Nú eru allir að bölsótast út í vitleysuna sem kemur út úr Donald Trump og tala um hve hættulegur hann sé heiminum. Hversu vitlaus hann sé eða hversu mikill rasisti. En er hann vandamálið? Er hann kominn í þessa stöðu af því að hann er svo mikið vandamál? Nei, það held ég ekki.
Vandamálið eru kjósendur sem kusu hann. Við nefnilega fáum það sem við kjósum. Hvar sem er í heiminum. Vandamál heimsbyggðarinnar eru því þeir sem kusu Trump, ef Trump er vandamál.
Ef til vill tökum við kosningarétt okkar ekki nógu alvarlega. Kynnum okkur ekki nógu vel hvað við erum að kjósa heldur hoppum á lestina ef meðbyr er með einhverju eða einhverjum. Meðbyrinn er yfirleitt með einhverri skammtímalausn. Skammtímalausnin er auðseljanlegust. „Hvað ætlarðu að gera fyrir mig núna?“ er spurningin sem við spyrjum stjórnmálafólk. Ekki „hvaða framtíð sérðu fyrir þér?“ En það ætti að vera stóra spurningin. Skyndibitamenning nútímans skilur ekki langtímahugsun. Önnur skammtímalausn er að kjósa gegn kerfinu með því að kjósa eitthvað fáránlegt til að mótmæla. En þá sitjum við að sjálfsögðu uppi með það sem við kusum og bölsótumst svo yfir því. En það vorum við sem kusum og ekki dettur okkur í hug að bölsótast út í okkur sjálf.
„Kjósendur eru ekki að kjósa um í hvernig þjóðfélagi þeir vilja búa heldur í hvernig neyslusamfélagi það vill búa næstu fjögur árin“
Fyrir mörgum árum sá ég fræðsluþátt í sjónvarpi. Þar var til umfjöllunar ættbálkur sem bjó á bökkum ár nokkurrar í Austur-Asíu. Frumstæður ættbálkur sem lifði af því sem náttúran gaf. En náttúran tók líka. Áin flæddi reglulega yfir bakka sína með miklum straumi og því var ógjörningur að brúa ána með hefðbundnum aðferðum því flóðið tók brúna alltaf með sér. Ættbálkurinn var þó búinn að finna leið til að brúa ána. Ákveðin trjátegund var gróðursett beggja vegna árinnar nálægt árbökkunum. Þegar trén voru búin að róta sig vel voru rætur leiddar frá trjánum í gegnum bambusrör og þær látnar vaxa frá bökkunum og þannig mynda brú smátt og smátt. Verkið var mjög vandasamt og á nokkurra mánaða fresti þurfti að huga að rótunum svo brúin yxi rétt. Þegar ræturnar svo mættust voru þær látnar fléttast saman alla leið yfir á hinn bakkann þar sem þær síðan festu sig í jörðu. Brúin var svo látin styrkja sig og þéttast með rótum stöðugt eftir að grindin var tilbúin. Það sem var merkilegast var þó að verkið tók um 300 ár þar til hægt var að opna brúna fyrir gangandi vegfarendum. Eftir það var brúin svo að styrkja sig í nokkur hundruð ár til viðbótar.
Það eru nefnilega ákvarðanir sem þessar sem skipta okkur mestu máli til framtíðar sem þjóðar. Ákvarðanir og framkvæmdir sem við sem þjóð eða allur heimurinn þarf á að halda í framtíðinni en ekki hvaða reddingum við ætlum að ná fram á næsta kjörtímabili. Án svona ákvarðana og án þess að þessi ættbálkur hugsaði um hagsæld komandi kynslóða hefði hann ekki getað búið beggja vegna þessarar gjöfulu ár og nýtt landið báðum megin. Þolinmæði, elja, staðfesta og óeigingirni sem eru lykillinn að lífsafkomu þessa fólks.
Við gætum mikið lært af þessum ættbálki eins og þeir gætu mikið lært af okkur.
Að kjósa er ábyrgð. Kosningar eiga að endurspegla lífsskoðanir meirihluta heillar þjóðar. Það er það sem er mikilvægast. Þeir sem kynna sér hvað flokkar eða einstaklingar í framboði standa fyrir kjósa af sannfæringu. Þeir sem kjósa eftir loforðum kjósa oft gegn lífsskoðunum sínum til lengri tíma.
Ég hef áhyggjur af því að menn eins og Trump, Norbert Hofer og aðrir slíkir komist til valda eingöngu vegna þess að kjósendur eru ekki að kjósa um í hvernig þjóðfélagi þeir vilja búa heldur í hvernig neyslusamfélagi það vill búa næstu fjögur árin og fórna í staðinn grunngildum sínum. Ég vona alla vega að stuðningsfólk þessara manna séu ekki að kjósa með rasisma og kvenhatri sem virðist vera eitt af grunngildum þeirra.
Hvort heldur sem er þá situr heimurinn uppi með Trump. Norbert Hofer náði ekki völdum þar sem kjósendur í Austurríki hafa tvívegis hafnað honum þótt naumt væri.
Við kjósendur höfum nefnilega alltaf valdið. Við verðum bara að kjósa meðvitað og kynna okkur hvað við erum að gera í hvert sinn til að það virki. Það er ekki nóg að treysta bara á fjölmiðla sem poppa upp á samfélagsmiðlunum okkar.
Athugasemdir