Við vitum það öll að því þyngri sem við erum því líklegri erum við til að fá langvinna sjúkdóma svo sem sykursýki II, hjarta- og kransæðasjúkdóma, krabbamein og svo mætti lengi telja. Það sem við teljum okkur líka vita er af hverju þessi tenging stafar. Vegna stöðugra skilaboða frá fjölmiðlum og samfélagsöflum fáum við að heyra það oft á dag að meiri líkamsfita valdi verra heilsufari. En er það í raun og veru svo? Getur verið að fitufordómar eigi þátt í því að feitt fólk sé líklegara til að þróa með sér áðurnefnda sjúkdóma?
Margt bendir til þess. Rannsóknir sýna að fitufordómar innan heilbrigðisgeirans valdi því að feitt fólk fái ekki sömu heilbrigðisþjónustu og grennra fólk. Heilbrigðisstarfsmönnum býður við feitu fólki, eyðir minni tíma með þeim og telur það síður líklegt til að fara eftir fyrirmælum. Þetta hefur að sjálfsögðu bein áhrif á gæði heilbrigðisþjónustunnar ef þú ert feitur einstaklingur. Á vinnumarkaði eru feitar konur síður ráðnar, frekar reknar og þær fá lægri laun en grennri samstarfskonur óháð menntun þeirra. Fjárhagsáhyggjur og álag þeim fylgjandi er ekki heilsufarslega bætandi, eins og við þekkjum flest. Líkamsræktarföt fyrir feitar konur eru af skornum skammti, og þau eru dýrari, óaðgengilegri og rýrari í gæðum en líkamsræktarföt fyrir grennri konur. Hér er um að ræða hreina og klára mismunun á grundvelli holdarfars sem hefur umtalsverð áhrif á lífsgæði og heilsufar þeirra sem fyrir henni verða. Tækifæri feitra til að hugsa vel um líkama sinn eru einfaldlega færri en annarra.
„Á vinnumarkaði eru feitar konur síður ráðnar, frekar reknar og þær fá lægri laun.“
En fitufordómar er hugtak sem nær yfir meira en beina og óbeina mismunun. Þeir eru líka skynjun, tilfinning, upplifun. Þessi skynjun veldur því til að mynda að meirihluti íslenskra kvenna eru hræddar við að fara í sund. Þær óttast að vera dæmdar á grundvelli líkamans, að vera hafnað. Þetta er ekki órökréttur ótti, því miður. Við upplifum þessa fordóma á hverjum einasta degi frá blautu barnsbeini. Við upplifum þá þegar við lendum í eða verðum vitni að því að feitu barni er strítt í frímínútum. Við upplifum þá þegar mamma okkar eða frænka klípur í magann á sér og kemur með yfirlýsingu um að hún verði að fara í megrun. Við upplifum þá þegar okkur líður óþægilega nálægt feitri manneskju eða verðum fyrir óþægilegum augngotum sjálf. Hvort sem við erum gerendur, þolendur eða vitni eru fitufordómar stór þáttur í daglegu lífi okkar.
Að upplifa eða skynja að maður sé beittur misrétti eða komið sé fram við mann á neikvæðan hátt vegna holdarfars hefur mun meiri líkamleg áhrif en við höldum. Við höfum séð það hjá ýmsum minnihlutahópum eins og svörtum, samkynhneigðum og nú feitum. Nýleg rannsókn sýndi að upplifun á ósanngjarnri meðferð eða framkomu vegna þyngdar hefur í för með sér nærri 60% auknar líkur á snemmbærum dauðdaga. Tengslin héldust marktæk óháð BMI-tölu úrtaksins, hversu mikið einstaklingar innan þess hreyfðu sig, hvort þeir reyktu, sýndu þunglyndiseinkenni eða hversu heilsuhraustir þeir voru.
Við erum umkringd skilaboðum um að feitir líkamar séu óæskilegir, ógeðslegir og að við þurfum að heyja stríð við þá. Feitt fólk á að megra sig og allir aðrir eiga stöðugt að vera að ýta undir hegðun sem leiðir til þyngdartaps, hvort sem það er með vinsamlegum ábendingum eða fúkyrðum sem við vonum að fái viðkomandi til að fara að hugsa sinn gang. Megrun og ögun líkamans verður því ákveðið samfélagsverkefni. Óhjákvæmilega leiðir þetta til langvarandi álags hvort sem við erum feit eða ekki. Feitir eiga að grennast meðan grannir eiga að óttast að fitna. Rannsóknir hafa þó ítrekað sýnt fram á að fitufordómar hafa ekki hvetjandi áhrif á þolendur þeirra til að megra sig. Samfélagsleg áhersla á grannan líkamsvöxt leiðir jafnframt til útlitsdýrkunar, slakrar líkamsmyndar og brenglaðs sambands við mat og hreyfingu. Samfélagsverkefnið mistókst. Í staðinn fyrir að hjakka áfram í sama skaðlega farinu þurfum við öll að horfa inn á við og skoða hvernig við getum stemmt stigu við fitufordómum. Það er einfaldlega dauðans alvara.
Athugasemdir