Fyrir nokkrum vikum kom hópur erlendra fyrirtækjaeigenda og fjárfesta til Íslands. Fyrir þá var haldinn fundur sem ég sat. Þar tóku til máls íslenskir stjórnmálamenn, fjárfestar, fólk í viðskiptum og ferðaþjónustu. Einn rauður þráður var í málflutningi þeirra allra. Allt er á uppleið á Íslandi og það þarf að passa að ekki verði farið inn í nýtt tímabil ofþenslu. Með öðrum orðum, nýtt góðæri er byrjað og við þurfum að læra af reynslunni. Hagvöxtur á uppleið og kaupmátturinn með og efnahagskerfið byrjað að hitna. Hinir erlendu gestir hlýddu á það sem fram fór og virtist ekki brugðið, enda fólk sem er með puttann á púlsinum þegar kemur að hagtölum og miðað við þær var þetta eflaust svona sirka það sem þeir höfðu búist við að heyra. Sjálfur var ég í grunninn sammála því sem fram fór, enda var það strangt til tekið allt rétt. En það vantaði söguna á bak við tölurnar.
Ef allt væri að verða svona frábært er útilokað að hálfgerður anarkistaflokkur mældist með 35% fylgi á Íslandi. Þó að Píratar hafi staðið sig afar vel er nokkuð ljóst að vanafastir íslenskir kjósendur myndu varla stökkva úr bátunum í svo miklum mæli ef fólki almennt þættu hlutirnir hér í toppmálum. Eftir nokkrar umræður þar sem ég leyfði mér að benda á að hinn venjulegi maður á Íslandi sæi hlutina einfaldlega í allt öðru ljósi var ég beðinn um að hitta hinn erlenda hóp síðar um daginn, þar sem þau höfðu áhuga á að heyra önnur sjónarmið en þau sem komu frá frummælendum á fundinum. Þar héldu umræðurnar áfram og sitt sýndist hverjum. Tölurnar töluðu sínu máli, á Íslandi væri kaupmáttur launa hærri en víðast hvar annars staðar samkvæmt opinberum tölum, hagvöxtur væri á uppleið og samkvæmt öllum hefðbundnum mælikvörðum værum við að komast mun hraðar og betur út úr hruninu en flestar aðrar þjóðir. Þegar gengið var á mig með þessar tölur voru ekki nema tvær augljósar útskýringar eftir:
1) Íslendingar eru heimtufrekir og vanir að hafa það of gott.
2) Skipting verðmætanna er svo ójöfn að meðaltalstölur segja í besta falli lítið brot af sögunni.
Það er sannleikskorn í fyrri skýringunni, enda höfum við vanist ansi miklum lífsgæðum miðað við íbúa flestra annarra landa. En ég held að það sé gífurleg einföldun að klára málið með þeirri skýringu einni. Það eru engin haldbær rök fyrir því að við eigum að bera okkur saman við milljónaþjóðir þar sem litlum eða engum náttúruauðlindum er til að dreifa. Staðreyndin er einfaldlega sú að misskipting á Íslandi er að aukast hröðum skrefum og kaupmáttur hins venjulega vinnandi manns er bara alls ekkert að aukast þó að meðaltalið sé að hækka. Brauðmolakenningin hefur einfaldlega ekki virkað betur en svo á Íslandi að úr bakaríi allsnægtanna hrynja nógu fáir brauðmolar til hins venjulega manns til að 35% fólks vill í augnablikinu kjósa Pírata. Ég tek það fram að með þessu er ég ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr þeirri staðreynd að þingmenn Pírata hafa staðið sig afar vel og boðið upp á skynsaman og heilbrigðan málflutning á undanförnum misserum. Þeir eiga fylgisaukninguna fullkomlega skilið miðað við frammistöðu sína. En sagan af sauðtryggustu kjósendum vesturheims er einfaldlega slík að það þarf eitthvað mikið að vera í gangi til að Jón Gnarr geti fyrst orðið borgarstjóri og svo að Píratar geti verið í yfirburðastöðu í könnunum. Fólki finnst greinilega ekki allt vera í toppstandi á Íslandi. Sem leiðir mig að aðalatriði þessa pistils.
Stjórnmálamenn hafa í áraraðir leyft sér að tala um meðaltalstölur kaupmáttar, án þess að víkja svo mikið sem orði að því hvað býr að baki tölunum. Annað hvort vita þeir ekki betur, eða þeir eru vísvitandi að blekkja. Hvoru tveggja er alvarlegt.
„Stjórnmálamenn hafa í áraraðir leyft sér að tala um meðaltalstölur kaupmáttar, án þess að víkja svo mikið sem orði að því hvað býr að baki tölunum.“
Ítrekaðar samantektir hafa sýnt fram á að kaupmáttur venjulegs fólks á vesturlöndum hefur ekki hækkað nokkurn skapaðan hlut áratugum saman. Hér að ofan má til að mynda sjá meðal-tímakaup vinnandi Bandaríkjamanns síðustu fimmtíu ár. Í dollurum talið hefur tímakaupið vissulega meira en áttfaldast, úr 2,5 dollurum upp í 20,67 dollara. En raunverulegt tímakaup eftir að búið er að gera ráð fyrir verðbólgu er nánast nákvæmlega það sama og fyrir 50 árum. Raunverulegur kaupmáttur fyrir einnar klukkustundar vinnu náði raunar hámarki fyrir rúmum 40 árum, þegar það var 4,03 dollarar, sem væru 22,41 dollar miðað við daginn í dag.
Nóbelsverðlauna-hagfræðingurinn Joseph Stiglitz hefur bent á nákvæmlega þetta. Að kaupmáttur millistéttarinnar hafi ekkert hækkað í meira en tuttugu ár og að hagur þeirra sem eru fyrir neðan miðju hafi ekki vænkast í nærri hálfa öld. Allur kaupmáttur hefur með öðrum orðum skilað sér til hinna ríkustu. Við erum að tala um tímabil sem inniheldur innreið internetsins og meiri framfarir í tækniþróun en nokkurn tíma í mannkynssögunni. En öll hagræðing og framþróun hefur skilað sér í veski þess hóps sem mest á. Fyrir meira en helming fólks hefur nákvæmlega engu máli skipt hvað kaupmáttur hefur hækkað mikið að meðaltali síðustu áratugi, þar sem ekkert af því skilar sér til þess hóps. Hagfræðingarnir Thomas Piketty og George Packer hafa bent á þetta sama. Hvernig kjör lægri- og millistétta hafa í raun versnað á undanförnum þremur til fjórum áratugum. Það er nákvæmlega þetta sem hefur gerst á Íslandi. Meðaltalið hækkar, en venjulegt fólk finnur ekki fyrir því, þar sem öll hækkunin skilar sér í efstu lögin.
Alvöru kapítalistar skilja að eina leiðin til að slíkt markaðshagkerfi gangi upp er að peningarnir úr efstu lögunum séu alltaf í umferð og skili sér með eðlilegum hætti niður öll lög samfélagsins. Þeir sem hafa auðgast í hagkerfum frelsis og virkilega trúa á þá hugsjón að best sé að afskipti ríkis séu í algjöru lágmarki átta sig á því að besta leiðin til að láta slíkt ganga upp er að huga stöðugt að þeim sem minnst mega sín og sjá til þess að þeirra hagur vænki líka þegar kakan stækkar. Hagkerfið sem við búum við nú um stundir kemst hvergi nálægt þessarri hugmynd og er í raun ekkert annað en ríkisstyrkt og vansköpuð útgáfa af því sem í upphafi átti að vera heilbrigður kapítalismi. Þeir sem fá hlutfallslega mest frá hinu opinbera þegar allt er talið eru þeir sem síst þurfa á því að halda.
„Þó að þeir sem sjá um að skapa verðmætin og halda uppi framleiðslunni á Íslandi séu upp til hópa á nokkuð svipuðum launum, hefur það lítið að segja ef elíta örfárra manna hirðir sífellt stærri hluta kökunnar.“
Samkvæmt nýlegri lífskjararannsókn Hagstofunnar er jöfnuður á Íslandi með því mesta sem þekkist í hinum vestræna heimi. En einhverra hluta vegna upplifir venjulegt fólk hér á landi samt bara alls ekki að hér ríki jöfnuður. Sú upplifun er ekki veruleikabrenglun. Þó að þeir sem sjá um að skapa verðmætin og halda uppi framleiðslunni á Íslandi séu upp til hópa á nokkuð svipuðum launum, hefur það lítið að segja ef elíta örfárra manna hirðir sífellt stærri hluta kökunnar. Auðurinn og arðurinn skilar sér ekki til hins venjulega manns. Ríkasta eitt prósentið á Íslandi á 244 þúsund milljónir króna í hreinni eign, eða um fjórðung allra eigna í landinu.
Ísland telur rétt um 330 þúsund hræður, hefur ofgnótt raforku, ókeypis heitt og kalt vatn, sjávarútveg sem gæti fætt margfaldan fjölda þjóðarinnar og fær í heimsókn milljón ferðamenn á ári. Samt á meira en helmingur þegnanna minna en 750 þúsund krónur, 30% eiga minna en ekkert (eru í mínus), tíundi hver maður er undir fátæktarmörkum og venjulegt launafólk þarf að hugsa um hverja krónu. Ef reiknaðar yrðu út eðlilegar meðaltekjur á Íslandi miðað við sæmilega jafna skiptingu þess sem landið skaffar yrði útkoman sennilega tala sem flest venjulegt fólk myndi hoppa hæð sína yfir.
Svo ég komi aftur að fundinum sem ég ræddi um í byrjun, mátti þar skynja þróun sem sífellt færist í aukana. Þeir sem eiga mest og stjórna, umgangast fyrst og fremst þá þjóðfélagsstétt sem er í sömu stöðu og því vill orðræða þeirra gjarnan hljóma eins og þeir séu að tala við sjálfa sig. Það þarf ekki nema örstutt samtal við venjulegt vinnandi fólk á Íslandi árið 2015 til að átta sig á því að vaxandi meðal-kaupmáttur og einstakur jöfnuður eru ekki það sem flest fólk upplifir á eigin skinni. Þvert á móti er sundrungin að aukast. Fólkið er ekki firrt. Excel-skjölin segja einfaldlega ekki alla söguna.
Athugasemdir