Staðan er þessi: Ég eignaðist barn í janúar 2015. Ég átti (naumlega!) rétt á lágmarksfæðingarorlofi, sem ég dreifði. Ég var því með heilar 67.004 kr. á mánuði, eftir skatt. Þegar ég var búin með mitt orlof tók maðurinn minn við. Hann átti rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Hann er tæpar 140.000 kr. fyrir skatt. Nema það klúðraðist eitthvað í umsóknarferlinu hans, þannig að hann fékk borgað fyrir alla mánuðina í eingreiðslu. Áður en hann var búinn að skila skattkortinu sínu.
En nema hvað, þrátt fyrir að hafa teygt fæðingarorlofið eins og við gátum þá var dóttir okkar samt ekki búin að fá pláss hjá dagmömmu þegar því lauk. Það eru nefnilega ekki margar dagmömmur í okkar hverfi. Við eigum heldur ekki bíl þannig að það er ekki í boði að vera með barnið í dagvistun langt í burtu. Og svo þorðum við ekki að sækja um hjá neinum nema við hefðum fengið meðmæli frá einhverjum sem þekkir til. Því maður hefur heyrt sögur, þið vitið. Þið hafið ábyggilega heyrt þær líka.
„Barnið fékk loksins langþráð dagmömmupláss og verður vonandi byrjað þegar pistillinn birtist. Plássið kostar næstum því 70.000 kr. á mánuði.“
Þannig að við urðum einhvern veginn að redda okkur eftir orlofið. Við vorum bæði byrjuð að vinna og sem betur fer stóð þannig á að fjölskyldumeðlimur gat bjargað okkur tímabundið. Það búa ekki allir svo vel. Og ég veit satt að segja ekki hvað fólk í þannig stöðu gerir.
Svo gerðist kraftaverkið! Barnið fékk loksins langþráð dagmömmupláss og verður vonandi byrjað þegar pistillinn birtist. Plássið kostar næstum því 70.000 kr. á mánuði. Það er næstum því þrisvar sinnum meira en leikskólaplássið sem hún fær (vonandi í haust, ef við erum heppin, ef við erum óheppin þurfum við að bíða ennþá lengur) kostar.
En við foreldrarnir sitjum enn og klórum okkur í hausnum yfir því af hverju í helvítinu það er ekki til eitthvað kerfi sem tekur við börnunum þegar fæðingarlofið er búið. Og við veltum líka fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum dagvistun er aldrei dýrari en einmitt rétt eftir fæðingarorlof.
Athugasemdir