Fyrir ári samþykktu leiðtogar 193 ríkja að skuldbinda sig til að binda enda á fátækt í heiminum, berjast gegn loftslagsbreytingum og óréttlæti. Þeir samþykktu áætlun um framtíð heimsins og íbúa hans. Svokölluð Áætlun 2030 fyrir sjálfbæra þróun er ávísun á betri framtíð fyrir milljarða manna um allan heim og jörðina gjörvalla.
Það verður eitt umfangsmesta verkefni alþjóðasamfélagsins frá upphafi að hrinda Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum sautján í framkvæmd fyrir 2030. En ég er sannfærður um að á næstu fjórtán árum verði enginn skortur á árangri, ef fólkið situr í fyrirrúmi í öllum aðgerðum, ef þeir sem hlut eiga að máli gugna ekki á að standa við skuldbindingar sínar og samstarfsvilji dvínar ekki.
Ég er bjartsýnn vegna eðlis Sjálfbæru þróunarmarkmiðanna. Fjögur meginsjónarmið eru rauður þráður í markmiðunum. Í fyrsta lagi eru þau innbyrðis tengd og órjúfanleg hvert frá öðru. Þau flétta saman þróun, mannréttindi, frið og öryggi. Í öðru lagi ná þau til alls heimsins. Þau ná til hverrar einustu manneskju í heiminum. Í þriðja lagi ber að hrinda þeim í framkvæmd í krafti þátttöku allra þjóðfélagsþegna. Í fjórða lagi ber engan að skilja eftir við framkvæmd þeirra. Sjálfbæru þróunarmarkmiðin eru sameiginlegt markmið um velferð komandi kynslóða og plánetunnar, svo hún sé í stakk búin til að takast á við framtíðina. Af þessum sökum höfum við orðið vitni að því að hvarvetna og á mörgum sviðum er verið að sveigja af leið inn á sjálfbærari brautir.
Á fyrsta ári Sjálfbæru þróunarmarkmiðanna hafa meira en 50 ríkisstjórnir, auk fjölda fyrirtækja, vísindamanna og aðila borgaralegs samfélags, eflt viðleitni sína til að Sjálfbæru þróunarmarkmiðin verði miðlægur rammi utan um stefnu þeirra og aðgerðir. Þeir hafa skerpt sýn sína og fjárfestingar til að afla vitneskju og greininga með það að leiðarljósi við ákvarðanatöku að skilja engan eftir.
Hundruð borga og sveitarfélaga hafa samþykkt staðbundnar áætlanir um að ná markmiðunum. Og í mörgum geirum samfélagsins hafa ólíkir hópar tekið höndum saman undir gunnfána Sjálfbæru þróunarmarkmiðanna.
Allt þetta hefur skapað skriðþunga í baráttunni við að draga úr loftslagsbreytingum, auka jafnrétti kynjanna, milda áhrif náttúruhamfara, takast á við umfangsmikla fólksflutninga og draga úr ójöfnuði.
22 ríki kynntu Sameinuðu þjóðunum í júlí síðastliðnum markmið sín um Sjálfbæra þróun. Þau sýndu fram á hvernig Sjálfbæru þróunarmarkmiðin ramma inn innlenda þróun. Reynt er að sjá til þess að aðgerðir rekist ekki hverjar á annars horn, ætlanir séu samfhæfðar og reynt að nýta fé á eins skilvirkan hátt og auðið er. Þetta hefur í för með sér að þróunarsamvinna mun taka mið af þróunarmarkmiðunum sjálfbæru.
Skriðþungi þeirrar hreyfingar, sem Parísar-samkomulagið um loftslagsbreytingar hratt af stað, eflist einnig og það sem af er hafa tuttugu og sjö ríki staðfest samninginn, þar af Bandaríkin og Kína sem losa mest allra ríkja af gróðurhúsalofttegundum.
Hreyfing er einnig í öðrum geirum. Greinileg breyting er orðin á því með hvaða hætti fyrirtæki starfa og sýnin skarpari en áður á félagslegar, efnahagslegar og umhverfislegar víddir þróunar. Og Sameinuðu þjóðirnar hafa breytt áherslum sínum í þá veru að fylkja fyrst og fremst liði um samhæfða stefnu.
Það er ljóst að þrekvirki hefur þegar verið unnið.
En miklu meira er þörf til að hrinda Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum í framkvæmd. Í þeim felast sérstök markmið sem öllum ber að ná til að leysa þann vanda sem plánetan og íbúar hennar standa frammi fyrir.
Hvernig höldum við okkur á þessari braut til móts við sjálfbæra framtíð?
Þar kemur að mikilvægasta hagsmunaaðilanum – fólkinu sjálfu. Almenningsálitið og þrýstingur fólks mun vega þungt í því að umbreyta Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum úr draumsýn í veruleika. Markmið mitt er að tveir milljarðar manna viti af Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum við árslok 2017. Ég vil virkja eina milljón manna með það fyrir augum að beita þá sem ákvarðanir taka þrýstingi og draga þá til ábyrgðar þar til við höfum umbreytt heiminum og gert hann sjálfbærari.
Börn og ungmenni hafa mikilvægu hlutverki að gegna sem andlit félagslegrar hreyfingar, aflvaki félagslegra breytinga og fánaberar sjálfbærari framtíðar í þágu komandi kynslóða.
Fyrsti afmælisdagur Sjálfbæru þróunarmarkmiðanna eru tækifæri til þess að fagna vel unnu verki, en einnig áminning um að gera meira til þess að Sjálfbæru þróunarmarkmiðin verði að veruleika. Brýnt er að þakka ríkisstjórnum um allan heim, fyrirtækjum, aðilum borgaralegs samfélags og ungu fólki um allan heim fyrir þeirra starf.
Ef allir hlutaðeigandi aðilar halda áfram að vinna að sjálfbærari og styrkari heimi er unnt að ná Sjálfbæru markmiðunum og breyta lifnaðarháttum okkar á næstu fjórtán árum.
Og við skulum horfast í augu við það að það er ekkert plan B. Það er engin pláneta B til.
Dr. David Nabarro er sérstakur ráðgjafi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um Áætlun 2030 um sjálfbæra þróun og loftslagsbreytingar.
Athugasemdir