Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarið mælst stærsti flokkurinn á Íslandi að nýju eftir langt tímabil þar sem fleiri studdu nýjan umbótaflokk en þennan elsta valdaflokk Íslands. Þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn geta vænst þess að nýkjörinn forseti Íslands veiti honum stjórnarmyndunarumboð. Eini valkosturinn, eins og staðan er núna, væri að veita Pírötum umboðið út á að þeir bæti mestu við sig, en Guðni Th. Jóhannesson sagði nýlega að þeir myndu eiga erfitt með málamiðlanir, sem stangast reyndar á við þá gagnrýni á Pírata að þeir hafi ekki nógu mikla stefnu og séu anarkistar sem ekkert sé að marka.
Þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn hafa í gegnum tíðina getað vænst þess að vera að kjósa ríkisstjórn. Þeir eru í liði sigurvegaranna. Og það eru líka góðar ástæður til að kjósa flokkinn. Hér eru þrjár þær helstu:
1. Aðhald og niðurgreiðsla skulda
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að borga upp skuldir ríkisins, sem sparar ríkinu milljarða árlega í óþarfar vaxtagreiðslur. Þær eru núna 74 milljarðar á ári, ígildi helmingsins af heilbrigðisútgjöldum, um 10 prósent af heildartekjum ríkisins.
2. Stöðugleikinn og traustið
Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfir að ráða stórum hópi lögfræðimenntaðs fólks sem þekkir lögin og er ekki að fara að kollvarpa neinu. Flokkurinn hefur langa valdareynslu og hefur myndað 22 af 31 ríkisstjórn frá stofnun flokksins.
3. Flokkur allra
Kjarninn í boðskap Sjálfstæðisflokksins er að hann gæti hagsmuna allra. Meðan jafnaðarmanna- og sósíalistaflokkar börðust á grundvelli átakakenninga sem sögðu að stéttir hefðu mismunandi og oft andstæða hagsmuni og að hinir valdamiklu notuðu aðstöðu sína til að hagnast á þeim valdaminni, vann Sjálfstæðisflokkurinn út frá samvirknikenningum – að hagsmunir okkar allra væru samstæðir og að við ættum öll að standa saman sem þjóð, frekar en mismunandi stéttir. Þess vegna var kjörorð flokksins lengi „stétt með stétt“.
Eitt: Kostnaður aðhaldsins
En það er önnur hlið á þessum ástæðum.
Uppgreiðsla á skuldum ríkisins gerir meira til framtíðar en til skamms tíma. Hún er í raun fjárfesting. Á móti er fjárfesting í innviðum langt undir meðaltali síðustu 20 ára og minni en í samanburðarríkjum, eða 1,3–1,5 prósent af landsframleiðslu. Bjarni Benediktsson segir það gert „meðal annars vegna allra þeirra fjárfestinga sem eru fyrirhugaðar í einkageiranum“. Samt segir flokkurinn í stefnu sinni fyrir næstu kosningar að hann vilji „áframhaldandi fjármögnun á uppbyggingu samfélagslegra innviða“. Fjármögnunin er meðvitað í lágmarki þótt kynningin gefi öfugt til kynna.
Sú stefna að spara með því að mynda biðlista í heilbrigðiskerfinu, framkalla atgervisflótta starfsmanna og að minnka fjárfestingu veldur skaða sem skapar kostnað. Þess fyrir utan er útgjöldum ríkisins ætlað að vinna að því að fólk verði minna vansælt og meira farsælt, til dæmis með því að það þurfi ekki að bíða í ár eftir lækningu meina sinna.
Tvö: Kostnaður traustsins
Traustið á Sjálfstæðisflokknum á það til að verða einn helsti galli hans, einna helst traust hans á sjálfum sér. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn lítur á sig sem flokk allra er hann gjarn á að taka sér of mikið vald, til dæmis með því að setja flokksmenn sína yfir stofnanir og afnema sjálfstæði eftirlitsstofnana, eins og til dæmis Seðlabankans. Þá hefur flokkurinn og núverandi formaður verið staðinn að því að lofa lýðræðisumbótum og beinu lýðræði fyrir kosningar, en svíkja það strax eftir kosningar, eins og í tilfelli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Með þessu loforði sem var svo svikið slapp flokkurinn við að rökstyðja stefnu sína í gjaldmiðlamálum, einu allra stærsta kosningamálinu. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu aðeins samtals 51,1 prósent fylgi í síðustu kosningum. Nánast öruggt er að fylgið hefði minnkað við raunverulega umræðu um réttlætingu flokksins á að halda krónunni sem gjaldmiðli. Þetta var lykillinn að völdum flokksins.
Rökstuðningur Bjarna Benediktssonar fyrir því að svíkja loforðið var að það væri ómögulegt, vegna þess að þingmennirnir, sem voru meðal annars kosnir út á loforðið, væru á móti mögulegri niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem var lofað. Þannig varð þingræðið, í höndum flokksins, æðra beinu lýðræði, þótt því síðarnefnda hefði verið lofað í tilraun til að öðlast fyrrnefnda valdið.
Eigandi valdsins
Enginn annar flokkur hegðar sér eins mikið eins og hann eigi völdin, enda hefur hann verið með stuðning um 40% þjóðarinnar mestallan lýðveldistímann. Bjarni Benediktsson kallaði eftir því að síðasta ríkisstjórn „skilaði lyklunum“. Eftir að hann lofaði valddreifingunni og beina lýðræðinu varð honum að ósk sinni.
Samfara því að Sjálfstæðisflokkurinn er að miklu leyti samsettur af lögfræðingum liggur lagahyggjan til grundvallar gildismati flokksmanna, og birtist oft í ofuráherslu á lög en umburðarlyndi fyrir brotum á siðareglum.
Þegar sjálfstraust, valdavani og lagahyggja Sjálfstæðisflokkins kemur saman myndast aðstæður eins og þær að tugþúsundir Íslendinga fara á torg til að mótmæla siðleysi og lýðræðisskorti, án þess að brugðist sé við því þar til það hentar flokknum, því þau segja að fjarvera hans frá völdum raski stöðugleikanum í samfélaginu. Og jafnvel þegar meðlimir flokksins hafa reynst brjóta lög við stjórn ríkisins hefur svarið verið að lögin séu röng.
Þrjú: Hver er raunverulega stefnan?
„Höfuðskylda okkar allra er að hlúa að þeim sem minna mega sín. Aðstoða þá sem eru hjálpar þurfi,“ sagði Bjarni Benediktsson á flokksráðsfundinum þar sem lagðar voru línur fyrir kosningabaráttu flokksins.
Á sama tíma gerir Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst út á að lækka skatta, draga úr umsvifum ríkisins og borga upp skuldir ríkisins.
Það er pólitískur ómöguleiki að gera þetta allt á sama tíma, að minnka tekjur, auka félagsleg útgjöld til hinna verst settu, auka heilbrigðisútgjöld, borga upp skuldir og svo minnka umsvif ríkisins, nema það komi niður á einhverjum sem ekki er verið að nefna. Og reynslan sýnir okkur undirliggjandi skuggastefnuna.
Svarið á þessu kjörtímabili liggur í því að tryggja hag þeirra ríkustu og fjármagna það með uppgangi vegna utanaðkomandi aðstæðna – bætts efnahags í heiminum almennt og fjölgunar ferðamanna. Á kjörtímabilinu hefur skattbyrði þeirra 10 prósent ríkustu minnkað, en skattgreiðslur 90 prósentanna aukist, jafnvel þótt horft sé fram hjá afnámi auðlegðarskattsins, eins og má lesa um í uppgjöri Stundarinnar á áhrifum ríkisstjórnarinnar.
Því ríkir eru forsenda alls
Hér er lógíkin: Forsenda velferðar er verðmætasköpun og að mati Sjálfstæðisflokksins er forsenda verðmætasköpunar fyrirtækin og þeir sem eiga fyrirtækin, sem er ríka fólkið. Þar af leiðandi setur Sjálfstæðisflokkurinn ríka fólkið í fyrsta sæti. Það er ekki illa meint, heldur út frá kærleika fyrir öllum. En það selur ekki í kosningum. Þess vegna gerir Sjálfstæðisflokkurinn út á að hjálpa þeim sem minnst mega sín, fyrir kosningar, þegar hann í raun meinar í grófum dráttum, að hann ætlar að hjálpa ríka fólkinu að búa til störf fyrir millistéttarfólk svo það geti borgað skatta sem hjálpa þeim sem minnst mega sín.
Kenningin er að þeir sem hafi aðgang að mestum peningum í samfélaginu séu þeir sem eru bestir í að búa til verðmæti, og að þeim beri að hlúa að, svo þeir geti fjárfest peningunum sem þeir borga ekki í skatt í meiri verðmætasköpun. Svo eru skattar á þá lækkaðir og með því aukast skatttekjur samt, samkvæmt Laffer-kúrvunni.
Aðrir flokkar, sumir hverjir, trúa því hins vegar að fólk almennt sé forsenda verðmætasköpunarinnar, frekar en þeir sem eiga fjármagnið, og vilja því bæta mannauðinn.
Valkvæð kynning Sjálfstæðisflokksins á eigin stefnu gengur fyllilega upp í hugmyndalegri heimsmynd flokksins. Hann er nefnilega heildarlausn – grunnforsenda verðmætasköpunarinnar. Í því samhengi er mikilvægara að hann fái tækifæri til góðra verka, heldur en aðferðirnar sem hann beitir til að komast í aðstöðuna, enda voru engin lög brotin og lögmál hins frjálsa markaðar gilda í kosningum þegar fólk velur það sem hann selur.
Athugasemdir