Þann 23.janúar 1973 barst hjálparbeiðni frá Vestmannaeyjum. Hörmungar dundu yfir og heimili fólks voru orðin að dauðagildrum. Út í myrkrið og óvissuna flúðu ríflega fimm þúsund umkomulausar sálir. Enginn veit hve mörgum bænum Guð svaraði þessa nótt. Kraftaverk þótti að flotinn var í höfn. Það var þétt setið í bátunum þessa nótt.
Upp á landi hófst hinsvegar umræðan um þá hættu sem steðjaði að íslensku samfélagi og þeim gildum sem við aðhyllumst. Íslendingar byggja jú á kristnum gildum mannkærleika, jafnréttis og friðar. Hér býr jú friðsöm þjóð í farsælu landi og því væri synd að fara menga þann góða jarðveg af einhverjum utanaðkomandi Eyjamönnum.
„Fyrir það fyrsta þá höfum við hvorki efni á því eða aðstöðu að taka á móti 5000 flóttamönnum. Okkur væri nær að hugsa fyrst um gamla fólkið okkar áður en við förum að brauðfæða einhverja utanbæjarmenn. Svo eigum við ekki einu sinni nógu marga geðlækna til að sinna þessu liði. Ímyndaðu þér bara álagið á félagslega kerfið, heilbrigðiskerfið og skólana. Ætlar þú að borga bæturnar fyrir þetta lið sem nennir ekki að vinna eða læra íslenzku?
Sko, sannleikurinn er bara sá að þeir koma aldrei til með að aðlagast Íslenzku samfélagi. Menningarmunurinn er bara alltof mikill. Sjáðu bara hvernig þeir fara með konur á þjóðhátíð. Sko, ég þekkti eyjamann og hann svoleiðis lúbarði kellinguna sína sundur og saman og þetta viltu vera að flytja inn?? Það eru ekkert nema vandamál sem fylgja þessu fólki, sjáðu bara hvað er að gerast í Þorlákshöfn! Ef við leyfum þessum glæpamönnum og nauðgurum að komast óhindrað inn í landið þá stefnir í kaf upplausnar og mikil ógæfa mun leggjast yfir Ísland og þá kristnu menningu og gildi sem við viljum hafa. Ísland fyrir Íslendinga!“
Súrrealískt?
Já, enda er þetta sem betur fer bara skáldskapur. Ef þér þykir þessi orðræða kunnugleg þá er það með vilja gert. Fyrirmyndina sótti ég í orðræðu sem var algeng um miðja síðustu öld. Ég hugsaði með mér hvernig umræðan í samfélaginu hefði mögulega verið ef nasistar hefðu ráðið ríkjum á Íslandi og Vestmanneyingar væru af öðrum kynþætti og töluðu skringilegt tungumál. En auðvitað gerðist þessi hryllingssaga aldrei eins og allir vita. Sem betur fer töluðu Eyjamenn íslensku.
Þegar flóttamannaskipin streymdu fá Heimaey datt engum sannkristnum Íslendingi annað í hug en að opna dyr sínar fyrir fólki í neyð. Við vorum rík þá og sköffuðum það sem til þurfti; mat og drykk, föt, sængur og leikföng. Við byggðum heilu hverfin. En ekkert góðæri varir að eilífu og 1973 kemur líklega aldrei aftur. Árið sem þúsundir Eyjamanna flúðu út í óvissuna og ákölluðu Guð sinn, hver með sínum hætti og voru bænheyrðir að mestu leyti.
Hugsið ykkur samt hve óhugnarlegt það hefði verið ef einhver hefði raunverulega haft þá afstöðu sem ég skáldaði hér fyrir ofan. Hugsið ykkur nú ef þessi einstaklingur segðist koma í Jesú nafni. Mundum við trúa honum? Er sú orðræða sem ég skáldaði hér að ofan í samræmi við þann boðskap sem Jesús Kristur kenndi? Væri það sæmandi fyrir kristna þjóð og gildi að tileinka sér þetta hugarfar gagnvart útlendingum í neyð?
Svarið er NEI.
Ekki eingöngu á þetta hugarfar sér hvergi stoð í kristnum gildum heldur er það beinlínis í andstöðu við þann boðskap sem Kristur kenndi. Kristur boðaði kærleik til allra manna. Hann kenndi okkur að elska náungann eins og sjálf okkur og deila auði okkar með þeim sem engan eiga. Hann kenndi okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. Hann kenndi okkur umgangast útlendinga og bersynduga af kærleik og án þess að dæma þá því í grunninn erum við öll syndarar. Jesú kenndi okkur að allt sem við gerum öðrum það höfum við gert honum og það sem meira er að allt sem við gerum EKKI fyrir aðra það höfum við ekki gert fyrir hann.
Sem betur fer bjó kristin þjóð á Íslandi þegar Vestmanneyingar lögðu á flótta eina örlaganótt í janúar 1973. Kristin þjóð sem svarar kalli hjálparvana fólks í nauðum. Enginn er meiri en sá sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir náungann.
En nú er öldin önnur og líkt og það búi tvær þjóðir í landinu sem fylgja tveim andstæðum gildum. Annarsvegar eru það þeir sem aðhyllast kristin gildi friðar, kærleiks og manngæsku. Og við erum MÖRG! Við erum svo mörg og hugmyndafræðin er það útbreidd að hún eru í daglegu tali kölluð ALMENNT SIÐFERÐI. Við erum stór hópur fólks af öllum mögulegum uppruna og trúarbrögðum. Við erum í senn heiðin og kristin, guðleysingjar og gyðingar, múslimar og mormónar. Við komum í öllum litum frá öllum löndum og tölum öll tungumál og elskum allskonar. Við erum meirihluti mannkyns. Við erum „góða fólkið“.
Hin þjóðin sem býr í þessu landi eru svo þeir sem vilja gera „góða fólkið“ tortryggilegt með því að setja það í gæsalappir. Þeir eru úlfar í sauðagæru og hata fátt meira en pólitíska rétthugsun. Rétthugsun sem ósjaldan er byggð á kristnum gildum og almennu velsæmi. Sem lævísar nöðrur gera þeir almennt siðferði mannvirðingar og kærleiks að meini, hættu sem ber að varast.
Þannig vekja þeir upp ótta meðal þjóðarinnar um hrikalegar afleiðingar þess að ástunda kærleik og koma nauðstöddum til hjálpar. Þeir hafa snúið fagnaðarerindinu á hvolf. Hið nýja lögmál er „elskaðu sjálfan þig og náungann meðan þú græðir á því“.
Hverjum hefði Jesú vísað úr landi?
Þessi hnignun á almennu siðferði síðan 1973 veldur mér áhyggjum. Ég er allt í senn sorgmæddur, hræddur og reiður. Þjóðernisrembingurinn og sjálfhverfan um mikilvægi þess að vernda hreinleika íslenskrar þjóðmenningar fyrir útlendingum er sturlun! Að gera það í Jesú nafni er viðurstyggilegt guðlast. Hverjum hefði Jesú vísað úr landi?
Sem betur fer fyrir Íslendinga eru þeir sem hugsa svona í algjörum minnihluta. Þeir eru ekki beinlínis fáir en þó samt í miklum minnihluta. Vandamálið er bara hvað þeir eru háværir og grimmir. Það nennir enginn að fara að rífast við einhverja útlendingahatara og nasista á netinu og þú ert hálfviti ef þú ferð að gera það í fjölmiðum eða heita pottinum. Hver nennir svoleiðis rugli?
Ímyndið ykkur núna að það væri einmitt það sem gerðist. Að sannkristið fólk á Íslandi og allir aðrir sem aðhyllast almennt siðferði manngæsku, friðar og kærleika tækju sig til og andmæltu nasískum áróðri útlendingahaturs og ótta. Við gætum gert stórkostlega hluti ef við bara vöknum og sjáum orðræðu falsspámannanna fyrir það sem hún er: niðurbrot á kristnum gildum og almennu siðferði. Svipting á mannlegri reisn og virðingu fólks á grundvelli uppruna. Hatursáróður byggður á eigingirni og ótta.
Sem betur fer eru þeir auðþekktir úlfarnir í sauðagærunum ef vel er að gáð. Þeir hreykja sér af því að vera að verja kristna menningu og gildi um leið og þeir finna upp afsakanir til að þurfa ekki að bjarga hjálparvana fólki í neyð.
Þeir eru pakkið sem labbaði framhjá í sögunni um miskunnsama Samverjann. Annað dead giveaway er að þeir eiga eftir að eipsjitta yfir þessari hugleiðingu minni.
Það er kominn tími til að vakna elsku Íslendingar. Stíga fram úr svefnrofanum og draga gluggatjöldin frá. Ef saga okkar og menning vegur þyngra en lífsgæði 5000 þjáðra flóttamanna þá er það ekkert sérstaklega góð saga eða kærleiksrík menning. Hugsið ykkur hve rangt það hefði verið ef við hefðum horft aðgerðalaus á Eyjamenn drukkna og lokað þá af í afgirtum tjaldbúðum yfir veturinn vegna sögusagna um að nauðganir, slagsmál og fyllerý væri órjúfandi fylgifiskur menningar þeirra sem örugglega myndi menga hið góða og réttláta samfélag okkar. Ef slík óhæfa hefði átt sér stað hefði nýjasti kaflinn í sögu þjóðarinnar borið titilinn: „23. Janúar 1973. Nóttin sem Íslendingar aflögðu kristin sið og almennt siðferði“
Súrrealískt?
Ekkert súrrealískara en sú góða hugmynd að skjóta skjólshúsi yfir 5000 stríðshrjáðar sálir í nafni almenns siðferðis, manngæsku og náungakærleika. Ef við gátum það árið 1973, hvað er það þá sem stoppar okkur í dag? Í dag höfum við þó allavega reynsluna og helling af tómum húsum og kirkjum, fáeina fiska og nokkur brauð. Hvað þarf kristin þjóð meira en trú og von til að geta boðið fimmþúsund nauðstöddum Sýrlendingum hæli? Jú kannski ögn af kærleik myndi hjálpa.
Athugasemdir