Ég heyri mikið talað um hvernig ferðamenn eru að eyðileggja allt sem þeir koma nálægt og fara sér svo að voða á meðan við sitjum uppi með kostnaðinn af því að laga til eftir þá. Til viðbótar þurfum við að kaupa flugelda svo björgunarsveitirnar geti bjargað þessu fólki úr ógöngum.
Nú sit ég á kaffihúsi á landsbyggðinni og hripa þetta hjá mér. Í dag er virkur dagur og fullt að gera á þessu kaffihúsi. Ekki vegasjoppa með sveittan hamborgara eða pylsu í boði (ekki það að ég hafi neitt á móti hamborgurum eða pylsum), heldur kaffihús með áhugaverðan matseðil, brosandi þjónustu, fallegt gamalt stell og skemmtilegt umhverfi. Þetta kaffihús er fullt af lífi og setið við öll borð. Á einum veggnum er rekki með bæklingum um alla afþreyinguna sem er í boði í nágrenninu. Það er endalaust úrval af skemmtilegum ferðum og upplifunum sem ég get valið um að skella mér í ef ég hef áhuga. Fólkið á næsta borði var einmitt að koma úr hellaskoðun og eru á eftir að fara í leiðangur um svæðið þar sem matarupplifun er innifalin. Í gær fóru þau í kajakferð um Hvalfjörð og svo í fimm rétta matarveislu á veitingastað í Reykjavík. Starfsfólk kaffihússins sem ég sit á er ungt og það er starfsfólkið sem vinnur við afþreyinguna líka.
„Vil ég skipta á dýrindis sjávarsalati á þessu fína kaffihúsi, þar sem allt hráefnið er úr heimasveit, og að geta bara fengið sveittan hamborgara í vegasjoppu?“
Um daginn sat ég á útiborði á litlum fiskiveitingastað ofarlega á Skólavörðustígnum. Við sátum þarna tveir í sólinni og vorum að ræða um vinnuna. Setið var við öll borð þetta hádegi en það var föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi. Hjá okkur settust tvær eldri konur frá Bandaríkjunum sem voru búnar að skoða Ísland í nokkra daga. Þær voru atvinnukonur í hestamennsku en voru samt ekki hér út af því. Þær vildu skoða náttúruna og menninguna. Prófa sem flesta veitingastaði og fara í dagsferðir. En þessi staður sem við sátum öll á var ekki til fyrir nokkrum árum og þá hefði heldur enginn setið á þessum stað, svona ofarlega á Skólavörðustíg í hádegi á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi. Því fór ég að hugsa um hvað allt þetta líf í miðbænum hefur fært okkur. Úrval veitingastaða og afþreyingu sem við höfum aldrei áður haft. Sterkan geira sem hingað til hefur meira verið rekinn af áhuga og eldmóði en fjárhagslegum árangri. Og þar af leiðandi af vandræðunum sem slíkt hefur skapað fyrir margar fjölskyldur því draumurinn rættist aldrei. Sjálfur rak ég veitingastaði og skemmtistað í miðbænum fyrir mörgum árum. Það var erfitt, sérstaklega að reka skemmtistað sem þá var í mjög stóru húsnæði og hafði einungis tekjur á föstudags- og laugardagskvöldum í tvo og hálfan klukkutíma hvort kvöld, eða samtals 20 klukkustundir á mánuði. Það var erfitt að láta slíkt ganga upp.
Þó svo að einn og einn skilji eftir sig lolla í lyngi, gangi ekki eftir sig á tjaldstæðinu, festi bílaleigubíl úti í á eða týnist uppi á fjöllum vegna vankunnáttu. Viljum við þá fara til baka? Vil ég skipta á dýrindis sjávarsalati á þessu fína kaffihúsi, þar sem allt hráefnið er úr heimasveit, og að geta bara fengið sveittan hamborgara í vegasjoppu? Því það er það eina sem við fáum og þeir sem reka veitingahús á landsbyggðinni geta boðið upp á ef þeir þurfa að treysta á ferðalög Íslendinga í júlímánuði. Það eru bara ekki nógu margir í þeim hópi sem panta sér sjávarsalat og hvítvín í hádeginu á virkum degi til að það borgi sig að hafa það á matseðlinum. Hamborgari og pylsa er það eina sem nógu margir panta.
Ég vil ekki fara til baka. Ég er frekar til í að bíða annað slagið í röð, borga aðeins meira ef það þýðir að ég get valið um allt milli himins og jarðar. Það er ekki hægt að fá hagvöxtinn en enga röð. Það þarf alltaf að forgangsraða þörfunum. Fjölgun ferðamanna þýðir að úrvalið hefur aukist gífurlega og ungt fólk hefur áhuga á að vinna um allt land. Það höfðum við ekki áður. Á sama tíma þurfum við að laga innviðina, bæta merkingar og fræða fólk sem kemur til landsins.
Ferðamenn eru fokkings snilld.
Athugasemdir