Svo að segja árlega kemur upp sú staða að vissir aðilar í samfélaginu taka sig til og rífast um kirkjuferðir barna eða skort á þeim í kringum jólin. Þessi umræða blossaði enn einu sinni upp nú á dögunum eftir að fram kom í DV að Langholtsskóli hyggðist hætta með kirkjuferðir sem annars hafa verið farnar árlega. Slík atvik hafa orðið árlega síðan mannréttindaráð Reykjavíkurborgar tók sig til og samþykkti nýjar reglur um samskipti trúfélaga við menntastofnanir borgarinnar. Flestar menntastofnanir borgarinnar hafa farið vel eftir þessum reglum en sumar vilja þrjóskast við og fara með börn í kirkju í kringum jólin. Margir spyrja þá réttilega, hvað er að því? Eins og Eggert Skúlason, ritstjóri DV, sagði í nýlegum leiðara blaðsins: Geta foreldrar ekki bara „tekið sér frí í kringum jólin“ ef þeim líkar illa að farið sé með börn í kirkju?
Sumum virðist það ef til vill furðulegt að halda því fram að það teljist til mannréttinda að fara ekki í kirkju, en skoðum nú staðreyndir málsins aðeins nánar. Við erum lítil eyþjóð í Vestur-Evrópu og við eigum það gjarnan til að monta okkur á alþjóðavettvangi yfir því hvað við erum frjálslynd, erum framarlega í mannréttindum minnihlutahópa og ýmislegt fleira. Á sama tíma eru langflestar aðrar Evrópuþjóðir búnar að gefast upp á hugmyndinni um ríkiskirkju og slíkum kirkjum fækkar með hverju ári. Þrátt fyrir það höldum við fast í okkar ríkiskirkju. Trúboð á hennar vegum er heimilað af flestum sveitarfélögum, sem er sérkennilegt í ljósi þess að hún montar sig reglulega af því að meirihluti Íslendinga séu kristnir.
Menntastofnanir sem sjá um lögbundið nám barna hafa sérstakt hlutverk þegar kemur að því að varðveita og efla mannréttindi barna. Börn hafa ekki val um það hvort þau gangi í skóla og því er eðlilegt að menntastofnanir gæti hlutleysis í ákveðnum málum, sérstaklega þegar kemur að trúmálum. En af hverju er það eðlilegt? Jú, það er eðlilegt vegna þess að trúfrelsi og friðhelgi einkalífsins telst til sjálfsagðra mannréttinda. Trú einstaklinga getur verið mjög persónulegt mál og það eru ekki allir sem kæra sig um að slíkar upplýsingar séu opinberar. Ímyndum okkur nú hvernig það væri fyrir kristna Íslendinga ef í stjórnarskrá stæði „vernda og varðveita skal trúleysi“ eða „vernda og varðveita skal Islam“. Væru þeir til í að upplýsa hvern sem er um sína kristnu trú? Væru þeir til í að leyfa múslimum að fara með börnin sín á hverju ári í moskuferð?
Ég hef, sem áheyrnarfulltrúi Pírata í skóla-og frístundaráði Reykjavíkurborgar, tekið á móti mörgum kvörtunum og áhyggjum foreldra vegna kirkjuferða. Skólarnir sem halda þessum ferðum áfram setja foreldra í erfiða og virkilega ósanngjarna stöðu. Þeir þurfa ekki aðeins að gera grein fyrir lífsskoðun sinni heldur þurfa þeir á sama tíma að vernda börnin sín frá því að vera aðskilin frá öðrum börnum. Einelti er nógu alvarlegt mál þó að börn sem eiga foreldra utan þjóðkirkjunnar séu ekki stimpluð sem „skrítnu krakkarnir“ sem fara ekki með hinum. Ef að við ímyndum okkur að skólarnir væru fyrirtæki, myndi stjórnandi endast lengi í starfi sínu ef hann færi ítrekað gegn reglum fyrirtækisins? Skólarnir munu hins vegar halda þessu áfram þangað til að Alþingi grípur inn og setur lög sem banna trúboð í skólum. Ég ætla því að skora hér með á Alþingi að laga þessa stöðu, standa vörð um mannréttindi barna og nýta sér reglur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar til viðmiðunar um lög sem tryggja börnum í skóla sín sjálfsögðu mannréttindi.
Ég kemst þó ekki hjá því að nefna það að ég starfaði einu sinni í leikskóla yfir tveggja ára tímabil. Fyrstu jólin mín sem starfsmaður á leikskólanum kom prestur og talaði við börnin, en seinni jólin var enginn prestur. Það voru samt borðaðar piparkökur, það var samt dansað í kringum jólatré og þungarokkarinn, sem er ekkert sérlega hrifinn af þessari hátíð, tók upp kassagítarinn og söng um snjókarla og jólasveina. Foreldrar gátu áfram farið með börnin sín í kirkju og kennt þeim allt sem þeim datt í hug um Jesú.
Jólin komu alveg þrátt fyrir að enginn prestur hafi mætt á svæðið.
Athugasemdir