„Nútíminn er trunta, með tóman grautarhaus [...] Hún er kenjótt eins og kráka“ segir í ljóði Sigurðar Bjólu Garðarssonar. Mér er stundum hugsað til glettinna orða þessa ljóðs þegar mótsagnir nútímans eru ærandi í eyrunum. Ein slík mótsögn er sú að þegar hinn tæknivæddi hluti mannkynsins hefur þróað aðferðir og tækni og tæki til að prófa alls kyns meðferðarúrræði við kvillum og sjúkdómum sem hrjá okkur, erum við enn að leyfa ævintýramönnum í leit að fé og frama að selja okkur glingur. Þetta glingur erum við svo tilbúin að setja ofan í okkur, innbyrða, gefa því aðgang að líkama okkar.
Ég er að tala um alls kyns pillur, duft, krem, plástra og ég veit ekki hvað, sem selt er í búðum, sér í lagi matvörubúðum, apótekum og íþróttavöruverslunum. Sumt af þessu er gamaldags prótein, vítamín og steinefni í mismunandi umbúðum, en ekki þó alltaf vel staðfest að innihaldið samsvari innihaldslýsingunni. Fólk bara tekur því sem gefið. Fólk treystir. Fólk trúir. Almennt í vestrænu samfélagi hefur byggst upp ágætis traust á milli framleiðenda og neytenda, sökum almenns velvilja og þess að inni í lýðræðislega skipuð þjóðfélög eru byggðar eftirlitsstofnanir sem eiga að gæta að góðum framleiðsluháttum og öryggi neysluvara. Við teljum að þetta virki almennt snurðulaust en stundum hriktir í stoðunum, eins og t.d. um árið þegar kjötbökur reyndust ekki hafa neitt kjötinnihald og vistvæn og kjúklinga-vinsamleg egg reyndust vera úr kjúklinga-Guantanamo okkar Íslendinga.
„Síðan þá er allur almenningur „tilraunastofa“ framleiðenda nýrra fæðubótarefna.“
Annað í hillunum er nýrra; efni sem bera frekar framandi nöfn eins og Q10, krómólín, kondróitín súlfat o.s.frv. Á hverju ári koma út nýjar slíkar vörur og þær höfða til hins heilsu-móralska anda vestrænna þjóða hverju sinni. Til dæmis þegar búið er að hamra á mikilvægi „náttúrulegra lausna“ eru vörur merktar „aðeins úr náttúrulegum efnum“. Þessi efni geta þó verið tekin úr náttúrulegu samhengi, verkuð og safnað saman í mæli sem ekkert er vitað hvort er allt of mikið af, of lítið af eða passlegt. Eina krafan sem eftirlitsstofnanir hafa sett varðandi fæðubótarefnin, er að innihaldsefnin skaði ekki og því miðast hið passlega magn við það. Hvort innihaldsefnin virki til heilsubótar eða viðhalds heilsu er eftirlitsstofnunum nánast óviðkomandi. Á tíunda áratugnum gáfu bandarísk yfirvöld eftir þá gæðakröfu að virkni fæðubótarefna væri sannreynd af framleiðandanum. Heimurinn hefur fylgt því fordæmi eftir og síðan þá er allur almenningur „tilraunastofa“ framleiðenda nýrra fæðubótarefna. Þegar fólk kaupir fæðubótarefni sem kynnt er undir merkjum þess að vera „bætandi“ gagnvart hinu og þessu, er það að taka þátt í meðferðartilraun framleiðandans án þess að hafa fengið nokkra ráðgjöf fagfólks. Það er orðið sitt eigið tilraunadýr í leit sinni að betri líðan og heilsu. Það borgar fyrir „rannsóknina“ sjálft og aðferðin byggist á því að mæla huglægt líðan sína fyrir og eftir inntöku. Framleiðandinn fær svo lánaðar hagstæðar sögur til að birta í auglýsingaskyni. Þetta skapar svokallaða staðfestingar-rökvillu.
Hmm ... ætli mér líði betur? Er orkuleysið minna? Já, svei mér þá, það hlýtur bara að vera, enda fjöldi fólks sem ber stöffinu góða söguna.
Það er ákaflega mannlegt að miða hlutina út frá því sem okkur er hjartnæmt og nærri, til dæmis út frá kærri ættjörðinni. Hollusta leynist í íslenskum jurtum – það bara hlýtur að vera. Frá 1000 til 1800 fjölgaði þjóðinni um það bil um núll manns. Íslenskar jurtir héldu lífinu í svipað mörgum, allan tímann. Verra hefði það getað orðið. Svo varð bylting með nýjum Íslandsvini – lúpínunni. Íslendingum hefur fjölgað verulega frá því að lúpínuseyðið komst á tilraunastofu heimilanna. Úr íslensku háskólaumhverfi varð þó tímamótabylting þegar undur íslensku hvannarinnar voru uppgötvaðar – eða segjum öllu heldur „staðfestar“. Það lá ljóst fyrir, enda vex hún hnakkreist, falleg og stolt við hvern einasta læk á landinu. Uppspretta lindarvatnsins, besta vatns í heimi, býr yfir krafti eldfjalla og tærleika jöklanna. Í grasrótarstarfi í lítilli rannsóknarkytru þróaði dr. Sigmundur Guðbjarnason og teymi hans úrdrátt úr hvönninni og greindi þar ýmis efni sem líkur mátti leiða að að hefðu bólgueyðandi áhrif. Þau áhrif mætti svo nýta til að linna einkennum þess hvimleiða andskota, þvagteppu gamalla karla og tíðra þvagláta kvenna að nóttu til. Ó, hvað þjóð vor er þreytt á slíkum vandræðagangi þvagfæranna. Í vefgrein nokkurri rakti doktorinn áhrif hinna meintu virku innihaldsefna hvannarinnar á svokölluð prostaglandín, en það eru áhrifamiklir bólguvakar í líkamanum.
Ég hugsaði með mér; „Af hverju tekur doktor Sigmundur ekki bara inn íbúprófen, sérhæft bólguminnkandi lyf sem hemur myndun prostaglandína?“ Skyldi prófessor emerítus Sigmundur hafa farið Krýsuvíkurleiðina að Mývatni? Ég stakk upp á þessu í aumu kommenti við greinina, en of seint. SagaMedica með SagaPro var komið af stað.
Ólíkt Ævari lúpínuseyðkarli, sem útdeildi lúpínukærleik án endurgjalds (en tók við frjálsu framlagi), hafði doktorinn ekki í huga að láta uppgötvun sína deyja fátækum drottni sínum. Í mikilli trú sinni á hvönninni var lagt af stað með framleiðslu handa almúganum. Fleygt var í litla meðferðarrannsókn á djásn SagaMedica – æðruleysi á salerninu SagaPro, en viti menn – þátttakendur (allt karlar) í meðferðarhópnum tilkynntu ekki færri klósettferðir eða bætta þvagbunu, miðað við samanburðarhópinn. Aðeins lítill undirhópur í rannsókninni, með minnkaða blöðrurýmd, mældist með marktækt færri þvaglát. Doktorinn dró af þessu hárrétta ákvörðun; markaðssetja SagaPro með heilsíðumynd af Ingva Hrafni Jónssyni og persónulegum meðmælum hans. Rannsóknarkríli SagaMedica rannsakaði ekki SagaPro á konum, en á vefsíðu fyrirtækisins eru samt mætar konur sem mæla með SagaPro af því að það er „unnið úr jurtum“ eða „þá þarf ég ekki að hafa sífelldar áhyggjur af því hvar næsta salerni er“ svo tvö dæmi séu nefnd.
„Aðeins lyf eru seld út á sannreynda virkni á sjúkdóma og það er sérstaklega alvarlegt að gefa í skyn að náttúruefni lækni sýkingar.“
Hvað ætli myndi gerast ef ég færi í þennan bissness og seldi íbúprófen undir heitinu VikingDry? Í annarri vöru myndi ég bæta við smá bjarkarösku og nefna hana BjörkWell og selja við kvefi og alls kyns leiðindum. Ég yrði samt að passa að falla ekki í sömu gryfju og SagaMedica, sem auglýsir sumar vörur sínar líkt og um lyf væri að ræða. Til dæmis er vitnað í konu eina sem segir að Urell (frá SagaMedica með efni úr trönuberjum) hjálpi henni „við blöðrubólgu, jafnvel eftir að hún er byrjuð og komin vel af stað“. Þessi vitnisburður gengur mun lengra en löglega má selja Urell út á. Aðeins lyf eru seld út á sannreynda virkni á sjúkdóma og það er sérstaklega alvarlegt að gefa í skyn að náttúruefni lækni sýkingar. Það er hreinlega bannað og í þessu tilviki gæti töf á réttri lyfjameðferð valdið sýkingu upp í nýru. Í reglugerðum frá ráðuneytinu má aðeins nota tiltekið hófsamt orðalag við kynningar á náttúruefnum og fæðubótarefnum. Þarna er verið að fara í kringum reglugerðina með því að vitna í reynslu viðskiptavinar. Um leið og slíkt er birt á vefsíðu SagaMedica eru þeir samábyrgir þessum orðum.
Annað náttúruefni í boði til tilrauna heima fyrir er SagaMemo. Það inniheldur efni sem mögulega eykur taugaboðefnið acetýlchólín í miðtaugakerfinu. Til eru lyf sem hafa þessi áhrif og skila einhverjum skammtímabata á minni en stöðva ekki sjúkdóma sem valda minnisskerðingu. SagaMedica er með eftirlíkingu að þessu módeli og hefur ekki unnið vinnuna sína, heldur gerði músatilraun sem á engan veg prófar örugglega fyrir minni.
Með þessum afrekum sínum hefur doktorinn og fyrirtæki hans skipað sér á bekk með þeirri nýju iðngrein sem einkum blómstrar í „landi hinna frjálsu“ og gengur út á að finna eitthvað nýtt efni sem getur haft áhrif á þekkt lífræn ferli, framkvæma aumar rannsóknir á því og búa svo til markaðssetningar í krafti ásjónar blöndu af náttúruvænni, ættjarðarástar og vísindalegrar fagmennsku. Virkar SagaPro? SagaMedica lætur viðskiptavini sína framkvæma sína eigin „meðferðartilraun“ til að svara því. Viðskiptavinir þessa iðnaðar eru tilraunadýr eigin vona og gera framleiðendurna efnaða í leiðinni. Verði okkur að góðu.
Lesa má nánar um gagnrýni á SagaPro á Upplyst.org
Athugasemdir