hið vestræna samfélag séu frábrugðin okkar af því þar sé komið illa fram við kvenkindina og er karlkindinni iðulega laus höndin og gjarn á gripdeildir. Og því er ekki að neita að innan vébanda flótta- og nýbúahjarðanna finnast klárlega óalandi og óferjandi einstaklingar. Á tímum óstöðvandi upplýsinga(fl)æðis er og minnsta mál að finna alls lags skrif og myndbönd sem sýna fram á það. Margir eru og afar duglegir við að pósta slíku. Svo duglegir við það að halda mætti að Trump hafi hlaupið í viðkomandi (Trump er jú tíðrætt um vandamál, án þess að útlista mikið nánar hvers eðlis vandamálin séu).
Hvað sem það áhrærir þá á birting myndbandanna á blessuðu samfélagsvefunum það sammerkt að eiga að vara við, benda á þá ógn sem kunni að stafa hópi sem fundinn er samnefnari undir formerkjum systurtrúar kristni. Getur persónan sem póstar myndbandinu verðið hvítur sauður, svartur sauður eða hrútur eða jafnvel strútur. Getur hún haft hinn besta ásetning, hinn versta ásetning sem myndi lesast á þann veg að birting myndbandanna eigi að sýna fram á að þeir sem birtist í myndbandinu komi fram fyrir sinn kynþátt og sé því kynþátturinn óalandi og óferjandi.
Þessi myndbönd eiga það sammerkt að opinbera ofbeldisfull athæfi, hatursfulla orðræðu, kvenhatur. Oft eru látin fylgja með orð eins og „viljum við þetta“, „svona er þetta fólk“, þeir sýna sitt sanna eðli“ (þetta eru ekki beinar tilvitnanir), „svona er þessi trú“ og þar fram eftir götunum. Oftar en ekki eru fyrirsagnirnar skreyttar vandræðalegum stafsetningarvillum.
Það að þessum myndböndum sé póstað opnar ekki fyrir neina umræðu. Myndböndin og birting þeirra gera því skóna að sá hópur sem sýndur er sé ekki húsum hæfur og ætti að vera úti. Ekki stuðlar þetta að friðsamlegri umræðu né að því að heilinn sé brotinn um hvað gera megi til að greiða fyrir friðsamlegri sambúð ólíkra hópa. Þetta kyndir undir hatursfulla orðræðu og gerir ekkert annað en að staðfesta einfalda, heimóttarlega heimsmynd þeirra sem skipta heiminum upp í okkur og hina, hjá þeim þar sem fordómafull umræða virðist aldrei ætla að fara úr tísku.
Athugasemdir