Við erum að fara að kaupa. Það er ekki öruggt að það sem við kaupum reynist vera það sem okkur var selt. Við fáum bara eitt tækifæri og eitt val. En okkur er ekki heimilt að skila. Og það er engin trygging.
Hér eru nokkrar grunsamlegar vörur í boði á útsölunum í haust:
Heilbrigðiskerfið í forgang – eða ekki
Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við Morgunblaðið í vor að nú myndi flokkurinn hans setja „heilbrigðismálin í forgang“, í kjölfar þess að 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að auka útgjöld til heilbrigðismála úr 8,7% í 11% af landsframleiðslu. Niðurstaða ríkisfjármálaáætlunar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins til næstu fimm ára var hins vegar að færa hlutfall heilbrigðisþjónustu niður í 8% af landsframleiðslunni, þrátt fyrir eitthvað aukin útgjöld.
Bjarni vill halda útgjöldum niðri til þess að valda ekki þenslu. En á sama tíma stefnir hann á að lækka skatta, sem veldur reyndar þenslu. Og skattarnir sem hann lækkar hafa oft verið skattar þeirra auðugustu – auðlegðarskattur, veiðigjöld og stóriðjuskattur.
Forgangsröðun hans er því ekki jafnmikið í heilbrigðismálum og hann gaf til kynna, sama hvað manni finnst um hvað ætti að vera í forgangi.
Markaðurinn ræður – þegar hentar þeim sem ráða
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn innleiddu kvótakerfi sem gerði fiskveiðiauðlindina við Ísland að eign einstakra fyrirtækja og einstaklinga sem þeir gátu flutt til og frá og selt. Sjálfstæðisflokkurinn styður að hinn frjálsi markaður myndi verð, en ekki þegar kemur að eignarhaldi öflugustu hagsmunaaðila landsins á sameign þjóðarinnar. Þeir vilja ekki hámarka verðið sem útgerðir borga fyrir afnot af auðlindinni vegna þess að slíkt myndi valda samþjöppun og röskun og hækkuðu verði, sem er nákvæmlega það sem kerfið þeirra hefur gert. Munurinn er að með uppboðsleiðinni sem byrjað er að prófa í Færeyjum fær ríkissjóður mun meiri tekjur, þar sem hið hækkaða verð berst í ríkissjóð frekar en í vasa þeirra sem hafa náð yfirráðum yfir takmarkaðri auðlind. Fyrrverandi hagstofustjóri Færeyja segir í samtali við Stundina að tekjur Færeyinga af uppboði á veiðiheimildum muni á endanum „duga til að standa straum af öllum heilbrigðisútgjöldum landsins og lækka tekjuskatt umtalsvert“.
Markaðsleiðin er góð en ekki þegar hún afléttir eignarhaldi valdamestu fyrirtækja landsins á eigninni sem átti ekki að geta orðið eign.
Í þessu máli virðist Sjálfstæðisflokkurinn – sem myndaður var úr Frjálslynda flokknum og Íhaldsflokknum – hafa tekið að sér að vera íhald frekar en afl sem styður frjálsan markað. Jafnvel þótt hann gæti þannig lækkað skatta.
Stóriðjan borgi meiri skatta – en samt ekki
Þrátt fyrir 90 milljarða króna veltu borgaði Alcoa á Íslandi engan tekjuskatt í fyrra, ekki frekar en fyrri ár. Það er vegna þess að félagið hefur greitt 57 milljarða króna til móðurfélagsins í Lúxemborg frá því að álverið á Reyðarfirði var byggt. Því Alcoa skuldar bara Alcoa, en ekki samfélaginu.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur þetta ekki óeðlilegt. Þrátt fyrir það segist hann vilja gera breytingar á lögum og koma í veg fyrir að fyrirtæki takmarki skattgreiðslur og að hagnaður þeirra renni úr landi. En það tengist ekki Alcoa.
Bjarni lagði hins vegar ofuráherslu á að lækka þann litla skatt sem álfyrirtækin borguðu þegar hann afnam stóriðjuskattinn. „Afnám raforkuskatts er forgangsmál,“ sagði Bjarni í fyrra, þegar hann ákvað að lækka skattbyrði álfyrirtækjanna um 1,3 milljarða króna.
Verðtryggingin afnumin – eða gerð verri
Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur selt okkur í nokkur ár að hann muni afnema verðtrygginguna – „þetta er einfalt“ – „ekki flókið“. En svo varð þetta flókið. Hann vildi afboða kosningar sem voru boðaðar til að sefa mótmæli gegn honum vegna þess að hann taldi flokkinn sinn þurfa lengri tíma til að afnema verðtrygginguna. Niðurstaðan var hins vegar að bæta hag fólks með því að meina því að taka lán til lengri tíma en 25 ára og þrengja þar með hópinn sem getur tekið húsnæðislán. Seðlabankinn segir að tilgangurinn sé óljós. Vitað er að einföld leið til afnáms verðtryggingar er upptaka annars gjaldmiðils, til dæmis evrunnar. Framsóknarflokkurinn hins vegar lokaði þeirri leið þrátt fyrir loforð um að leyfa fólki að velja um hana. Áður hafði flokkurinn selt okkur að við ættum að taka upp kanadískan dollar, við litlar undirtektir Kanada.
Höldum nýja þjóðaratkvæðagreiðslu til að hunsa
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, leiðir nú hóp þingmanna til að boða þjóðaratkvæðagreiðslu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Sami flokkur og lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Og sami flokkur og hunsaði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem grunnur að nýrri stjórnarskrá var samþykkt 2012. Þetta minnir á nautabökur Gæðakokka, sem innihéldu ekkert nautakjöt. Eða nautakjötrétti Findus, sem innihéldu 100% hestakjöt.
Mesti stuðningurinn
Forsætisráðherra, sem hefur þurft að segja af sér og hangir á formannssæti flokksins síns meðan þrír þingmenn hafa boðið sig fram gegn honum í kjördæminu hans, heldur því fram að hann hafi aldrei upplifað annan eins stuðning. „Ég upplifi gríðarlega mikinn stuðning, meiri en nokkru sinni áður,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í útvarpsviðtali á dögunum.
Hins vegar klippti hann saman allar fréttir Ríkisútvarpsins um erfiða stöðu hans og taldi þær ekki sýna fram á það sem þær sýndu, heldur að eitthvað sé að fjölmiðlinum. Hann hefur áður sagt að við glímum við „rof á milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar“.
Samsærið gegn flokknum
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og flokksmenn hans hafa varið mikilli orku og athygli í umræðu um gagnrýni á Framsóknarflokkinn að Ríkisútvarpið eigi í samsæri gegn flokknum, af óútskýrðum ástæðum. Þegar fréttamaður RÚV á Fundi fólksins sagði að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra væri feitur lýstu flokksmenn yfir staðfestingu á kenningu sinni.
„Þetta kemur ekki á óvart þegar RUV á í hlut og sannast þarna það sem margir hafa haldið fram um andúð RUV á Framsóknarflokknum. Formaður flokksins hefur þurft að þola andúðina lengi eins og allir vita þar sem RUV hefur leynt og ljóst unnið gegn honum,“ útskýrði Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
„Hér duga engar afsökunarbeiðnir – stjórn RÚV hlýtur að taka málið upp á stjórnarfundi og skoða landlæga og lárétta andúð starfsmanna stofnunarinnar í garð Framsóknarflokksins og þeirra einstaklinga sem eru innan hans raða,“ sagði þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir, sem hótaði RÚV niðurskurði vegna umfjöllunar 2013.
Fitufordómar eða lélegur húmor fréttamanns eru hins vegar engin staðfesting á andúð gegn Framsóknarflokknum, hvað þá annars óútskýrðrar andúðar heillar fréttastofu og stofnunar gegn flokknum.
Lág laun fólks eru allra hagur
Það er erfiðara að átta sig á trúverðugleika þeirra sem ekki eru við völd eða bjóða fram í fyrsta sinn. Til dæmis hvernig frambjóðandi Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem hefur verið ötulasti baráttumaður þess að almennir launþegar sætti sig við lág laun, ólíkt sjálfum sér, muni berjast fyrir bættum hag almennings.
Eða hvernig annar frambjóðandi Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, bregst við því ef hún lendir aftur í alvarlegum árekstri milli einkahagsmuna hennar og almannahagsmuna, eins og þegar hún varði bankana og réðist á gagnrýnendur sem starfandi forsætisráðherra þegar maðurinn hennar átti tæpan milljarð í hlutabréfum í Kaupþingi fjármagnaðan með kúluláni frá sama banka án vitundar almennings.
Eftir kosningarnar í haust verðum við væntanlega að sætta okkur við val okkar í tæp fjögur ár. Við erum neytendur og stjórnmálamenn eru framleiðendurnir, sölumennirnir og eftirlitið. Það sem gerist núna er að þeir munu reyna að framkalla stuðning okkar. Forsaga heiðarleika og ábyrgðartilfinningar, sem helst er hægt að mæla með trúverðugleika, og fjarvera augljósra mótsagna, er besta merkið um að varan sé ósvikin.
Athugasemdir