Við höfum alltaf litið á okkur sem góða gestgjafa. Líklega bestu gestgjafa í heimi. Af því að það hefur verið okkur svo mikilvægt að vera best, fallegust, sterkust. Þó það sé ekki nema miðað við höfðatölu.
Kannski hefur þetta með menningararfinn að gera. Fyrsti hluti Hávamála, sem var siðferðislegur leiðarvísir norrænna manna fyrir kristni, fjallaði um hvernig bæri að veita gestum góða móttöku. Og hvernig ferðalög eru dyggð, en það að hrósa sjálfum sér af visku er löstur.
Undanfarið hefur hins vegar komið í ljós að góðu gestgjafarnir við, lítum á gesti okkar sem skepnur. „Míga og skíta „glottandi“ við Gullfoss“, var sagt á stærsta fréttamiðli okkar á vefnum um daginn. Tilfellið var að einhverjir ferðamenn höfðu gert þarfir sínar utandyra skammt frá kaffihúsi við eina af helstu ferðamannagróðamaskínum okkar. Í sömu frétt kvartaði rekstrarstjóri kaffihússins við Gullfoss yfir því að það kostaði hugsanlega milljónir að kaupa klósettpappír fyrir túristana. „Starfsfólkið sér þetta og bankar í gluggann en fólkið glottir bara og hverfur á braut,“ sagði rekstrarstjórinn, lýsandi skepnuskapnum í fólkinu sem heimsækir okkur.
Það fylgdi ekki sögunni að Kaffi Gullfoss hefur undanfarið grætt 60 milljónir á ferðamönnum á ári, í hagnað eftir skatt. Eigendurnir fengu 30 milljónir í arð árið 2013. Það er fyrir utan metárin 2014 og 2015. Engu að síður þykir nauðsynlegt að rukka ferðamann þar um tvö hundruð krónur fyrir að fara á klósettið og sinna grunnþörfum sínum.
„Peningarnir sem fást með salernisgjöldum fara aðallega í að kaupa klósettpappír. Ég heyrði því einhvers staðar fleygt fram að klósettpappírinn einn og sér kosti nokkrar milljónir króna og gjaldið dugi stundum ekki,“ sagði sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun í viðtali við Morgunblaðið.
Staðreyndin er sú að eitt stakt salernisgjald nægir fyrir minnst þremur rúllum af salernispappír. Ef keyptur væri 200 blaða Euroshopper „lúxuspappír“ í Bónus á 479 krónur og gert ráð fyrir að hver athöfn krefjist 10 blaða að meðaltali kostar hver athöfn um 3 krónur. Ef gert er ráð fyrir 530 þúsund ferðamönnum á Gullfoss og að allir þeirra inspírerist af náttúruperlunni og sæki salernið í kjölfarið kostar klósettpappírinn jú um eina og hálfa milljón. Það er bara fimm prósent af arðinum sem eigendur kaffihússins greiddu sér 2013 og 2,5 prósent af hagnaðinum það árið.
Á Jökulsárlóni var kvartað undan því hvað ferðamennirnir væru ógeðfelldir að gera þarfir sínar utandyra, þannig að það mætti sjá klósettpappírinn á svæðinu. Jökulsárlón er eitt af tíu vinsælustu svæðum fyrir ferðamenn á landinu og þar loka salernin klukkan 7 á kvöldin, þegar nóg er eftir af hinni frægu miðnætursól sem við seljum og innlend sem erlend meltingarfæri enn virk.
Ferðamaður skapar ekki nema 100 krónur í tekjur stykkið, sagði eitt bæjarfélagið frá í fréttunum fyrir skemmstu, kvartandi yfir lágu ærgildi ferðafólks. Það gerir ekki nema um 1.500 krónur tonnið á túristum. Það er ekkert miðað við slægðan þorsk.
Við kvörtum yfir því, miðað við fjölmiðlana okkar, aftur og aftur, að ferðamenn séu að hegða sér eins og fífl. Þeir klifri ofan á ísjaka, traðki niður gróður og fari of nálægt heitum hverum, raski umhverfinu og setji sjálfa sig í hættu.
Þegar við lentum í fjárhagsvandræðum vegna oftrúar okkar á sjálfum okkur, eftir að við höfðum vænt erlenda gagnrýnendur um að vera öfundsjúkir út í okkur, í staðinn fyrir að líta í eigin barm, leituðum við til útlendinga um að koma til Íslands í ferðalag. Ríkismarkaðsfyrirtækið Íslandsstofa lét búa til myndskeið þar sem Íslendingar biðluðu til útlendinga að koma í heimsókn og myndbandi af brjálæðislega hamingjusömum ferðamönnum, sem við pródúseruðum, var dreift. Á myndbandinu, undir lagi Emiliönu Torrini, má meðal annars sjá: Ferðamann troða niður mosa í trylltum dansi, ferðamann dansa ofan á ísjaka ofan á vatni og ferðafólk stíga trylltan dans troðandi niður mold rétt við heitan hver. Í bakgrunni mátti reyndar greina ferðamenn standa rólega ofan á palli sem byggður var til að horfa á hverinn úr hæfilegri fjarlægð án þess að valda tjóni á umhverfinu.
En það sem við gerðum var að reyna að æsa fólk upp til að trúa því að það ætti að koma til Íslands og láta sem villtast með sem minnstum hugleiðingum um afleiðingar fyrir það sjálft og umhverfið. Vegna þess að við græddum á því að fólk trúði því. Fréttirnar fjalla síðan um þessa heimsku ferðamenn sem reyna að uppfylla þær væntingar sem þeim voru markvisst seldar: Túristar sem troða niður gróður, sem æða upp á ísjaka og jökla og skaða umhverfi hverasvæða og sjálfa sig.
Hversu langt erum við komin frá mennsku okkar ef við álítum að aðrar manneskjur beri að verðleggja í stykkjatali og að við eigum að stugga við þeim þegar þær gera þarfir sínar? Þar sem við trúum því, eins og ferðamálaráðherra okkar fullyrðir, að það sé sjálfgefið að þær geri þarfir sínar utandyra vegna hegðunarvandamála, frekar en að við sem gestgjafar séum að gera eitthvað rangt sem veldur því að fjöldi fólks tekur þá ákvörðun að gera þarfir sínar við óviðunandi aðstæður?
Hversu mikið þyrfti til að við sjálf myndum hafa hægðir úti við húsvegg í draumaferðinni okkar erlendis, glottandi af skömm þegar bankað er á rúðuna eins og við værum kettir í sandkassa? Eða eru túristar ekki manneskjur, heldur eitthvað sem ber að slægja eða rýja, en stugga við þegar það þvælist fyrir okkur gróðalaust í skepnuskap sínum, eins og þetta sé búfénaður Bjarts í Sumarhúsum?
Umræða þeirra sem lifa á túristunum um að þeir séu ógeðslegir gefur til kynna að ógeðið sé okkar megin.
Við ættum líklega að hætta að veita ferðaþjónustunni skattaafslátt. Hún borgar 11 prósent virðisaukaskatt á meðan annað, fyrir utan mat og bókasölu, ber 24 prósent skatt. Skatttekjurnar væri hægt að nýta til að tryggja mannsæmandi aðstöðu á helstu ferðamannastöðum sem við seljum fólki að heimsækja. Það væri betra að færri kæmu vegna þess. Því ef við getum ekki eða viljum ekki koma fram við gesti okkar eins og manneskjur, vegna þess að við græðum ekki nóg á þeim, eigum við ekki að bjóða þeim heim. Við þurfum ekki að tapa gildum okkar aftur vegna græðgi.
Ronko donko dagga ronko donk donk.
Athugasemdir