Maður finnur það oft á lyktinni niðri í bæ hvort það liggur skemmtiferðaskip við Miðbakka. Því ef vindáttin stendur þannig þá leggst mengunarskýið frá skipinu yfir miðborgina. Skemmtiferðaskipum er nefnilega ekki hægt að stinga í samband í höfnum landsins. Þau brenna í staðinn olíu til að sjá þúsundum gesta sinna fyrir rafmagni, því það þarf auðvitað að elda ofan í fólkið, lýsa káeturnar þeirra, knýja ljósabekkina, rakvélarnar, spöin og skemmtiatriðin sem boðið er upp á kvöldin.
Eitt skemmtiferðaskip getur á einum degi mengað á við 370 milljón bíla, milljón bíla eða 420.000 bíla, allt eftir því við hvaða tegund af mengun við miðum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að slík mengun getur valdið astma, hjartasjúkdómum og lungakrabbameini. Og einhverjar hafa gefið í skyn að það séu möguleg tengsl á milli mengunar frá útblæstri og Alzheimer. Skýrsla CEEH frá 2011 telur jafnframt að útblástur frá skipum valdi árlega um 50.000 ótímabærum dauðsföllum í Evrópu.
Mengun frá bruna á svartolíu er sérlega hættuleg. Hana er reyndar bannað að brenna í höfnum á Íslandi, en í minnisblaði frá hafnarstjóra Faxaflóahafna dagsett 27. apríl síðastliðinn kemur fram að eftirlit með því sé „hins vegar afar takmarkað“. Sem þýðir að við vitum ekkert hverju skipin eru í raun og veru að brenna og hversu mikið þau eitra fyrir okkur.
En mengun frá skipum er auðvitað ekki bara staðbundið vandamál. Lofthjúpurinn virðir engin landamæri og mörg skip byrja að brenna svartolíu um leið og þau eru komin frá höfn. Svartolía er einstaklega hættuleg í Norðurhafi, því hana er miklu erfiðara að þrífa komi til olíuleka í köldum sjónum, auk þess sem bruni hennar og áhrif sótsins á íshellur á Norðurhveli veldur mun meiri gróðurhúsaáhrifum en aðrar tegundir af eldsneyti og hraðar þannig hættulegum loftslagsbreytingum.
„Tökum skrefið til fulls og rafmagnsvæðum allt sem við getum rafmagnsvætt. “
Það stefnir allt í að sumarið 2016 verði öll Íslandsmet slegin í komu skemmtiferðaskipa. Mér sýnist augljóst að það sé löngu orðið tímabært að auka eftirlitið með því hvað risarnir í höfnunum eru að brenna. Og ég held það verði líka afar áhugavert að sjá niðurstöður loftgæðamælinga ef Umhverfisstofnun prófar einn góðviðrisdag í sumar að stinga eins og einum mæli niður á Ingólfstorgi þegar það liggur stórt skemmtiferðarskip á Miðbakka.
Til lengri tíma þarf svo auðvitað að byggja upp innviði fyrir rafdreifikerfi í höfnum landsins. Það verður auðvitað ekki ókeypis, en á móti getum við selt skipum rafmagnið. Við komum svo vitaskuld öll til með að stórgræða á því sem sparað verður í útblæstri á skaðlegum efnum sem valda okkur heilsutjóni og ógna vistkerfinu. Og þeir sem tefla ferðamannaiðnaðinum fram sem einhvers konar mótvægi við stóriðjustefnu þurfa að hafa í huga að sá iðnaður er langt frá því að vera vistvænn og skaðlaus – að minnsta kosti eins og málum er háttað núna.
Gísli Gíslason, hafnarstjói Faxaflóahafna, bendir í fyrrgreindu minnisblaði á að Íslandi hafi með Parísarsáttmálanum skuldbundið sig til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum um 350 til 400 þúsund tonn á næstu fimmtán árum. Til þess að standa við það verði að fjárfesta í innviðum fyrir rafmagnsvæðingu. Við eigum líka að lögfesta sjötta viðauka Marpol-samningsins, gera umhverfislögsögu Íslands að svokölluðu ECA-svæði og banna þar með öllu bruna á svartolíu við Ísland.
Mig langar til að þakka Gísla frumkvæðið, taka undir sjónarmið hans, en benda jafnframt á að við vitum öll að skuldbindingar Parísarsáttmálans nægja því miður bara alls ekki ef við ætlum að reyna að afstýra hættulegum loftslagsbreytingum. Svo ég segi: Tökum skrefið til fulls og rafmagnsvæðum allt sem við getum rafmagnsvætt. Bíla, almenningssamgöngur, landbúnað, útgerðir, skip og bara allt heila klabbið. Svo ættum við að banna notkun á svartolíu. Allsstaðar.
Athugasemdir