Morgunblaðið ,25. maí 1933. Í ársbyrjun hafði Adolf Hitler verið skipaður kanslari Þýskalands og hann og nasistakónar hans höfðu þegar byrjað að undirbúa að sölsa undir sig alræðisvöld. Átti það eftir að ganga ótrúlega hratt fyrir sig.
Meðal þeirra sem enn streittust á móti í maí voru samtök svokallaðra „Stálhjálma“ en það voru samtök á hægri vængnum sem fyrrum höfðu veitt nasistum harða samkeppni, en svo orðið undir. „Stálhjálmarnir“ áttu erfitt með að sætta sig við ósigurinn og héldu upp eindreginni mótspyrnu gegn nasistum.
Nasistar sýndu þeim enga miskunn og þegar tími vannst til þess í maí - þegar búið var að brjóta sósíalista og kommúnista að mestu á bak aftur - þá sneru þeir að því að kveða endanlega niður sína gömlu keppinauta, og var staðhæft að áróður „Stálhjálmanna“ gegn hinni nýju stjórn væri með öllu óviðurkvæmilegur.
Þegar Morgunblaðið segir á fréttasíðu sinni frá þessu fer ekki milli mála af orðalaginu hve hneykslaðir Moggamenn sjálfir eru á dónaskapnum sem Hitler og nasistum hefur sýndur af „Stálhjálma“ hálfu - í þessu tilfelli Hitlers-æskunni - , og jafnast helst á við „níðið“ sem landflótta Gyðingar beri á borð gegn Hitler!
(Þessi úrklippa er auðvitað birt hér alveg óháð því að nú munu sumir vera voða hneykslaðir á þeim meinta dónaskap sem Donald Trump sé nú sýndur.)
Athugasemdir