Mótmælin á Austurvelli þann 4. apríl snerust um miklu meira en Wintris-mál Sigmundar Davíðs, þó að það hafi vafalaust verið kornið sem fyllti mælinn hjá mörgum. Mér segir svo hugur að flestir hafi einfaldlega verið búnir að fá nóg af óheiðarlegri pólitík.
Daginn áður var forsætisráðherra Íslands staðinn að ósannindum í sjónvarpsviðtali eins og frægt er orðið. Hér verður hins vegar vikið að öðru myndbandi sem birtist sama dag á vefsíðu Nútímans. Það virðist vera nokkurra ára gamalt og sýnir Björn Inga Hrafnsson kenna ungum framsóknarmönnum að snúa á aðgangsharða blaðamenn.
Gefum honum orðið: „Einstöku sinnum gerist það að fréttamenn segi: Bíddu hvað ertu að segja, þetta var ekki það sem ég spurði um... En þá á stjórnmálamaðurinn ekki að láta það slá sig út af laginu og segir: Aðalatriðið er auðvitað... Og endurtaka það sem hann sagði. Og mín reynsla af fréttamönnum er sú að þeir þora ekki í þriðja sinn að spyrja.“
Góður stjórnmálaflokkur kennir liðsmönnum sínum að svara því sem spurt er um. Þannig efnir hann skyldur sínar við þjóðina um að veita skýr og afdráttarlaus svör um stöðu mála. Til eru framsóknarmenn sem predika hins vegar hið gagnstæða og eru vafalaust ekki einir um það.
Hér eru tekin saman nokkur dæmi um brellur og klækjabrögð sem hafa verið áberandi í íslenskum stjórnmálum undanfarin ár. Þetta háttalag er að hluta til ástæðan fyrir óánægjunni; enginn hefur gaman að því að vera hafður að fífli.
1. Útúrsnúningar
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, endurtók sömu línuna tíu sinnum í útvarpsviðtali á Rúv. Þar sagði hann að Sigmundur Davíð hefði alltaf greitt skatta af Wintris-félaginu og að það væri „stóra málið“. – Hér notar þingmaðurinn trikkið hans Björns Inga.
2. Loðin tilsvör
Samskipti Sigmundar Davíðs við fjölmiðla hafa aldrei verið til fyrirmyndar. Hann svarar spurningum á óljósan og misvísandi hátt. Helst þannig að hægt sé að túlka svarið í báðar áttir. Þannig skilur hann eftir opinn glugga sem hægt er að skríða út um ef allt fer á versta veg.
Brussel-bréfið er þó skýrasta dæmið um yfirlýsingu sem vísvitandi var höfð óljós. Gunnar Bragi sagði að með bréfinu hefði ekkert verið dregið til baka. Þó væri Ísland ekki lengur á meðal umsækjenda að ESB.
3. Misskilningur
Auðvelt er að misskilja þann sem býður upp á stöðuga orðaleiki. Hann getur síðan alltaf borið við að um misskilning hafi verið að ræða ef málin þróast ekki í rétta átt. Sigmundur Davíð var með mann í fullu starfi við að útskýra hvað hann átti við.
4. Bull
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að ekki væri hægt að halda þjóðaratkvæðgreiðslu um áframhald ESB-viðræðna vegna „pólitísks ómöguleika“. Stjórnarflokkarnir gætu því ekki efnt loforðið sem þeir höfðu báðir lofað fyrir kosningar.
5. Grín
Tyrkneskir tölvuþrjótar brutust inn í kerfi Vodafone árið 2013 og birtu skrár með 80 þúsund SMS-skeytum Íslendinga. Þar kom fram SMS-skeyti frá Gunnari Braga um að forysta Framsóknarflokksins væri að fara á „leyndófund“ í LÍÚ. Hann sagði fréttamanni Rúv að um grín hefði verið að ræða.
6. Vafasöm skýrslugerð
Erfitt er að taka mark á niðurstöðu úttektar ef áhöld eru um hlutleysi höfundar. Eins er það ekki til vitnis um fagleg vinnubrögð ef skýrsluhöfundum eru settar skorður sem útiloka augljósa kosti.
Dæmi um þetta eru Rúv-skýrslan og fyrirhuguð skýrsla um erlenda áhrifaþætti íslenska bankahrunsins. Einnig má setja spurningamerki við það að Keflavíkurflugvelli hafi verið haldið utan við skýrslu Rögnu-nefndarinnar. Það er kostur sem rétt hefði verið að skoða.
7. Eignarhaldi fjölmiðla haldið leyndu
Árið 2014 eignuðust áhrifamenn úr Framsóknarflokknum fjölmiðilinn DV. Eggert Skúlason, sem eitt sinn lýsti sjálfum sér sem spunameistara framsóknarmanna, gerði úttekt á rekstrinum og komst að þeirri óvæntu niðurstöðu að ýmislegt mætti betur fara. Hann tók síðan sjálfur við ritstjórn blaðsins og í kjölfarið hurfu gagnrýnar raddir úr hópi blaðamanna. Ekki hefur komið fram hver fjármagnaði þessi kaup.
8. Smjörklípa
Davíð Oddsson sagði eitt sinn frá óværum ketti ömmu sinnar. Gamla konan klíndi smjöri í feldinn á honum (kettinum) þegar hún vildi hafa hann til friðs. Þannig varð hann upptekinn af öðru og ónáðaði engan á meðan.
Tveimur smjörklípum var kastað fram í aðdraganda Wintris-viðtalsins. Annars vegar átti að færa Landspítalann til Vífilsstaða og hins vegar aflétta 110 ára leynd yfir leynigögnum í leyniherbergi!
9. Erfið mál svæfð í nefnd
Umdeild mál eru stundum sett í nefnd einungis til þess að þau gleymist. Þar fennir yfir þau og þingmenn þurfa ekki að taka endanlega afstöðu til þeirra.
10. Icesave! Icesave!!
Það jafngildir pólitísku rothöggi ef hægt er að tengja andstæðinginn við Icesave. Nýlegasta dæmið um þetta er viðtal Eyjunnar við Davíð Oddsson. Þar kom fram að sagnfræðingurinn Guðni Th. hafi verið röngum megin Icesave-línunnar. Og hvað segir það okkur um hann?!
Nokkur orð um Icesave-málið: Svavars-samningurinn var afleikur. Hann hefði kostað þjóðina 209 milljarða. Buchet-samningurinn hefði kostað 67 milljarða og hin áhættusama dómstólaleið kostaði 53,5 milljarða. Hér munar einungis 13,5 milljörðum á illskástu kostunum – en til samanburðar má nefna að það er um 6% af upphæðinni sem um er að tefla í nýja búvörusamningnum.
Ég sting upp á nýju lögmáli í anda þess sem kennt er við Godwin: Umræðunni lýkur um leið og einhver grípur til samanburðarins við Icesave. Sá telst hafa tapað rökræðunni enda augljóslega kominn í þrot.
Hér skal staðar numið þó að listinn sé töluvert lengri. Alvarleg svik kosningarloforða, brellupólitík og spillingarmál eru ástæður þess að þúsundir mættu á Austurvöll til að mótmæla. Fólk er einfaldlega komið með nóg af óheiðarlegri pólitík.
Athugasemdir