„Ég hef margoft velt því fyrir mér hvað hefur mótað íslensku þjóðarsálina. Sumir segja að genin muni. Um það skal ég ekki segja, en okkur virðist ómögulegt að hrista af okkur arf fyrri alda. Undirlægjuháttinn, þjónkunina við og gjörsamlega óverðskuldaða virðinguna fyrir yfirvaldi, gagnrýnisleysið, óttann og undanlátssemina. Íslendingar kyssa vöndinn viðstöðulaust og virðast ekki vilja rífa sig undan óréttlætinu – eða ekki þora.“
Þessi orð, sem ég skrifaði í bloggpistli fyrir nokkrum árum, komu upp í huga minn þegar ég sá niðurstöðu Þjóðarpúls Gallups í byrjun vikunnar. Fylgi stjórnarflokkanna tveggja hafði aukist - þrátt fyrir spillingarmál undanfarinna ára, afhjúpanir um skattaskjól og markvissar aðgerðir ríkisstjórnarinnar við að leggja samfélagið í rúst.
Hvernig samfélagi viljum við búa í? Eftir hrun voru haldnir tveir þjóðfundir þar sem þverskurður þjóðarinnar mætti, valinn af handahófi. Orðin sem þar sveimuðu yfir vötnum og áttu að lýsa áherslum og gildum fundarmanna voru: Heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti, lýðræði, mannréttindi, ábyrgð, frelsi, jöfnuður, sjálfbærni. Falleg orð, virðingarverð og sæmandi góðum samfélagssáttmála.
En hvað gerðist? Þremur árum eftir seinni þjóðfundinn kaus naumur meirihluti yfir okkur flokkana tvo sem hafa áratugum saman unnið gegn þeim gildum sem hæst bar á þjóðfundunum. Flokkana sem vita ekki hvað felst í orðunum heiðarleiki, réttlæti, ábyrgð, jöfnuður og virðing. Flokkana sem hafa í þrjú löng ár skorið niður tekjur sameiginlegra sjóða á markvissan hátt til þess eins að hlaða auknum kostnaði á almenning. Flokkana sem gefa vinum sínum eigur okkar og arðinn af þeim.
Svo er bent á tölur í reiknilíkönum sem sýna að allir hafi það að meðaltali mjög gott, takk, á meðan á okkur dynja fréttir um hvað allir hafi það í alvöru skítt og fólk finni ekki meintan aukinn kaupmátt hvernig sem það leitar. Grunnstoðir samfélagsins að hruni komnar vegna efnahagshruns af völdum þessara tveggja flokka og svo senda þeir út sjálfshrós um tekjujöfnuð byggða á gjörðum fyrri ríkisstjórnar. Berja sér á brjóst fyrir árangur sem Jón Daníelsson, hagfræðingur, og fleiri hafa ítrekað bent á að sé reyndar alls ekki til kominn vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.
Ef við notum hlutfallsreikning má gera ráð fyrir að rúmur helmingur þeirra sem sóttu þjóðfundina hafi kosið ríkisstjórnarflokkana árið 2013 - þrátt fyrir hin fögru gildi fundanna sem þessir flokkar þekkja ekki. Þetta fólk lét glepjast af fögrum loforðum, tengdi ekki við sögu flokkanna, svikin, skuggastjórnendurna og flokkseigendurna. Sá ekki heildarmyndina.
En aftur að spurningunni um hvernig samfélag við viljum. Við viljum líklega öll góðar samgöngur, ljósleiðara í hvert hús um allt land, jöfnuð milli landsbyggðar og þéttbýlis í öllu sem mögulegt er. Við viljum gott heilbrigðiskerfi sem setur fólk ekki á hausinn ef það veikist. Góða skóla, að bæði grunn- og framhaldsmenntun sé fyrir alla án tillits til efnahags, öfluga menningarstarfsemi svo við getum notið bókmennta og lista og svo mætti lengi telja. Við viljum að hlúð sé myndarlega að eldri borgurum, að fólk sem missir vinnuna fái atvinnuleysisbætur og að fólk sem missir heilsuna fái lífeyri sem það getur lifað af með reisn. Gott samfélag sem hugar að og sinnir þörfum borgaranna, hverjar sem þær kunna að vera.
Til að geta rekið samfélagið gerum við samfélagssáttmála. Við gerum samkomulag um að hver einstaklingur borgi tekjuskatt og fyrirtæki borgi líka ýmsa skatta fyrir sína starfsemi. Við borgum fjármagnstekjuskatt, til skamms tíma auðlegðarskatt og svo er það virðisaukaskattur og alls konar óbeinir skattar og gjöld sem renna í sameiginlegan sjóð samfélagsins, ríkissjóð. Fyrir þetta fé - skattfé - er samfélagið rekið; vegir lagðir eða lagfærðir, annast um sjúka og aldraða, börnin okkar menntuð og þar fram eftir götunum. Nauðsynleg samfélagsþjónusta er veitt - fyrir skattfé okkar.
Mér hefur fundist alveg furðulegt að horfa upp á hvernig ótrúlega margir hafa brugðist við fréttum um eignir Íslendinga í aflandsfélögum, hvort sem þau eru ný eða gömul. Það er eins og fólk átti sig ekki á til hvers þau eru stofnuð og hvað fólki gengur til með að stofna þau. Þetta snýst ekki bara um hvort einhver segist hafa borgað skatt af fénu eða ekki, enda vitum við ekkert um það. Aflandsfélög eru stofnuð til að sveipa eignir fólks huliðshjálmi, hvort sem þær eignir eru vel eða illa fengnar. Til að fela. Það er óheiðarlegt fólk sem sogar fé út úr íslenska hagkerfinu sem ætlað er að þjóna samfélaginu.
Það er beinlínis óheiðarlegt og siðlaust að flytja úr landi afrakstur vinnu sem unnin er á Íslandi, þar sem höndlað er við Íslendinga, þar sem arðurinn myndast og grunnstoðir notaðar sem almenningur greiðir fyrir. Það er líka óheiðarlegt og siðlaust að skrá lögheimili sitt erlendis til að forðast skatta en búa og vinna á Íslandi eftir sem áður og láta nágrannana og aðra landsmenn borga fyrir sig og börnin sín grunn- og samfélagsþjónustu með sínum sköttum. Ég held að flestir geti verið sammála um þetta.
Sigrún Davíðsdóttir kallaði þetta siðleysi „undanskot frá samfélagssáttmálanum“ í pistli nýverið. Þeir sem fela fé í aflandsfélögum eru að svíkja okkur hin sem borgum okkar skatta og eigum æ erfiðara með að standa ein undir kostnaði samfélagsins. Við erum að kikna og aflandsfólkið hlær að okkur.
Aflandsfélagavæðing Íslands hófst í kringum 1998. Hægt og rólega í fyrstu, jókst ár frá ári og var orðin gríðarleg 2008 - svo hrundi allt. Fyrirtæki og bankar höfðu verið skafnir að innan, gjaldeyrisforði þjóðarinnar fluttur í aflandsfélög og stór hluti hans er þar enn og bíður færis.
Það var líka í kringum 1998 sem skattbyrði lágtekjufólks fór að hækka. Og hún hækkaði og hækkaði og hækkaði, lækkaði svo lítillega eftir hrun en hefur nú hækkað aftur. Um þetta leyti var skyldugreiðsla í lífeyrissjóði lögbundin fyrir alla. Lífeyrissjóði sem borga lúsarlífeyri en nokkrir bestu vinir aðal hafa fengið að spila ábyrgðarlaust fjárhættuspil með á launum sem venjulegir launþegar geta ekki látið sig dreyma um. Um svipað leyti fóru útgerðarmenn að veðsetja auðlindina okkar allra, fiskinn í sjónum. Sjáið þið ekki samhengið?
Allt þetta var og er í boði núverandi ríkisstjórnarflokka sem bættu við sig fylgi í síðasta Þjóðarpúlsi Gallups. Ég skil það ekki. Ég skil heldur ekki fólk sem getur hugsað sér að kjósa stjórnmálamenn og -flokka sem finnst bara allt í lagi með aflandsfélög og það rán á sameiginlegum sjóðum okkar sem þar fer fram. Því aflandsfélög eru ekkert annað. Ég skil ekki fólk sem umber ríkisstjórn þar sem tveir aflandsráðherrar sitja enn sem fastast. Ég skil ekki fólk sem kýs forseta hvers eiginkona, forsetafrúin, er „óstaðsett í hús“, á hvergi heima til að þurfa ekki að borga sinn skerf til þess samfélags þar sem hún býr og nýtir þjónustu hjá. Ég skil ekki fólk sem segir að okkur komi ekki við að verið sé að stunda undanskot frá samfélagssáttmálanum og þyngja með því byrðar okkar hinna.
Ef þetta er þjóðarsálin þá skil ég hana ekki og ég neita að kyssa vöndinn og láta kúga mig.
Athugasemdir