Ég elska að skipta um skoðun. Það er eitthvað svo ótrúlega hressandi. Ekki hlusta á þá sem segja að það sé veikleikamerki. Um leið og gamlar hugmyndir þínar um heiminn og fólkið í honum eru ekki lengur í samræmi við upplifun þína - af hverju ekki að prófa að breyta til? Út með gamla úrelta sorpið og inn með ný og fersk sjónarmið!
Stundum hef ég haldið báðum höndum í skoðanir mínar, eins og þær séu einhvers virði. Eins og þær myndu kannski móðgast ef ég hætti að halda þeim á lofti. Þannig virkar þetta ekki. Við bara látum þær hverfa og alheimurinn tekur við þeim. Einu sinni var ég heillaður af fasisma. Það breyttist. Einu sinni var ég viss um að kannabisefni væru mér skaðlaus. Núna veit ég betur. Einu sinni fannst mér frjálshyggja vera lógísk. Ekki lengur. Einu sinni var ég fylgjandi hvalveiðum. Núna er ég ekki viss. Einu sinni elskaði ég lakkrís. Sumt breytist aldrei.
Á hverjum einasta degi reynir fjöldi fólks að breyta skoðunum þínum á öllu mögulegu. Fólk sem vill peningana þína, stuðning, eða atkvæði. Það er þeim fyrir bestu að þú trúir þeirra upplýsingum og helst án þess að kanna málið uppá eigin spýtur.
En hvað segir þú? Er Bjarni Ben besti maðurinn í starf fjármálaráðherra af því hann er hægrisinnaður, úr Garðabænum og með sögulega langa fingur? Er hag Íslands og framtíð okkar virkilega best borgið með aukinni áherslu á virkjanir og stóriðju? Er Sigmundur Davíð heimsklassa gjörningalistamaður? Fær íslenskur almenningur mest út úr sameiginlegum auðlindum sínum með því að gefa aðeins fámennri valdaklíku aðgang að henni? Eru hamborgarar virkilega betri ef þeir eru kassalaga? Hvað segir skynsemi þín þér?
„Er Sigmundur Davíð heimsklassa gjörningalistamaður? Fær íslenskur almenningur mest út úr sameiginlegum auðlindum sínum með því að gefa aðeins fámennri valdaklíku aðgang að henni? Eru hamborgarar virkilega betri ef þeir eru kassalaga? Hvað segir skynsemi þín þér?“
Fylgstu svo með þeim sem reyna að selja þér einhverja skoðun. Gagnrýnið. Eiga þeir einhverra hagsmuna að gæta? Skoðaðu ákveðna stjórnmálaflokka, og einstaka þingmenn þeirra. Þar er inn á milli fólk sem þiggur gríðarlegar fjárhæðir frá bæði kvótaeigendum og stórútgerðarmönnum sem og risavöxnum álframleiðendum og öðrum einokunarskrímslum. Og af hverju eru samviskulaus stórfyrirtæki að dæla peningum í löggjafarvaldið? Jú - til þess að gjörðir og lagasetning Alþingis sé sem best sniðin að þeirra hag.
Þeir sem eiga kvótann stjórna landinu. Með því einfaldlega að borga íslenskum alþingismönnum fyrir að hafa ákveðnar skoðanir, er hægt að kaupa sér lagasetningu. Þrátt fyrir að alþingismenn séu kosnir af almenningi (og fæst okkar eru kvótaeigendur) til þess að þjóna almannahagsmunum, sjá sumir þingmenn sínum persónulega hag betur borgið með því að þjóna stóreignafólki. Það er ekkert skrítið. Auður er heillandi. Ef þú vilt tryggja þér og þínum sem besta framtíð, og lætur samviskuna ekki trufla þig, þá tekur þú við þeim peningum sem þér eru réttir. Og hlýðir svo höndinni sem lætur þig fá þá.
Eitt skref í áttina að því að útrýma þessari ömurlegu hefð er að hætta að taka mark á þessu fólki. Þeim sem hugsanlega fóru út í stjórnmál vegna hugsjóna, en afvegaleiddust, vegna þess að peningar setja þrýsting á fólk. Það er ekki þeim að kenna. Það er engum að kenna. Auður og völd breyta öllu í skít. Hættum bara að taka mark á honum.
Fölsk loforð um styrka efnahagsstjórn og niðurgreiðslu á skuldum almennings með stolnum peningum og pópúlískar gælur við rasísk skipulagsmál eru aðeins verkfæri til þess að plata þig á kjördegi til þess að láta valdið í hendurnar á framkvæmdaarmi fjármagnseigenda. Þetta fólk málar raunverulega áætlanir sínar upp sem þjóðþrifamál, en sinnir svo engum nema hinum duldu launagreiðendum sínum; auðvaldinu.
Þau þykjast hafa sterkar skoðanir á vinsælum málefnum til þess að fá völd upp í hendurnar. Að sjálfsögðu fær flokkur atkvæði, sem rétt fyrir kosningar fullyrðir að „Allir sem kjósa okkur fá ókeypis pening!“. Enginn kysi þetta fólk ef þau segðu sannleikann, sem er: „Til þess eins að komast til valda ætlum við að ljúga því að sumir muni fái ókeypis pening, en svo þegar við komumst í ríkisstjórn ætlum við að lækka skatta á okkur og vini okkar, gefa þeim kvóta og fjölskyldumeðlimum ríkisfyrirtæki og á meðan ætlum við að kaupa fjölmiðla til þess að ritskoða þá og hóta öðrum fjölmiðlum niðurskurði og lögsóknum.“ Ég hugsa að jafnvel atkvæðin sem þessir flokkar eru með í fastri áskrift væru í hættu.
Við stelum skoðunum. Bjögum og rústum þeim. Ég hef fengið skoðanir lánaðar eftir að hafa heyrt einhvern fara vel með þær, en þegar ég reyndi að nota þær í samræðum brotnuðu þær í munninum á mér, af því ég kunni ekki nógu vel á þær. Ég æfði mig á ákveðnum skoðunum í mörg ár áður en ég gat talað opinberlega um þær án þess að gera mig að fífli. Allt þetta brölt hefur kennt mér að ég er ekki skoðanir mínar. Þær eru bara fylgihlutur sem ég kýs stundum að skreyta mig með. Hégómi og munaður. Ég er ekki hljóðfærið sem ég spila á. Ég er ekki skórnir sem ég klæði mig í. Ég er ekki skoðanir mínar.
„Ég er ekki skórnir sem ég klæði mig í. Ég er ekki skoðanir mínar.“
Sumir leggja mikið upp úr því að hafa skoðanir á öllum málum. Til er fólk sem vinnur við það eitt að mynda sér skoðanir og básúna þær svo yfir almenning. Eins konar atvinnu-skoðanadreifarar. Einhver gæti sagt að ég væri einn af þeim. Ef svo er þá hef ég aðeins eitt að segja: Ekki taka mark á mér.
Kannski skipta skoðanir þínar þig mjög miklu máli og þér finnst þessi pistill minn, þar sem ég er að hvetja þig til að afhelga þær, sem og aðrar skoðanir og athuga hvers virði þær eru, mjög móðgandi og fáránlegur. Þínar skoðanir séu jú ekki sama eðlis og skoðanir annarra, því þú ert virkilega búinn að leggja mikla vinnu í þær. Eins og vel smíðað húsgagn, vönduð hárgreiðsla eða fallegt lag. En sannaðu til, þær eru verðlaust drasl. Rétt eins og skoðanir mínar.
Ég held að heimurinn væri betri staður ef allir vöknuðu á hverjum einasta morgni algjörlega skoðanalausir. Við þyrftum að mæta hvert öðru og hverju einasta máli með hreint blað. Heilu kynslóðakeðjurnar af úreltum viðmiðum myndu loksins slitna. Ríkisstjórnin gæti kannski mætt til vinnu og þjónað þjóðinni?
En það er náttúrulega bara mín skoðun. Hver er þín?
Athugasemdir