Fyrir nokkrum dögum rann fresturinn til að sækja um listamannalaun árið 2017 út. Þetta er alltaf svolítið erfiður tími fyrir listamenn. Það er nefnilega ekkert djók að útskýra öll frábæru verkin sem þú ætlar að skapa næstu árin í 3.300 slögum. Svo eru umsækjendur einnig beðnir að gera grein fyrir „listrænu gildi“ verka sem eru mislangt komin, sem hefur eðlilega vafist fyrir mörgum. Samkeppnin er líka mikil. Allir umsækjendur vita að það er ekki á vísan að róa fyrir neinn, það er enginn áskrifandi að listamannalaunum og flestir fá miklu færri mánuði en þeir sóttu um, ef þeir fá á annað borð úthlutun. Og þá er auðvitað ónefnt að fjárhagslegt öryggi næsta árið er undir.
Gusan
Sumir eru líka strax byrjaðir að kvíða gusunni sem kemur óhjákvæmilega þegar það verður úthlutað úr sjóðunum eftir áramót. Þá fer nefnilega alltaf sama þreytta gamla umræðan í gang. Þið vitið öll hvernig hún er. Tveimur láglaunahópum er att saman. Það er látið sem þeir peningar sem fara til listsköpunar fari þangað á kostnað heilbrigðiskerfisins, öryrkja eða aldraðra. Og enginn talar um peningana sem fara í að friða hafnargarða, bónusa í fyrirtækjum í eigu ríkisins eða milljarðana sem nokkrir einstaklingar fá fyrir að selja auðlindir sem þjóðin á saman.
„Tveimur láglaunahópum er att saman. Það er látið sem þeir peningar sem fara til listsköpunar fari þangað á kostnað heilbrigðiskerfisins, öryrkja eða aldraðra.“
Svo segir alltaf einhver að ef þetta séu alvöru listamenn þá ættu þeir auðvitað að geta lifað á verkum sínum. Og einhver annar segir að listamenn sem fái listamannalaun lifi í vellystingum og geri helst ekki neitt, allt á kostnað skattgreiðenda. Stundum er einn listamaður tekinn fyrir persónulega í stórum fjölmiðlum. Hið sanna er auðvitað að í örsamfélagi eins og okkar þá eru það einungis nokkrir listamenn sem geta séð fyrir sér með listsköpun sinni. Listamannalaunin duga ekki fyrir miklum vellystingum og við sem skrifum til dæmis bækur fyrir börn, sem er örmarkaður innan örmarkaðar, ættum hreinlega ekki breik.
Nokkrar tölur
Ég skal taka dæmi. Í fyrra gaf ég út bók fyrir unglinga. Henni var mjög vel tekið, hún var tilnefnd til nokkurra verðlauna og fékk meira að segja ein. Bókin var á metsölulistum og forlagið mitt sagði mér að þau væru mjög ánægð með söluna miðað við markhópinn. Hún seldist í tæplega 1.200 eintökum fyrir jólin. Fyrir þessi eintök fékk ég um 670.000 krónur í höfundalaun. Og ég var svona sirka þrjú ár að skrifa bókina. Reyndar meðfram öðrum verkum, því höfundalaunin greiðast ekki fyrr en sumarið árið eftir að bókin kemur út og á einhverju verður maður víst að lifa. Þið skiljið kannski að ég sé treg til að reikna út tímakaupið.
Og varðandi listamannalaunin og meintar vellystingar. Í ár var upphæðin 351.400 krónur á mánuði – í verktakagreiðslu. Sem þýðir að maður þarf sjálfur að standa skil á alls konar gjöldum, greiða fyrir vinnuaðstöðu, kaupa tryggingar ef við á og leggja hluta af laununum fyrir til að eiga fyrir sumarleyfi. Ég var svo heppin að fá listamannalaun í sex mánuði í ár. Og af þessum 351.400 krónum greiddi ég mánaðarlega um 43.000 kr. í lífeyrissjóð og rúmlega 130.000 kr. í tryggingagjald og skatt. Eftir voru um það bil 177.000 kr. Eru það nú allar vellystingarnar. (Þess ber að geta að ég greiddi fullan skatt af listamannalaununum, því ef ég á að ná endum saman verð ég að vinna hlutastarf með og þar nýtti ég persónuafsláttinn.)
Bottomlænið
Bottomlænið er auðvitað það að hjá þjóð sem telur bara 330.000 manns er eiginlega ekki hægt að lifa á því að selja listaverk. Það má finna örfáar ofurhetjur sem tekst það, en þær kæmust ábyggilega allar saman í minnsta heitapottinn í Vesturbæjarlauginni án þess að olnbogarnir á þeim snertust. Markaðurinn er einfaldlega svo smár að menningarlífið hér væri ansi snautlegt ef listir væri ekki styrktar eins og aðrar atvinnugreinar sem við höfum ákveðið að sé mikilvægt að þrífist hér.
Athugasemdir