Nú þegar ár Sigmundar Trump er liðið og allir sem skipta máli liggja í valnum er kominn tími til að strengja áramótaheitin fyrir 2017. Fyrir mitt leyti ætla ég að hætta að reyna að láta fólki geðjast að mér og mínum verkum. Pistill sem ég hef eytt dágóðum tíma í að skrifa og myndskreyta er alveg jafn góður þótt hann fái ekki „læk“.
Við sem skrifum getum alveg eins viðurkennt að við erum lækfíklar sem gúglum okkur sjálf í sífellu. Sérfræðingar benda á að lækin – þessir litlu djöflar undir lesefni sem minna á sperrta getnaðarlimi – hafa svipaða virkni á heilann og og smáskammtur af kókaíni því þau narta í heilastöðvar og losa dópamín á svipaðan hátt og kókaduftið.
Heltekin af lækþrælslund teljum við lækin á samræðuþráðum, hver einasta skoðun er vegin og metin eftir því hvort hún fékk nógu mörg læk eða ekki, lækararnir eru síðan dæmdir eftir því hvort og hvað þeir lækuðu eða ekki. Hvert læk er í raun disslæk við andstæðuna og í raun vitum við ekkert lengur hvað okkur líkar, bara hvað er vinsælt hverju sinni og allt er afstætt og pólitískt.
Á Netflix er lækþrældómnum gerð ágæt skil í nýlegum Black Mirror-þætti sem nefnist „Nosedive“. Ung kona lifir í samfélagi þar sem þjóðfélagsstaða hvers og eins fer eftir því hversu mörg læk viðkomandi fær. Þetta endar svo með kostulegri skelfingu þar sem konan öskrast á við samfanga, líkt og við gerum gjarnan á samfélagsmiðlum.
Því netið er stútfullt af fólki sem heldur að það sé í bata vegna þess að það hætti að skvetta framan í sig rauðvíni en eys nú úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlum, búið að skipta einni fíkn út fyrir aðra. Kynslóðin sem var vön að djamma á Kaffibarnum og Hótel Íslandi velkist nú um á Facebook og lætur Mark Zuckerberg drekka í gegnum sig.
Bokkunni hefur verið skipt út fyrir bláan skjáborða skreyttum rauðum ég-elska-þig-líka kassa með tölustöfum: Ég elska þig hundrað sinnum, þúsund sinnum.
Hvert læk dregur fíkilinn neðar til heljar, líkt og sopinn gerði áður. Særindi og vanlíðan eftir átök á Facebook eflaust svipuð og eftir ball á Borginni í gamla daga og lækin jafn græðandi og hvít lína eða vodkastaup í morgunsárinu.
Ástandið nær svo hápunkti þegar íslenskur blaðamaður staðhæfir að öll menning sé að fara til fjandans vegna þess að frétt af íslenskum menningaratburði er ekki jafn mikið lesin og lækuð og rassinn á Kardashian á sama fréttamiðli. Rökin eru einföld hjá einföldum manni. Fólkið vill þetta ekki og þá er það einskis virði. Allt er metið út frá lækum og því hvort einhver apaköttur úti í bæ sem enginn veit hver er smellir á tengil.
„Alveg frá því að ég var barn hef ég verið haldinn jaðarþrá“
Það er stundum erfitt fyrir mig að skilja þetta. Ég kem nefnilega frá plánetunni disslæk. Alveg frá því að ég var barn hef ég verið haldinn jaðarþrá, trúað því að það sem fáum líkaði við væri eftirsóknarverðara en annað.
Ég á ágæta minningu þar sem pabbi minn leiddi mig í kringum vötnin í Kaupmannahöfn, þegar við bjuggum þar, því foreldrar mínir voru að nema kynjafræði og kráardrykkju. Ég man að ég spurði hann hvers vegna hann gerði svona skrítna músík, þennan ómstríða hávaða. Ég hafði verið í sveit og fólkið þar sagt við mig að þegar tónlist pabba væri spiluð í útvarpinu þá héldu allir að þvottavélin væri biluð. Hvort hann væri ekki til í að semja eitt og eitt lag eins og þessi þarna Mó Sart eða Bít Hófen? Karlinn svaraði eitthvað á þá leið að það væri búið að gera þetta allt áður og að hann vildi gera eitthvað alveg nýtt. Ég skildi hann ekki alveg en samt sat í mér að það skipti máli að vera öðruvísi.
Svo kom pönkið og ég mætti í skólann í slopp með áletruninni NEI á bakinu og það gekk allt út á að tilheyra fámennum klíkum sem hlustuðu á tónlist tíu prósentanna eins og það var kallað. Nokkrum árum síðar ollu Sykurmolarnir miklu uppnámi þegar þeir höfnuðu milljónasamningi. Þjóðin sem Kaninn hafði stríðalið skildi ekki að listamenn þurfa að hafa listrænt frelsi frekar en þurfa að skila hámarks hagnaði eða vera „lækaðir“ af íslenskum fjölmiðlum.
Þegar ég hætti að nenna að vera smápönkari og skreið inn í listaskóla
var svipað upp á teningnum því lærimeistarar voru hálfgerðar andhetjur. Carravagio var tvíkynhneigður morðingi sem fékk ekki mörg læk frá samtíma sínum en hafði því mun meiri áhrif á lærisveininn Rembrandt sem fyrir sitt leyti féll sífellt í verði síðustu árin, farinn að mála með breiðum strokum meðan tískan var að dútla í örfínum smáatriðum. Van Gogh hefði ekki fengið nein læk fyrir að pósta afskornu eyra á instagram. Honum hefði bara verið hent inn á næsta geðsjúkrahús eða á skyndi-bata-fund.
Það hlýtur að skipta máli hverjir það eru sem líkar við okkur. Hvers virði eru hundrað læk eða lestur frá einhverjum lúðum sem opna hvort eð er bara netvafra til að fróa sér yfir mynd af amerískum rassi?
Hefði ég litið börnin mín öðrum augum ef þau hefðu fengið færri læk þegar þau fæddust? Þarf mitt nánasta umhverfi – eða þessir tvö þúsund Facebook vinir mínir – endilega alltaf að staðfesta að allt sé í lagi hjá mér?
Ókei. Þú mátt læka núna.
The Kinks / Im not like everybody else
Black mirror / Nosedive
Athugasemdir