Ég er ekki viss um að margt fólk átti sig almennilega á samhengi 3.4 milljarða króna bónusanna sem á að greiða út úr fyrirtækinu ALMC. Sleppum hártogunum um að ALMC sé eignaumsýslufélag en ekki fjármálafyrirtæki. Þetta er gamall banki sem er hættur starfsemi sem slíkur, gamli Straumur Burðarás. Gamalt fjármálafyrirtæki sem hefur misst bankaleyfið er að borga út bónusa til starfsmanna sinna.
Ég veit ekki af hverju áhugaleysi fjölmiðla á málinu stafar. Eftir að DV greindi frá bónusgreiðslunum á þriðjudaginn hafa fréttastofur sjónvarpsstöðvanna ekki tekið það upp og reynt að skýra þær eða komast að því hvort þær standist gildandi reglur í samfélaginu. Þá er bara átt við lög og reglur, ekki siðferðisviðmið. Tímasetningin á fréttinni er auðvitað líka andstyggileg í ljósi kjaraviðaræðna þar sem talað er um lágmarkslaun í landinu upp á 300 þúsund.
„Þessar bónusgreiðslur eru því ekki lengur tuskan sem um ræddi árið 2009 heldur einmitt bara þannig fokkmerki.“
Um er að ræða hæstu bónusgreiðslur sem fyrirtæki á Íslandi hefur greitt út frá hruninu 2008 og sennilega fyrir það líka, að minnsta kosti þegar litið er til þess hversu há meðalgreiðslan er per starfsmann. Ég man að minnsta kosti ekki eftir svo hárri greiðslu til eins fámenns hóps starfsmanna fyrirtækis.
Á milli 20 og 30 einstaklingar skipta þessum 3,4 milljörðum á milli sín. Um þriðjungur þeirra eru einstaklingar sem unnu í Straumi-Burðarási í lykilstöðum innan hans fyrir hrunið 2008 þegar fjárfestingarbankinn var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu á fyrri hluta árs 2009.
Hætt við eftir hörð viðbrögð
Eftir að Fjármálaeftirlitið yfirtók Straum-Burðarás kynntu stjórnendur fjárfestingarbankans áætlun fyrir kröfuhöfum hans í ágúst 2009 sem fól í sér að starfsmenn hans gætu fengið á milli tæplega 3 til tæplega 10 milljarða króna í bónusgreiðslur fyrir umsýslu með eignir bankans á næstu fimm árum þar á eftir.
Fréttin um bónusgreiðslurnar vakti hörð viðbrögð í samfélaginu og voru stóru orðin ekki spöruð. Álfheiður Ingadóttir, þingkona og þáverandi formaður viðskiptanefndar, sagði til dæmis að hún hefði haldið að um lygasögu hefði verið að ræða. Hún spurði að því hvort að þeir sem kveiktu í húsinu ættu að fá „sérstaklega greitt fyrir að slökkva eldinn“. Formaður LSR, Eiríkur Jónsson, sagði að bónusgreiðslurnar væru eins og „blaut tuska framan í þjóðina“. Lífeyrissjóðir átti 24 milljarða króna kröfu á Straum-Burðarás og var LSR einn þeirra og gátu sjóðirnir því hlutast til um bónusgreiðslurnar. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins sagði svo til dæmis: „Öllum almenningi hlýtur að vera verulega misboðið yfir tillögum stjórnenda Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka um feiknaháar bónusgreiðslur, nái þeir árangri við að koma eignasafni bankans í verð fyrir kröfuhafa.“
Þessi viðbrögð í samfélaginu, og væntanlega gagnrýni frá einhverjum kröfuhöfum Straums-Burðaráss, gerðu það að verkum að stjórnendur Straums sögðust hafa hætt við að fara fram á bónusana og baðst forstjóri fjárfestingarbankans opinberlega afsökunar á hugmyndinni. Hann sagði að bónusgreiðslurnar hefðu ekki verið í „nægjanlegum tengslum“ við veruleikann „sem við Íslendingar búum nú við sem þjóð“: „Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað undanfarna daga er ég ekki í nokkrum vafa um að ég og aðrir sem að endurskipulagningunni koma hefðum átt að gefa aðstæðum hér á landi betri gaum.“
Þar með hafa þeir sem fylgdust með málinu væntanlega haldið að hugmyndin um að greiða út bónusana væri úr sögunni.
Bónusarnir ákveðnir aftur
Svo var hins vegar ekki því árið 2011 ákvaðu stjórnendur Straums-Burðarás, sem þá hafði skipt um nafn og hét ALMC og var hættur að starfa sem banki, að greiða út bónusa til þeirra einstaklinga sem unnið hafa með eignir fyrirtækisins. Þessir bónusar nema sömu upphæðum sem talað var um að þeir ættu að gera í áætlununum sem hætt var við árið 2009 í kjölfar harðra viðbragða eða fordæmingar. Og einstaklingarnir sem eiga að fá bónusana eru að hluta til þeir sömu.
Þetta er sama hugmyndin nú og árið 2009 nema að munurinn er sá að fyrirtækið sem ætlar að borga út bónusana heitir nú ALMC en ekki Straumur og er eignaumsýslufélag en ekki fjármálafyrirtæki. Ef ALMC væri ennþá fjármálafyrirtæki mætti félagið ekki greiða út þessa bónusa til starfsmannanna út af reglu sem kveður á um að ekki megi greiða út bónusa til bankamanna á Íslandi sem eru hærri en 25 prósent af árslaunum þeirra.
ALMC hefur líka skipt um eigendur að hluta og er nú ekki lengur í eigu íslenskra aðila í sama mæli og 2009 heldur erlendra vogunarsjóða.
Svo kann að skipta máli nú eru bráðum sjö ár liðin frá hruninu en ekki tæpt ár eins og þegar bónusgreiðslurnar komust í fréttirnar í ágúst 2009.
Sami aur í annarri skál á öðrum tíma
Annars eru þetta sömu bónusgreiðslurnar og vöktu svo hörð viðbrögð í íslensku samfélagi árið 2009; viðbrögðum sem einna best er að lýsa með þeim hætti að „geggjunin hafi náð nýjum hæðum“ eins og einn bloggarinn orðaði það þá og vatt sér beint að kjarna málsins.
Nú, árið 2015, vekja þessa bónusgreiðslur ekki sömu viðbrögð og þær gerðu árið 2009 jafnvel þó um nákvæmlega sama hlutinn sé að ræða enda hættu stjórnendur Straums, eða ALMC, aldrei við þessar hugmyndir heldur settu þær bara aðeins í salt og biðu. Þetta er sami grauturinn, sami aurinn, í annarri skál á öðrum tíma. Þetta er sama fréttin en viðbrögðin eru allt önnur núna en 2009.
Sleppum aukaatriðunum
Sleppum því að verja of mörgum orðum í að tala um hvaðan þessir peningar koma; peningarnir sem þessir einstaklingar fá í bónusa. Þetta eru peningar sem kröfuhafar Straums-Burðarás hafa yfir í ráða í gegnum þær eignir sem gamli bankinn á. Í raun skiptir það ekki máli: Þetta eru sömu peningar, sömu eignir, og áttu að liggja til grundvallar bónusgreiðslunum árið 2009. Uppruni peninganna er sá sami.
Sleppum því líka að tala um hvaða fordæmisgildi þessar bónusgreiðslur geta haft fyrir önnur þrotabú fjármálafyrirtækja á Íslandi. Hægt er að ímynda sér að þrotabú föllnu viðskiptabankanna þriggja - Glitnis, Landsbankans og Kaupþings - gætu gert hið sama: Stofnað sérstök eignaumsýslufélög og greitt út milljarða bónusa til þeirra sem hafa sýslað með eignir þessara gjaldþrota fyrirtækja. Á endanum eiga erlendir aðilar, kröfuhafar, þessi föllnu fjármálafyrirtæki alveg eins og Straum-Burðarás, ALMC.
Sleppum því líka að tala um hvaða áhrif þetta kann að hafa á kröfu starfsmanna starfandi fjármálafyrirtækja á Íslandi eins og Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka um að fá greidda sambærilegra bónusa og starfsmenn gamla Straums-Burðaráss fá nú. Erlendir aðilar, kröfuhafar, eiga líka þessi fjármálafyrirtæki að mestu leyti eða að hluta til. Hvað myndi fólki finnast um það?
Ár 1 - ár 7
En þetta er bara nákvæmlega svona: Ímyndaðu þér tilbúinn heim þar sem nýtt tímatal hófst á árinu 0 eftir ragnarrök. Stjórnendur banka í heiminum segja við þig árið 1 að þeir eigi að fá rosamikla peninga í bónus á næstu fimm árum fyrir að koma eignum gjaldþrota bankans sem þeir vinna hjá í verð á því tímabili. Allt verður vitlaust út af hugmyndinni og stjórnendur bankans hætta við bónusgreiðslurnar og biðjast afsökunar. Árið 3 ákveða stjórnendur bankans hins vegar að greiða samt út bónusana til sama fólks og átti að fá þá árið 1. Þeir segja hins vegar engum frá því. Svo fréttist það árið 7 að bónusarnir verði greiddir út þrátt fyrir viðbrögðin og afsökunarbeiðnina árið 1.
Svona er veruleikinn í þessu bónusamáli gamla Straums.
Allir geta gert mistök, séð að sér og beðist afsökunar en þegar sömu „mistök“ endurtaka sig er ljóst að hugurinn sem fylgdi afsökunarbeiðninni var ekki sérlega einlægur.
Stundum er talað um að eitthvað sé eins og blaut tuska framan í einhvern, jafnvel þjóð. Bónusgreiðslur Straums voru taldar vera slík tuska árið 2009. Svipaða merkingu, en þó sterkari, hefur orðalagið að sýna einhverjum fingurinn eða puttann. Þetta orðalag um puttann má kannski nota þegar einhver er búinn að biðjast afsökunar á tuskunni sem hann bar ábyrgð á að lenti í andliti einhvers en svo, skyndilega, slæmist tuskan í hann aftur. Þessar bónusgreiðslur eru því ekki lengur tuskan sem um ræddi árið 2009 heldur einmitt bara þannig fokkmerki.
Athugasemdir