Hvað er að gerast?“ spurði ég samstarfsfólk mitt þar sem ég sat við skrifborðið mitt föstudaginn 29. maí síðastliðinn og fann á mér að eitthvað stórt væri í aðsigi. Hver sagan á fætur annarri birtust í lokaða hópnum Beauty tips - grafískar, persónulegar sögur af hræðilegu ofbeldi - og ég gat lítið annað gert en að stara stjörf á tölvuskjáinn. Allt í einu var sem snjóflóð af reynslusögum hefði fallið af fullum þunga á þjóðina og breytt samfélaginu til frambúðar. Gular og appelsínugular myndir opinberuðu umfang vandans, fjölda þolenda og nauðsyn viðbragða.
„Ég vil að forsætisráðherra og innanríkisráðherra geri eitthvað í málunum,“ sagði María Rut Kristinsdóttir í Druslugöngunni í sumar í viðtali við sjónvarpsþáttinn Hæpið á RÚV. „Það er búið að vinna alla forvinnuna, það þarf bara að fara að gera eitthvað.“
María Rut er ekki sú fyrsta sem bendir á að stjórnvöld þurfi að bregðast við þeim mikla krafti sem verið hefur í samfélaginu á þessu ári. Þessi kraftur, þessi flóðbylgja, kallar á breytingar. Í kjölfar þess að þúsundir kvenna stigu fram í vor og sögðu frá kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir sendi femíniska vefritið Knúz ríkisstjórn Íslands opið bréf, sem innihélt ellefu áskoranir, þar sem hún er hvött til að takast af myndugleik á við verkefnið sem hugrakkar konur fengu henni í hendur. Einungis barst svar frá velferðarráðuneytinu, en síðan tók við þögn. Hávær þögn.
En fréttirnar halda áfram að berast og með hverri frétt verður skilningsleysi, jafnvel áhugaleysi, stjórnvalda í málaflokknum sífellt augljósara. Í september kom í ljós að einungis karlar voru skipaðir í dómnefnd sem mat hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara. Jafnréttislög voru ekki sögð eiga við, þó öllum megi vera ljóst að fjölbreytni í dómstólum geti einungis leitt af sér víðtæka þekkingu og skilning á margvíslegum málaflokkum.
„Fréttirnar halda áfram að berast og með hverri frétt verður skilningsleysi, jafnvel áhugaleysi, stjórnvalda í málaflokknum sífellt augljósara.“
Í byrjun mánaðar varpaði Kastljós síðan ljósi á mál tveggja fatlaðra kvenna sem kærðu mann sem rak sumardvalarheimili fyrir kynferðisbrot. Ríkissaksóknari felldi niður málið, þrátt fyrir afgerandi mat tveggja sérfræðinga og vitnisburð þriggja starfsmanna sumardvalarheimilisins. Ekkert var gert til að kanna hvort fleiri hefðu orðið fyrir svipaðri reynslu og þá kom í ljós að rekstraraðilar sumarhótels fyrir hunda þurfa að undirgangast mun strangari skilyrði af hendi hins opinbera en rekstraraðilar sumardvalarheimilis fyrir fatlað fólk. Síðasta staðreyndin er svo sturluð, og lýsir svo mikilli vanvirðingu, að það nær engri átt. Í vikunni fór hópur kvenna á fund velferðarráðherra, gaf stjórnvöldum skömm í hattinn og lýsti yfir vanþóknun á ömurlegu kerfi sem jaðarsetur fatlaðar konur og tekur ekki mark á þeim.
Mánudaginn 9. nóvember var fólki nóg boðið þegar Fréttablaðið vakti athygli á kynferðisbrotamáli sem enn er til rannsóknar. Mikil reiði greip um sig þegar ljóst var að mennirnir tveir, sem kærðir eru fyrir nauðgun, voru ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Fólk lét sér ekki lengur nægja að mótmæla, deila og birta á samfélagsmiðlum heldur hópaðist fyrir utan lögreglustöðina í Reykjavík og krafðist breytinga. Krafturinn minnti á öflugt eldgos, sprengigos tilfinninga sem höfðu kraumað innra með þjóðarsálinni alltof lengi og komust loksins, með krafti, upp á yfirborðið. Nú yrðu stjórnvöld að hlusta!
Sumum kann kannski að finnast þessar hamfaramyndlíkingar hallærislegar, en allt þetta ár hefur einkennst af sterkri umræðu um manngerðar hamfarir - hamfarir sem eiga sér margfalt fleiri þolendur en nokkrar náttúhamfarir. Áhrifa þessara hamfara gætir einnig mun víðar og þær hafa gríðarleg margföldunaráhrif ef ekkert er að gert.
En það eru aðrar hamfarir sem eiga hug og hjarta stjórnvalda. Hvort sem það eru vatnavextir á Siglufirði eða Skaftárhlaup, þá hefur forsætisráðherra verið fljótur á vettvang, bruðist hratt og vel við og lofað tjónþolendum bót sinna mála. Á sama tíma og barist er fyrir fjölgun kvenkyns dómara, eflingu kynferðisbrotadeildar lögreglunnar og fjárveitingar til forvarnarverkefna, samþykkti ríkisstjórnin nýlega tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um stofnun sérstaks hamfarasjóðs - sjóðs sem á bæði að veita fjármagn til bótaþega og til fyrirbyggjandi verkefna vegna náttúruhamfara.
Með fullri virðingu fyrir niðurföllunum á Siglufirði, þolendum einna mestu náttúruhamfara þessa árs, þá er þetta ekki hamfarasjóðurinn sem ég hefði viljað sjá að kæmist á laggirnar á þessu byltingakennda ári.
Athugasemdir