Ég er jafnréttissinni. Ég segi það fullum hálsi og hugsa reglulega um það meðvitað til þess að gæta þess að misstíga mig ekki. Því það er auðvelt í okkar litaða samfélagi. Ég trúi á að allir eigi að eiga jafnan rétt til alls áður en á hólminn er komið. Algerlega skilyrðislaust.
En ...
Ég las skoðun um þetta alræmda „en“ fyrir ekki alls löngu. Að enginn gæti kallað sig fordómalausan sem léti frá sér setningu á borð við:
„Ég er ekki rasisti. En ... “
Að þessi viðbót sem hefst á orðinu „en“ myndi sjálfkrafa afturkalla upphaf fullyrðingarinnar. Það sem á eftir fer gæti allt eins átt við um kynþáttafordóma en ég ætla að skrifa þetta út frá kynjafordómum vegna þess að það stendur mér nær en hitt. Ég þekki hreinlega fleiri konur en útlendinga. Við skulum þó hafa það í huga að ég þekki afskaplega marga útlendinga frá öllum heimshornum, af fleiri en tveimur kynjum og með allar mögulegar skoðanir. Langflest af þessu fólki er gott, smáhluti er hlandfötur og svo er slæðingur þess á milli.
Ég vinn á besta vinnustað í heimi, auglýsingastofunni PIPAR\TBWA. Einn af stórkostlegum kostum stofunnar er hin skilyrðislausa krafa um jafnrétti kynjanna og sem allra best kynjajafnvægi. Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir kemur það til af tvennu. Númer 1: Það er einfaldlega réttlátt, konur og karlar eiga að sitja við sama borð. Númer 2: Það er betra fyrir alla þá vinnu sem fram fer því sjóndeildarhringurinn verður víðari.
Og nú er ísinn strax farinn að þynnast undir mér.
„Ég er það ekki vegna þess að ég get ekki fallist á skilyrðin sem sjálfskipaðir forsprakkar femínismans setja mér.“
Ég svara dags daglega til fleiri kvenkyns yfirmanna en karlkyns. Minn næsti yfirmaður er kona og í minni deild vinna fleiri konur en karlar. Það eitt og sér er ágætt, sér í lagi vegna þess að konur eiga á brattann að sækja og ég gleðst þegar ég sé kútinn réttari á þann veginn en hinn. Minn útópíski draumur er sá að við getum lagt þá hugsun alveg til hliðar í framtíðinni og hætt að hugsa um þetta sem keppni. Að fólk sé bara fólk og maður meti það eftir verðleikum. Og það er kosturinn við PIPAR. Tökum deildina mína sem dæmi. Sessunautur minn er rúmlega tvítug kona. Hún er snillingur. Hún er næstum því helmingi yngri en ég, hefur unnið fyrir fyrirtækið í örfáa mánuði. Ég tala við hana alla daga eins og jafningja, og hún við mig. Hún er svo ólík mér að það er frábært. Ég á við hana örfárra mínútna samtal um hvað sem er og ég sé vinkla sem mér voru áður ósýnilegir. Og vonandi er það eins á hinn veginn. Eðlilega, við erum gjörólík, aldursbilið þónokkuð, bakgrunnar okkar svartur gegn hvítum og við hvort af sínu kyninu. Ég veit fyrir víst að við eigum sömu möguleika er kemur að starfsframa og launum. Ég veit það vegna þess að PIPAR hefur gengið í gegnum strangt ferli sem vottar nákvæmlega það. Á móti mér situr karlmaður, eldri en ég, vel þekktur í samfélaginu og maður sem ég sé sjálfan mig speglast óþægilega vel í. Hann er líka snillingur og samstarf okkar hefur skilað ótrúlegum hlutum.
Þetta var aðeins slembiúrtak, fólkið sem situr mér næst. Ég virði þetta fólk vegna þess að þau eru þess verð, ekki vegna kyns, húðlitar, aldurs eða nokkurs annars. Þetta eru jafningjar mínir.
En ... þau eru ekki eins.
Annað slagið hitti ég fyrir karlrembur og dóna. Langoftast eru þetta karlmenn þótt það sé ekki algilt. Svona drulluskaufar sem halda að það sé töff að láta frá sér pillur um hversu mörgum kellingum þeir séu búnir að ríða eða hvað þessi sé nú svona eða hinsegin. Þessar lítilsvirðandi drullupumpur er enginn getur dulbúið að fullu sem grín þótt það sé oft reynt, og yfirleitt. Niðrandi og rætna hluti. Ég hef það sem aukavinnu að grínast, þá oftast með Ljótu hálfvitunum og þar læt ég allt flakka. Bókstaflega allt. Ég segi ósmekklega brandara um karla, konur, börn, lífið, dauðann, ofbeldi, ást, gleði, sorg, ofvita, þroskaskerta, feita, mjóa, venjulega, trú, kynþætti, sifjaspell og fósturlát. Svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir mér er það vanvirðing að forðast einn málaflokk því það sem þykir of heilagt til að grínast með er þar með upphafið og sett á sérstakan stall. Ég set ekkert á þann stall og þar með allt. Fólkið sem ég er að tala um talar bara illa um konur, og kannski útlendinga. Ógeð.
En ... dónarnir sem ég hitti eru ekki bara karlrembur. Sumir dónar eru femínistar.
Ég er ekki femínisti. Ég er það ekki vegna þess að ég get ekki fallist á skilyrðin sem sjálfskipaðir forsprakkar femínismans setja mér. Ég er maðurinn sem er alinn upp af báðum foreldrum, á eina systur og einn bróður, konu sem hefur alið mér dóttur og bráðum son og ég vil öllum sömu möguleika. En vegna þess að ég fellst ekki á að eðlilegt geti talist að reyna að fiska allt úr umræðunni sem gæti hallað á konur og blása það upp sem gróft ofbeldi gegn þeim neitar þessi elíta mér um að nota titilinn. Við erum ekki öll að veiða konur í gildrur. Við erum stundum bara að tala saman.
Við þurfum að halda jafnréttisbaráttunni áfram því við erum ekki komin í land. En femínistar sem halda því fram að ég sé ekki femínisti og að kalla mig ljótum nöfnum vegna þess að ég hugsa ekki nákvæmlega eins og þau eru að skemma fyrir.
Við erum í sama helvítis liðinu!
Athugasemdir