Í maí 2016, nokkrum mánuðum áður en lögreglumenn umkringdu konu í burkini á ströndum Nice í Frakklandi og neyddu hana til afklæðast, birti Nicola nokkur Gavins hrollvekjandi ljósmynd af blæðandi fótum vinkonu sinnar á samfélagsmiðlum. Sokkar hennar voru gegndrepa af blóði og við hliðina stóðu sökudólgarnir, svartir, támjóir hælaskór. Þrátt fyrir augljós meiðsl af völdum skónna var vinkonunni, sem var gengilbeina á veitingastaðakeðjunni Joey Restaurants í Kanada, óheimilt að klæðast öðru en hælaskóm á löngum vöktum í vinnunni. Sem kunnugt er valda hælaskór óeðlilegri þyngdardreifingu líkamans og setur allt að 76% meiri þyngd á tábergið en flatbotna skór gera. Í tilviki gengilbeinunnar olli þetta sársaukafullum núningi sem lauk með því að ein af tánöglum hennar datt af. Að hennar sögn lét yfirmaðurinn heilsu hennar sig engu varða og skipaði henni að mæta áfram til vinnu í hælaskóm.
Nokkrum dögum síðar, nú í upplegu viðskiptahverfi í London, var ritarinn Nicola Thorp send launalaust heim úr vinnunni í PricewaterhouseCoopers fyrir að voga sér að mæta á 9 tíma vakt í flatbotna skóm.
Vestrænt „frelsi“
Ef við lítum aftur til franska burkini bannsins var ætlunin að „frelsa“ konurnar undan oki burkinisins í samræmi við vestræn gildi, samkvæmt sumum stuðningsmönnum bannsins. Auk þess væri það liður í því að berjast gegn hryðjuverkum. (Skítt með að lagasetning sem bannar konum að klæðast eftir eigin höfði er andstæðan við frelsi – og ekkert hryðjuverk í veraldarsögunni hefur verið framið af manneskju í burkini – en hvað um það.)
Hælaskór virðast aftur á móti samræmast vestrænum gildum fyllilega, þótt enginn vafi leiki á um hversu heilsuspillandi langvarandi notkun þeirra er. Í rannsókn sem birt var í tímaritinu The Journal of Foot and Ankle Surgery tvöfaldaðist fjöldi kvenna sem leitaði á bráðadeildir í Bandaríkjunum vegna meiðsla af völdum hárra hæla á árunum 2002–2012. Samhliða þessu fjölgar konum sem fara í skurðaðgerð og láta brjóta bein, sem hafa afmyndast eftir áralanga notkun á hælaskóm, og rétta úr þeim með stálpinnum, eða skafa burt beinmyndun sem þar sem skórinn kreppir, í orðsins fyllstu merkingu. Hugsanlega verður litið sömu augum á hælaskó eftir hundrað ár eins og við lítum á lífstykki í dag; sem tískufyrirbæri sem ógnaði heilsu kvenna og dró úr þrótti þeirra við daglegar athafnir.
„Henni var vísað frá rauða dreglinum vegna þess að hún var ekki í háum hælum, þrátt fyrir að hún hefði verið aflimuð á vinstri fæti.“
Þrátt fyrir þetta eru hælaskór svo hylltir í vestrænni menningu nútímans að konum á flatbotna skóm er meinaður aðgangur að hátíðlegum viðburðum, líkt og kvikmyndaframleiðandinn Valeria Richter komst að raun um á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra. Henni var vísað frá rauða dreglinum vegna þess að hún var ekki í háum hælum, þrátt fyrir að hún hefði verið aflimuð á vinstri fæti og væri ófær um að ganga í öðru en flatbotna skóm.
Kynbundin mismunun
Óþarfi er að taka fram að burkini, rétt eins og hælaskór, er fyrst og fremst ætlað konum. Karlar á ströndum Nice voru óáreittir af laganna vörðum. Engum karli í Cannes var vísað frá sökum skóhæls. Karlkyns starfsmenn Joeys Restaurants og PricewaterhouseCoopers hafa aldrei verið skyldaðir til að ganga í skóbúnaði sem sverfir af þeim táneglurnar. Óþarfi er að líta út fyrir landsteinana, því flugfélögin WOW og Icelandair gera kröfu til kvenkyns starfsmanna um að vera í hælaskóm við ákveðin störf og rökstyðja það sem hluta af einkenningsbúningi fyrirtækisins – sem karlkyns starfsmönnum er þó ekki skylt að klæðast.
Ólíkar aðferðir, sama kúgunin
Kúgun kvenna á sér margar birtingarmyndir. Yfirvöld sem skipa konu að afklæðast í krafti laganna eru engu minna sek um kúgun og trúarleiðtogar sem skipa konum að hylja sig í nafni trúarinnar, eða atvinnuveitandi sem neyðir kvenkyns starfsmenn til að klæðast heilsuspillandi fatnaði sem á sér enga hliðstæðu hjá karlkyns starfsmönnum. Klæðaval fólks á að vera undir þeim sjálfum komið, líkt og hæstiréttur Frakklands komst að raun um þegar hann úrskurðaði að burkini-bannið væri brot á mannréttindum. Vissulega mega atvinnuveitendur gera kröfur um að starfsfólk sé snyrtilegt eða klæðist einkennisfatnaði, en slíkar kröfur réttlæta ekki kynjamismunun sem er konum fjötur um fót í daglegu starfi, bókstaflega. Framleiðendur hárra hæla þurfa ekki að örvænta þótt atvinnuveitendur hætti að níðast á konum. Ég þykist viss um að margar konur muni halda áfram að klæðast hælaskóm við ýmis tækifæri án þess að vera tilneyddar til þess, einfaldlega því þeim finnst það flott, rétt eins og öðrum konum finnst burkini töff. Svo má heimurinn almennt hætta að vaða í þeirri villu að einhver annar en konur sjálfar megi taka ákvarðanir sem varða þeirra eigin líkama, hvort sem við erum á ströndinni, á rauða dreglinum eða í vinnunni. Staðreyndin er nefnilega sú að við eigum þetta – og við megum þetta.
Athugasemdir