Ég er ekki frá því að Kastljósið hafi hlaupið á sig um daginn þegar Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari var tekinn fyrir vegna meintrar spillingar. Hann átti fyrst hlutabréf og svo peninga í sjóði hjá Glitni sem hann, eins og aðrir sem áttu peninga í þessum sjóði, tapaði að hluta í hruninu. Þess vegna, var gefið í skyn, hefði hann líklega verið vanhæfur til að dæma í málum stjórnenda Glitnis. En það var hann þó sennilega ekki. Það sem komið hefur fram síðan Kastljós sýndi umfjöllun sína er Markúsi frekar í hag. Hann hafði ekki haldið þessari fjáreign sinni leyndri, eins og fyrst var haldið fram, heldur gefið þær tilkynningar sem ætlast var til. Á endanum er aðalröksemdin fyrir vanhæfinu (að minnsta kosti eftir hrun) sú að hann hljóti að hafa verið ævareiður stjórnendum Glitnis vegna taps sem hann varð fyrir. Og sú röksemd er ekkert voðalega sannfærandi.
En þótt Kastljósið hafi kannski hlaupið á sig sé ég ekki mikla ástæðu til að hlaupa upp til handa og fóta eins og hér sé um svívirðilega valdníðslu „fjórða valdsins“ að ræða, eða vera með mikið svartagallsraus um ömurleg vinnubrögð íslenskra fjölmiðla. Mistökin sem Kastljósið hugsanlega gerði eru nefnilega einmitt þau mistök sem góðir fjölmiðlar gera annað slagið. Allir fjölmiðlar gera mistök og það er ekki að öllu leyti slæmt að sjá mistök sem stafa af viðleitni fréttamannanna sem stjórna Kastljósinu til að halda uppi harðri pólitískri samfélagsumfjöllun. Það væri miklu verra ef hugleysi, sofandaháttur eða ritstjórnarákvarðanir um að þegja yfir málum einkenndu vinnubrögðin og stefnuna.
„Mistökin sem Kastljósið hugsanlega gerði eru nefnilega einmitt þau mistök sem góðir fjölmiðlar gera annað slagið.“
Því umræðan um mál Markúsar og fleiri dómara er mikilvæg. Hún er ekki þægileg fyrir fólk sem finnst það ekkert hafa til saka unnið, en ef hún verður til þess að fá skýrari línur um stöðu og störf dómara, leiðir til þess að fólk skilur betur hvað gerir embættismenn vanhæfa og hvað ekki – sýnir hugsanlega að það sem við fyrstu sýn virtist vera afhjúpun er það ekki – þá er hún á endanum gagnleg því hún þjónar sannleikanum.
Ef allir trúa því, hlýtur þá ekki eitthvað að vera til í því?
En til þess að svona umræðugusu, stórskandal sem var svo enginn stórskandall og alls konar æsingar í kjölfarið megi setja í samhengi við góða fréttamennsku frekar en slæma, þarf að vera hægt að bera traust til fjölmiðla almennt – það er að segja fólk verður að trúa því í það heila tekið að fjölmiðlar séu sjálfstæðir og að markmið þeirra sé að leita sannleikans. Þetta hljómar vissulega dálítið hátíðlega: Leita sannleikans. En þetta og ekkert annað er kjarninn í sjálfstæði faglegra fréttamiðla og maður gæti jafnvel gengið lengra og sagt að til þeirra megi gera þá kröfu að þeir leiti sannleikans og hætti ekki fyrr en hann hefur verið fundinn.
„Það er tiltölulega einfalt mál að spinna flesta hluti og það getur verið erfitt að vinda ofan af spuna.“
Samræðuumhverfi okkar er oft frekar hráslagalegt. Það er tiltölulega einfalt mál að spinna flesta hluti og það getur verið erfitt að vinda ofan af spuna. Það getur verið ennþá erfiðara að losna við haugalygi sem búið er að dreifa með skilvirkum hætti um allt samfélagið þannig að gleggsta fólk er farið að halda að „það hljóti nú að vera eitthvað til í þessu“. Tilfellið er að haugalygin er erfiðust af öllu. Fólki finnst eiginlega ómögulegt að kyngja því að eitthvað sem hefur gengið fjöllunum hærra sé ekki bara orðum aukið heldur uppspuni frá rótum. Slíkar sögur skilja því alltaf eitthvað eftir sig, jafnvel eftir að búið er að taka þær úr umferð og sýna fram á að þær eru rangar. Falsfréttin um barnaníðshringinn í kringum pizzustaðinn í Washington hefur til dæmis búið til afar ógeðfelld hugrenningatengsl um aðalfórnarlambið, John Podesta, sem erfitt verður fyrir þann mann að losna við. Sama hve rækilega verður hamrað á því að sagan sé ósönn: Sagan er saga og verður alltaf tengd við þennan mann.
Í dönsku kvikmyndinni Jagten er sýnt á áhrifamikinn hátt hvernig orðrómur og grunsemdir um kynferðislega misnotkun eyðileggja líf manns sem fyrir þeim verður. Söguhetjan er ekki barnaníðingur, og það veit áhorfandinn, en á sama tíma er næstum sársaukafullt að viðurkenna að það er líka vel hægt að skilja grunsemdirnar og óhugnaðinn sem hverfur aldrei alveg úr hugum hinna persónanna – foreldranna sem er efst í huga að vernda börnin sín. Ef allir eru farnir að trúa því – hlýtur þá ekki eitthvað að vera til í því?
En þessu eðli lygasögunnar má ekki rugla saman við harkalega og jafnvel ósanngjarna fjölmiðlaumræðu. Það er ekkert óeðlilegt við það, svo dæmi sé tekið, að Kastljósið fái lögmann nokkurn og fyrrverandi hæstaréttardómara til að koma og úttala sig um mál kollega síns fyrrverandi jafnvel þótt flesta sem til þekkja gruni að viðhorf hans ráðist af óvild í garð þessa fyrrverandi samstarfsmanns. Það sem skiptir máli er mótvægið í umræðunni. Að hún sé ekki látin taka enda áður en sjónarmið sem máli skipta hafa fengið að koma fram og að ekki sé viljandi reynt að þegja yfir upplýsingum eða koma í veg fyrir að mikilvægar raddir heyrist.
Það er heldur ekkert óeðlilegt að fyrrverandi bankamenn reyni með þjónustu lögmanna sinna um að halda því fram að þeir hafi verið hafðir fyrir rangri sök, skrifi greinar um það í blöð, láti taka við sig viðtöl og kvarti hástöfum yfir spillingu embættismanna. Jafn grátbroslegt og það er að einstaklingar sem svo sannarlega misnotuðu traust almennings fyrir hrun og ollu ómældu tjóni hér á landi og víða annars staðar telji sig nú vera fórnarlömb spilltra stjórnvalda, þá er réttur þeirra til að halda sjónarmiðum sínum fram, og nýta til þess sína umtalsverðu fjármuni, ótvíræður.
Vantraust og vel heppnaður spuni
Það er hægt að hafa áhrif á umræðu, en ekki þagga hana niður, nema fólk sé þá tilbúið til að fórna ýmsu öðru líka. Samfélagið þarf fyrst og fremst að búa yfir nægilega öflugum verkfærum og hefðum til að tryggt sé að annarleg sjónarmið og hagsmunir skekki samfélagsumræðuna sem minnst og verði ekki til þess að koma í veg fyrir að mál fái sína eðlilegu umfjöllun þangað til þau eru útrædd. Þess vegna hefur aldrei verið mikilvægara en nú að standa vörð um hefðbundna fréttamiðla sem reyna að byggja fréttaflutning sinn á staðreyndum og viðleitni til að miða að sannleikanum.
„Samfélagið þarf fyrst og fremst að búa yfir nægilega öflugum verkfærum og hefðum til að tryggt sé að annarleg sjónarmið og hagsmunir skekki samfélagsumræðuna sem minnst“
Vantraustið í garð stjórnvalda sem víða má finna fyrir beinist líka að hinum hefðbundnu fréttamiðlum og það gefur óhefðbundnum miðlum og raunar öllum sem vilja á einhvern hátt reyna að stýra samfélagsumræðu tækifæri sem jafn auðvelt er að nota og misnota. Þetta vantraust virðist fara vaxandi frekar en hitt og þó að vel megi skilja af hverju það stafar er það ógnvænleg þróun, því í umhverfi vantraustsins getur allt orðið trúanlegt.
Þó að hér á Íslandi megi tína til einhver dæmi um lygasögur sem setja allt á annan endann, þá höfum við sem betur fer litla reynslu af falsfréttum. Hér sjáum við í mesta lagi tilraunir til að spinna atburði í einhverja ákveðna átt, stundum vel heppnaðar, stundum síður og svo sjáum við líka ásakanir um spuna eða ófaglegan fréttaflutning. En slíkt er ekki falsfréttir. Ekki enn.
Áróður á tuttugustu öld
Hugtakið eftirsannleikur vísar til ástands þar sem sannleikshugtakið hefur misst merkingu sína í samhengi þjóðfélagsumræðunnar. Þótt þetta nýja og ferska hugtak hljómi eins og við séum að sigla inn í nýtt tímabil þá er miklu nærtækara að hugsa sig nokkra áratugi aftur í tímann. Frjálslynd stjórnvöld falla fyrst í einu landi og svo í öðru. Hver veit nema innan nokkurra ára muni félagslegt afturhald og pólitísk harðstjórn ná yfirhöndinni í því sem á kaldastríðsárunum var kallað „hinn frjálsi heimur“. Þá er ástandið orðið svipað og það var í Evrópu á fjórða áratugnum.
Vandamálið við slíkt ástand er ekki áróðurinn sem frá slíkum stjórnvöldum kemur heldur miklu fremur það sem mætti kalla „normaliseringu“ ástandsins – þegar yfirlýsingar yfirvalda mæta ekki eðlilegri mótspyrnu í samfélaginu. Ástand eftirsannleikans verður nefnilega ekki til með því einu að stjórnvöld og fjölmiðlar byrji að ljúga. Það verður til smátt og smátt þegar meirihluti samfélagsins byrjar að laga sig að óeðlilegu ástandi og hefur sífellt meiri tilhneigingu til að réttlæta það. Umræðan í kringum meint vanhæfi og mögulega spillingu hæstaréttardómara getur vel verið ósanngjörn, en hún sýnir þrátt fyrir allt að íslenskt samfélag hefur ekki enn orðið ástandi eftirsannleikans að bráð.
„Ástand eftirsannleikans verður nefnilega ekki til með því einu að stjórnvöld og fjölmiðlar byrji að ljúga.“
Halldór Laxness heillaðist af stalínisma á fjórða áratugnum. Hann vildi miðla löndum sínum reynslu sinni og því sem hann taldi vera þekkingu sína á Sovétríkjunum. En í þessu hlutverki sá Halldór sig ekki sem hlutlausan upplýsingagjafa heldur sem áróðursmann. Og þá var aðalmálið ekki að segja satt, aðalatriðið var að vera sannfærandi. Honum fannst það ekki sannfærandi þegar hann heyrði fólk lofa Sovétríkin í hástert. Að hans mati var aðalatriðið að skilja hvers konar veruleika leiðtogar Sovétríkjanna stæðu frammi fyrir. „Það er vandi“ sagði hann í minningabók sinni, Skáldatíma, „að setja saman áróður svo að hann vinni ekki gegn sjálfum sér á þeim sviðum þar sem þekking áróðursmannsins er ónóg; það er líklega af þessum vanda sem áróður hefur orðið samheiti við lygi á 20. öld.“
Á meðan áróðurinn og spuninn vinna gegn sjálfum sér er ekkert að óttast – það er heldur ekkert að óttast ef fólk getur viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér og það er ekkert ógnvænlegt við heim þar sem fólki getur tekist og mistekist það sem það ætlar sér. Ástand eftirsannleikans er hins vegar eins og bóla þar sem allt sem sagt er tútnar út og öðlast eigið líf, þar sem allar ákvarðanir eru réttar og allar fjárfestingar skila hagnaði. Þess vegna, öfugsnúið sem það er, geta fjölmiðlar stundum verið mest sannfærandi þegar þeir gera mistök.
Athugasemdir